„Hulme hálfmánarnir” voru vígðir 1972 í Manchester. Aðeins 12 árum síðar var húsaþyrpingin opinberlega yfirgefin. Fólk bjó þó í blokkunum fram til um 1991 og þar voru til dæmis haldin rave. Eftir hryðjuverk IRA sumarið 1996 var borgin enduruppbyggð og þá hurfu síðustu leifar hálfmánanna.
Ég gerði fyrirlestur um daginn um Hulme Crescents-blokkirnar í Manchester í námskeiði um félagslegt húsnæði í námi mínu í borgarfræðum við Bauhaus-Universität í Þýskalandi.
Þær voru með metnaðarfyllstu félagsbústöðum allra tíma og stærsta slíka verkefni í Evrópu þegar blokkirnar voru vígðar árið 1972.
Árið 1984 var ástandið á svæðinu hins vegar orðið svo slappt að ekki þótti lengur sanngjarnt að rukka leigu. Blokkirnar höfðu einnig verið „bannaðar börnum“ frá árinu 1974, eftir að barn hrapaði af svölum einnar götunnar í háloftunum.
Fólk bjó samt enn í íbúðunum til 1991 eða svo. Sumar íbúðir voru algerlega ónothæfar, öðrum var breytt í skemmtistaði til að halda rave-partý. Fyrir utan blokkirnar, sjálfa hálfmánana, var síðan PSV-klúbburinn, þar sem Factory Records var stofnað árið 1978.
Allavega.
Hulme Crescents var loks rifið niður en það tók sinn tíma. Alveg helvíti mikil steypa sem þurfti að hreinsa upp.
Það var í raun ekki fyrr en um sumarið 1996 þegar IRA sprengdi 1,5 tonna sprengju í miðborg Manchester, sem lagði hluta hennar í rúst. Sprengingin var sú kraftmesta í sögu Bretlands eftir seinni heimsstyrjöldina. Enginn lést en 212 slösuðust. Tjónið var metið á um milljarð punda.
Hryðjuverkið varð, í öllu falli, að nokkurs konar vendipunkti í sögu borgarinnar.
Manchester fékk mikið fjármagn til enduruppbyggingar og loks var farið í að hreinsa almennilega upp eftir Hulme Crescents, auk þess sem farið var í fjölmörg verkefni til að gæða borgina lífi á ný. Húsnæðis- og menningarverkefni sem borgin nýtur enn góðs af.
En þetta rifjaði einnig upp fyrir mér að ég sjálfur var einmitt í Manchester stuttu eftir þessa sprengju. Með föður mínum. Í september 1996.
Og ég man hvernig allar byggingar í miðborginni voru klæddar risavöxnum tjöldum og hafði ekki hugmynd hvers vegna.
En það sem ég mundi svo líka var að þessi ferð bauð upp á frábært tækifæri. Á þessum tíma voru að ryðja sér til rúms svokallaðir víngosdrykkir.
Svona eins og Breezer, nema ekki Breezer því það var ekkert ennþá til. Þetta voru drykkir eins og Hooch! Og ég man að ég hafði séð frétt um að þetta væri faraldur í Englandi og unglingadrykkja hafði færst í aukana og allt væri á niðurleið.
Ég var því að sjálfsögðu búinn að ákveða löngu áður en við fórum að ég ætlaði að ná mér í smá af þessu Hooch!
Rétt áður en við pabbi fórum á flugvöllinn náði ég að blekkja hann. Sagðist ætla út í sjoppu að kaupa Skittles eða álíka, sælgæti sem ekki var fáanlegt á Íslandi á þeim tíma.
Ég fór í sjoppu nálægt hótelinu og komst yfir heilar fimm flöskur af Hooch! og eina flösku af Guinness-bjór. Setti þetta allt í bakpoka sem ég bar alla leiðina heim í Grafarvog.
Þetta var löngu fyrir 11. september og ekkert verið að leita í einu né neinu, hvað þá bakpoka hjá skjannahvítum unglingi frá Íslandi. En já. Þetta er sagan mín af Hulme Crescents, Corporation St. sprengingunni í Manchester og Hooch! (sem var frekar vondur drykkur ef ég man rétt).