Anna Margrét Björnsson er menningarblaðakona, rithöfundur og tónlistarkona, fædd árið 1972 í Stokkhólmi. Hún varði fyrstu árum sínum í sænsku höfuðborginni en ólst einnig upp í Lundúnum, Bonn og í Reykjavík. Anna stundaði háskólanám við University College í Lundúnum en þaðan lauk hún prófi í enskum bókmenntum. Hún hefur starfað sem blaðakona í rúma tvo áratugi, meðal annars hjá Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og Iceland Review, en hjá því síðastnefnda var hún einnig ritstjóri. Um þessar mundir skrifar Anna reglulega í Stundina og sinnir einnig ráðgjöf og almannatengslum innan menningargeirans.
Anna á sömuleiðis feril í tónlist og bókmenntum. Hún var í eyðimerkurrokkhljómsveitinni Two Step Horror sem starfaði á fyrri hluta síðasta áratugar. Sveitin gaf út þrjár breiðskífur, Living Room Music (2011), Bad Sides & Rejects (2012) og Nyctophilia (2014). Árið 2019 kom út fyrsta bókmenntaverk Önnu, barnabókin Milli svefns og vöku, sem var myndskreytt af Laufeyju Jónsdóttur. Bókin hlaut góðar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur sem besta myndskreytta bókin.
Anna ætlar að taka Proust-prófið, sem byggir á prófi sem Egill Helgason þýddi á sínum tíma, eins og áður hefur komið fram. Um sögu prófsins má lesa hér.
Sæl, Anna. Þessi aprílmánuður flaug algerlega frá okkur. Hvernig hefurðu það í dag?
Sæll Bjössi! Ég hef það bara alveg ljómandi gott í dag, ekki annað hægt, sólin skín, var á skemmtilegum fundi og er á leið á Þingvelli á eftir.
Gæti verið verra. Ertu klár í prófið?
Já ég held það, er kannski pínu stressuð!
Hver er þín hugmynd um hamingju?
Ég held að hún hafi breyst dálítið undanfarin ár og ég hef einmitt hugsað um þetta dálítið á þessum síðustu skrýtnu tímum. Hamingja fyrir mér felst í því að vera umvafin ást og þeim sem maður elskar. Hún er líka að verða innblásin af öðru fólki og einhverju fallegu. Og að hafa ástríðu fyrir hlutum, mér finnst það mikilvægt. Að geta notið augnabliksins og láta ekki hræðslu eða kvíða stjórna sér. Og já kannski finnast maður vera hluti af einhverju stærra en maður sjálfur.
Hvað óttast þú mest?
Í hreinskilni sagt þá held ég að þessa stundina óttist ég dauðann mest, hef dálítið verið að pæla í honum þar sem ég missti foreldra mína báða á skömmum tíma. En ég er að reyna að pæla dálítið í dauðanum og vera ekki hrædd við hann. Hræðist meira að missa fólkið sem mér þykir vænst um. Svo er ég lofthrædd, en svona helst fyrir aðra en sjálfa mig. Eftir að ég varð mamma varð ég hrædd um börnin mín til dæmis uppi á háum byggingum, eða fossum eða fjöllum, svona eins og þau myndu bara allt í einu hrapa niður. En átta mig á því að þetta er einhver kreísí fóbía.
Hvað er þér verst við í eigin fari?
Ætlí það sé ekki hvað ég get verið utan við mig. Sérstaklega ef ég er kvíðin. Man stundum ekkert hvað ég var að gera akkúrat þá stundina. Þetta hefur oft komið mér í vandræði, held til dæmis að ég hafi einu skilað sokk í stað vídeospólu á vídeoleigu.
Hvað er þér verst við í fari annarra?
Bara svona almennt lélegt fólk. Sem talar bara um lélega hluti, svona fasteignir og peninga og eitthvað þannig. Og ég þoli ekki karlrembur, lygar, né meðvirkni. Akkúrat núna hef ég litla þolinmæði fyrir samsæriskenningafólki og besserwisserum.
Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest?
Fræga þá? Ef svo er þá tók ég einu sinni viðtal við Alejandro Jodorowsky. Hann er algerlega magnaður. Hann las líka í Tarot spil fyrir mig. Hann er alveg að verða hundrað ára og hefur gert frábærar inspirerandi myndir og svo skrifar hann bækur, hann er svona andlegur lærifaðir minn myndi ég jafnvel segja.
Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi?
Núna? Hanga í símanum, rífa sjálfa mig niður, drekka rauðvín? Held að ég sé samt almennt alveg hófsöm.
Hvert er hugarástand þitt núna?
Það er mjög gott, ég hef verið í dálitlu ójafnvægi þar sem faðir minn dó í miðju Covid ástandi í mars. Þannig sumir dagar eru mjög tregafullir en aðrir mjög góðir. En almennt er ég bjartsýn fyrir sumrinu, hlakka til að fara í sumarfrí innanlands, takast á við skemmtileg og skapandi verkefni og ég er fegin því að vera hér á Íslandi í þessum heimsfaraldri.
Hver er ofmetnasta dyggðin?
Af þessum klassísku dyggðum? Eða bara svona nútímadyggðum? Kannski að maður verði alltaf að vera rosalega hress og duglegur, svona „besta útgáfan af sjálfri sér.“ Er ekki að mælast til neikvæðni samt. En maður þarf ekki að vera alltaf að, í vinnu eða tómstundum, það er allt í lagi að bara vera, stundum.
Við hvaða tækifæri lýgurðu?
Þegar ég hef gleymt að gera eitthvað af því ég er stundum svo utan við mig, og skammast mín.
Hvað þolir þú minnst við útlit þitt?
Þegar ég var yngri var ég ósátt með allskonar, eins og til dæmis fannst mér nefið á mér of langt, en með aldrinum kemur bara svona meiri sátt við hvernig maður er. Akkúrat núna finnst mér samt hárið á mér mjög ljótt, ég þarf að fara í post Covid make over.
Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna?
Nærgætni, hlýju, gáfur, húmor, næmni, örlæti óháð fjárhag, styrk, ástríðu, víðsýni.
Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla?
Það hlýtur eiginlega að vera nákvæmlega það sama.
Hvaða orð, eða frasa, áttu til að nota of mikið?
Þegar ég heyri frasa sem mér finnst rosalega asnalegir þá byrja ég að apa eftir þeim í gríni. Þetta gerir það að verkum að ég byrja óvart að nota þá sjálf. Til dæmis eins og að segja „Blessaður meistari“ við alla eða „Kósí á okkur,“ og „geggjað“.
Hver er stærsta ástin í lífi þínu?
Börnin eru auðvitað endalaus stór ást en stóra ástin er Jón Ólafur Stefánsson, sálufélagi minn og sambýlismaður.
Hvar og hvenær varst þú hamingjusömust?
Þetta er erfið spurning! Ég hef verið lánsöm að hafa átt margar hamingjustundir, bæði með fólkinu sem ég elska og ein. Ég er mjög hamingjusöm þegar ég ferðast, innanlands sem utan, þegar ég uppgötva nýja staði eða nýja menningu. Þannig að ég nefni þá fremur nýlegar hamingjustundir, á ströndinni við Önundarfjörð í fyrrasumar og í eyðimörkinni í Marokkó um sólsetursbil fyrir tveimur árum.
Hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir?
Ég myndi vilja vera tímaferðalangur og fá að sjá atburði gerast í sögunni sem ég hef lengi velt fyrir mér. Ég myndi líka vilja kunna að spila á gítar eða bassa, ég lærði dálítið á fiðlu og píanó en sakna þess að kunna ekki að spila á gítar.
Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfa þig, hvað væri það?
Að vera skipulagðari, minna viðkvæm, hafa meira peningavit, vera betri í stærðfræði, vera með köttaða handleggi fyrir sumarið!
Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða lifandi vera, hvað væri það?
Má ég ferðast aftur í tímann? Ef svo er myndi ég vilja verða svona æðsti prestur í hofi í Forn-Egyptalandi. Mig langar að vita hvernig það var og hvað þeir voru að fást við. Sem lifandi vera er það pottþétt köttur, svona eyðimerkurkisi einhvers konar.
Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa?
Mér finnst fínt að búa í Reykjavik, en mér finnst mjög spennandi að prufa að búa á allskonar stöðum. Ég myndi vilja flytja aftur til Suðvestur-London en ég svona hálfólst upp þar, nema að það er ekkert rosa spennandi að vera þar akkúrat núna undir þessu pólitíska landslagi sem þar ríkir. Berlín finnst mér líka mjög þægileg og skemmtileg borg. Og ég væri alveg til í að eiga jörð í Afríku.
Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt?
Það eru hlutirnir sem hafa tilfinningalegt gildi. Appelsínugulur flauelissófi frá foreldrum mínum, skartgripir frá mömmu, hringur frá kærastanum mínum, styttu eftir Einar Jónsson langömmubróður minn, fyndin gömul ljóð eftir börnin mín og mér þykir líka vænt um gamla Pajero-jeppann okkar, hann er grænn og heiðarlegur og hefur reynst okkur vel.
Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér?
Að missa börn eða maka.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Ferðast innanlands eða utan, á framandi slóðir, elda góðan og oft framandi mat, eyða heilum degi á skíðum uppi á fjalli, fara upp í sumarbústað á Þingvöllum, hlusta á góða tónlist, dansa við rokkabillí.
Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari?
Að ég er sterkari en ég hélt að ég væri. Að vera víðsýn og vera ágætlega skrifandi og fín tungumálamanneskja. Svo er ég örlát, blíð inn við beinið og stundum ansi fyndin. Vona ég.
Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi?
Fantasíubókmenntir hafa átt hug minn frá Lindgren og J.R.R Tolkien. Svo er það Kurt Vonnegut, Haruki Murakami, Roald Dahl og vinur minn Will Carruthers.
Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi?
Það er sennilega Morgan le Fay úr kvæðinu um Artúr konung, má það? Hún var samt kannski til, hver veit.
Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér mest að skapi?
Hatshepsut, hún var kvenkyns faraói í forn Egyptalandi og uppgötvaði ný lönd og hélt friðinn á meðan hún var við völd.
Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér síst að skapi?
Hitler og þessi steikta appelsína þarna í US of A.
Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi?
Tónlistarmaðurinn sem mér er mest að skapi er bróðir minn augljóslega, en já, listinn ansi langur. Til að stikla á stóru nefni ég Velvet Underground, The Cramps, The Cure, Stereolab, Kraut- tónlist ýmiskonar eins og Neu! Og Harmonia, Ennio Morricone, Angelo Badalamenti, Serge Gainsbourg, Eþíópíu-djassararnir Mulato Astake, og allskonar rokkabillí og síkadelíu bönd.
Hvernig viltu deyja?
Ég væri til í að vera ódauðleg, svona töff vampíra einhver. En annars þá myndi ég vilja sofna háöldruð í fanginu á ástinni minni.
Hvert er uppáhaldsblómið þitt?
Breska rósin, blágresi og fíflar, og í vasa heima þá bið ég oftast um túlípana.
Hvert er uppáhaldsfjallið þitt?
Það er Skjaldbreiður. Sumarbústaður fjölskyldunnar er við Þingvallavatn og ég hef litið hann augum frá því að ég var smástelpa. Hann er tignarlegur, hvítur og fagur. Og einu sinni gekk ég þangað upp.
Áttur þér eftirlætis einkunnarorð/mottó?
„Hvað er það versta sem getur gerst“ (til að róa fólk) og móttó er að það er alltaf hægt að ganga með sólgleraugu.
Prýðilegt! Þá er þetta komið. Kærar þakkir fyrir að taka Proust-prófið og góða ferð á Þingvallavatn.
Takk kærlega fyrir mig og bið að heilsa Þýskalandi!