Fyrirsögnin hér að ofan er þýðing á upprunalegum titli bókarinnar General and Particular Descriptions of the Vertebrated Animals, Arranged Conformably to the Modern Discoveries and Improvements in Zoology. Order Quadrumana, sem kom út í London árið 1821. Bókina setti saman breski lög- og náttúrufræðingurinn Edward Griffith (1790-1858) og átti hún að verða hluti af stóru ritverki um dýrategundir jarðarinnar. Það varð þó aldrei lengra en bara fyrsta bindið. Þetta fyrsta bindi fjallar um „ættbálkinn Quadrumana„, en það tíðkaðist meðal margra náttúrufræðinga á 17. og 18. öld að skipta ættbálk prímata í tvær deildir; Quadrumana, fjórfætlinga, og Bimana, tvífætlinga. (Var þetta aðallega tilraun mannanna að skilja sig, homo sapiens, frekar frá frændum sínum, hinum „lægri“ prímötum.)
Það voru því aðeins apar og lemúrar sem komu við sögu í bók Griffiths. Mikið var lagt í útgáfuna og bókin var ríkulega skreytt af handlituðum steinprentuðum teikningum, sem eru með fyrstu náttúrufræðilegu teikningum af prímötum. Því miður var sá ljóður á þessu tímamótaverki að teikningar Griffiths eru herfilega asnalegar og aparnir líkjast helst skrípalegum geimverum.
Sjálfur lemúrinn, lemur catta.
„Kínverski apinn, Simia sinica„. Þessi býr á Sri Lanka og er í dag þekktur undir latneska heitinu macaca sinica.
„Hægfara lemúrinn, Lemur tardigradus„. Í dag er þessi náungi þekktur sem lóris, ekki lemúr, enda býr hann á Sri Lanka og lemúra aðeins að finna á Madagaskar.
„Lubbalegi apinn, simia villosa„. Lutung, sem býr í Suðaustur-Asíu.
„Stóreyrnaapi, Simia midas„. Í dag þekkt sem rauðhent tamarín.
„Refaskottsapi, Simia pithecia„.
Griffith nefnir þennan „stökkapann„.
„Náttapi, simia trivirgata“.
„Silkiapi, Simia rosalia„. Ljónstamarín.
„Ljósi apinn, simia argentata„. Silfurapi, sem heldur til í Brasilíu.