Sögusagnir hafa lengi verið á sveimi um að Charles Manson hafi unnið í síld á Seyðisfirði sumarið 1963. Nú þegar safnaðarleiðtoginn og morðinginn dularfulli er horfinn til feðra sinna er ef til vill ekki úr vegi að rifja upp þær sögur. Bæjarbúar þeir sem mundu eftir Charlie á Austurlandi þetta sumar bera honum vel söguna, hann hafi verið siðprúður, kurteis og barngóður.
Manson var sakfelldur í réttarhöldum í Kaliforníu árið 1971 fyrir að fyrirskipa söfnuði sínum að fremja hrottaleg morð, þar á meðal á leikkonunni Sharon Tate. Sakamálið var eitt nafntogaðasta í sögu Bandaríkjanna og morðin vöktu óhug um allan heim, enda þóttu glæpir hins einkennilega söfnuðar sérstaklega hrottafengnir og óskiljanlegir.
Manson var einskonar trúarleiðtogi sem með dularfullum persónutöfrum náði að sannfæra tugi manna um að hjálpa sér í stórundarlegu ranghugmyndafræðilegu stríði. Síðar skrifaði Vincent Bugliosi saksóknari metsölubókina Helter Skelter um málið sem Lemúrinn mælir heilshugar með.
„Einstaklega lífseig saga“
„Réttarhöldin yfir Manson vöktu einnig mikla athygli á Seyðisfirði enda lengi verið á sveimi saga um að hann hafi verið þar eitt sumar skömmu eftir 1960. Þegar myndir af Manson tóku að birtast í fjölmiðlum sannfærðust margir Seyðfirðingar um að þarna væri á ferð sami maðurinn og hafði staðið á söltunarplani Haföldunnar nokkrum árum fyrr. Sagan um komu Mansons til Seyðisfjarðar er einstaklega lífseig og skýtur alltaf upp kollinum annað slagið.“
Þessi orð birtust 2003 í grein í helgarblaði DV um málið þar sem meðal annars var rætt við Jóhann B. Sveinbjörnsson bæjargjaldkera á Seyðisfirði sem vel mundi eftir Charlie í bænum sumarið 1963. Blaðið sagði einnig frá stuttri heimildarmynd um meinta Seyðisfjarðardvöl Manson, „Siðprúði fjöldamorðinginn“, sem hópur fólks gerði 2002, á námskeiði í kvikmyndagerð í tengslum við Listahátíð ungs fólks á Austurlandi. Ef einhverjir lesendur Lemúrsins hafa þessa heimildarmynd undir höndum eru þeir hér með beðnir um að smella henni á netið.
Kurteis og siðprúður
„Í myndinni er rætt við fimm Seyðfirðinga sem allir eru sammála um að Manson hafi verið í síld á Seyðisfirði einhvern tíma snemma á sjöunda áratugnum. Viðmælendurnir – Hrefna Sveinbjörnsdóttir, Jóhann Sveinbjömsson, Þorgeir Sigurðarson, Guðrún Katrín Árnadóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir – eru ekki á sama máli um hvaða ár Manson á að hafa verið á Seyðisfirði en árin 1963 til 1966 eru öll nefnd í því sambandi. Viðmælendurnir eru ekki heldur á einu máli um hvar hann bjó eða hversu margar konur voru í slagtogi með honum. Allir eru þó sammála um að Manson hafi komið vel fyrir, verið kurteis og siðprúður.“
Eins og DV benti á, getur þetta varla verið annað en þjóðsaga. Charles Manson var fangi í McNeil Island-fangelsinu í Washington fylki frá 1960 til 1967.
„Þó að sagan um dvöl Mansons á Seyðisfirði sé skemmtileg og sannorðir og vandaðir einstaklingar tilbúnir að leggja nafn sitt við hana verður hún þó að teljast vafasöm og í besta lagi lífseig þjóðsaga. Ekki skal dregið í efa að maður sem líktist Charles Manson í útliti hefur unnið í síld á Seyðisfirði í upphafi sjöunda áratugarins og ekki ólíklegt að hann hafi heitið Charles. Enginn sem haft var samband við hefur þó verið tilbúinn að staðfesta að eftirnafn hans hafi verið Manson.“
Vita einhverjir lesendur Lemúrsins um málið eða muna jafnvel sjálfir eftir Manson á Seyðisfirði eða síðhærðum manni sem var nauðalíkur honum? Segið okkur frá.
Jóhann B. Sveinbjörnsson sagði DV frá minningum sínum um Charlie sem bjó í tjaldi fyrir utan fjarðarþorpið undir Bjólfinum lungann úr sumrinu en fékk inni í verbúðinni eftir að fór að kólna um haustið.
Man vel eftir Charles Manson
„Ég man vel eftir Charles Manson og er alveg sannfærður um að þetta hafi verið hann,“ segir Jóhann B. Sveinbjörnsson, bæjargjaldkeri á Seyðisfirði og fyrrverandi lögreglumaður. Jóhann hóf störf sem bæjargjaldkeri á Seyðisfirði árið 1963, tuttugu og níu ára gamall, sama ár og sögusagnir herma að Manson hafi eytt sumrinu á Seyðisfirði.
Fékk lánaða hitaplötu
„Mig minnir að þetta hafi verið sumarið 1963 og ég vil taka fram að ég kynntist honum ekki mikið. Charlie, eins og hann var kallaður, vann í síld hjá Haföldunni og vakti nokkra athygli í bænum fyrir sítt hár og að yfirleitt voru tvær erlendar stúlkur með honum. Manni fannst hálfpartinn eins og hann ætti tvær konur.“
Jóhann segist muna vel eftir Manson þótt hann hafi svo sem ekki átt mikil samskipti við hann og að það hafi í raun ekki verið neitt sérstakt við hann. „Það var ekki fyrr en eftir að Manson komst í fréttir að fólk fór að rifja upp sögur um hann.“ Að sögn Jóhanns bjó Manson í tjaldi lungann úr sumrinu ofan við fjarðarþorpið undir Bjólfinum og mætti þaðan í vinnuna. „Þegar fór að líða fram á haust og farið var að kólna fékk hann inni í herbergi í verbúðinni og í framhaldi af því kom hann til mín upp á bæjarskrifstofu og bað mig að lána sér eldunartæki eða rafmagnshitaplötu.“
Jóhann segir að það hafi hist svo vel á hjá sér að hann hafi verið með tveggja hellna hitaplötu í kjallaranum heima hjá sér sem bróðir sinn hafi átt og það hafi verið komin „skjónuhefð“ á hana. „Ég gat því lánað Manson helluna en bjóst svo sem ekki við að fá hana aftur. Það kom mér því á óvart þegar Charlie kom með helluna upp á skrifstofu til mín og skilaði henni skömmu áður en hann fór, óskemmdri og allt.“ Aðspurður segist Jóhann telja að Manson hafi dvalið á Seyðisfirði í fjóra eða fimm mánuði. „Lungann úr sumrinu og fram á haust.“
Prúður og kurteis
Jóhann segir að eftir morðið á Sharon Tate hafi birst myndir af Manson í fjölmiðlum og að þá hafi margir Seyðfirðinga kannast við hann. „Hann var búinn að vera hérna svo lengi.“ Að sögn Jóhanns höfðu menn fyrir austan á orði að Manson hefði verið rólegheitamaður og prúður. „Hann var meðalmaður á hæð, rétt undir hundrað og áttatíu sentímetrum, dökkur yfirlitum, með skegg og sítt hár.“
Jóhann segir að Manson hafi verið barngóður og börnin í bænum laðast að honum við tjaldið. Þegar Jóhann er spurður hvort aldrei hafi læðst að honum efi um að þetta hafi í raun og veru verið Charles Manson segir hann svo ekki vera. „Ég er nokkuð viss um að þetta sé satt og margir á Seyðisfirði eru sannfærðir um að Charlie hafi í raun og veru verið Charles Manson.“