Endur fyrir löngu í fjarlægri vetrarbraut. Jæja, kannski ekki fyrir svo löngu síðan og reyndar ekki í fjarlægri vetrarbraut. Það eru að verða 50 ár liðin síðan fyrsta myndasagan í myndasagnaflokknum Valerian og Laureline kom út, en bækurnar (sem enn er verið að gefa út) voru tímamótaverk í evrópskum vísindaskáldskap.
Og nú hefur franski leikstjórinn Luc Besson kvikmyndað þetta verk. Dane DeHaan og Cara Delevingne fara með aðalhlutverkin:
En um hvað er upprunalega sagan?
Les Mauvais Reves, eins og myndasagan heitir á frummálinu, segir frá geimtímaferðalanganum Valerian, frá borginni Galaxity á plánetunni Jörð, sem ferðast aftur til miðalda á geimskipi sínu XB27. Þar hittir hann unga stúlku, Laureline að nafni, sem hann tekur upp á sína arma. Saman ferðast þau síðan sem útsendarar Geimtíma-stofnunarinnar í gegnum tíma og rúm.
Höfundar myndasagnanna, þeir Jean-Claude Mézieres og Pierre Christin, flétta inn í sögur sínar ýmis konar þjóðfélagslega gagnrýni, svo sem á neysluhyggju og heimsvaldastefnu. Myndasögurnar hafa einnig feminíska undirtóna sem sést best á þeim breytingum sem verða á persónunum eftir því sem sögurnar urðu fleiri. Þannig breytist Valerian úr óaðfinnanlegri hetju í fyrstu bókunum yfir í hvatvísan kjána sem fellur auðveldlega fyrir freistingum á borð við áfengi og kvenfólk.
Laureline er aftur á móti heilinn í þeirra samstarfi og bjargar Valerian iðulega úr klípu sem hann hefur komið sér í. Hún tekur sjálfstæðar ákvarðanir, sýnir frumkvæði og lætur engan segja sér fyrir verkum. Í fyrstu tveimur myndasögunum er hún í hlutverki óvirks þáttakanda í ævintýrum Valerians en það breytist frá og með þriðju bókinni. Í sjöttu bókinni má síðan segja að hún sé orðin aðalhetja bókanna og að Valerian falli í skugga hennar.
Margir vilja meina að George Lucas, skapari Stjörnustríðsmyndanna, hafi verið undir augljósum áhrifum frá myndasögunum um Valerian og Laureline. Líkt og í þeim líta geimskipin í myndunum út eins og þau séu mikið notuð, jafnvel úr sér gengin. Meira að segja svipar geimskip Han Solo (eða eigum við að kalla hann Hans Óla?) í Star Wars til geimskips Valerians. Um þetta voru höfundar myndasagnanna vel meðvitaðir eins og sést á mynd sem Mézieres teiknaði, en á henni má sjá þau Valerian og Laureline sitja til borðs með Princess Leia (Lilju prinsessu) og Luke Skywalker (Loga geimgengli).
Besson er annar leikstjóri sem hefur sótt hugmyndir úr smiðju þeirra Mézieres og Christin, samanber The Fifth Element frá árinu 1997. Það var því við hæfi að honum var fengið að leikstýra myndinni nýju.
Ein myndasaga um þau Valerian og Laureline hefur verið gefin út á Íslandi. Sú heitir Þúsund stjarnaveldið og var gefin út árið 1979 af bókaútgáfu Fjölva. Á þeirri útgáfu sést að áherslan er á Valerian sem aðalsöguhetju myndasagnaflokksins enda heitir flokkurinn í íslensku þýðingunni, „Valerian, sendimaður í tímafirð”. Eflaust hefur það með að gera að myndasagan er sú þriðja í röðinni og hlutverk Laureline því ekki eins veigamikið og það átti síðar eftir að verða.