Árið 1962 hlupu fjölmargir sænskir sjónvarpsáhorfendur apríl þegar sérfræðingur á vegum ríkissjónvarpsins útskýrði hvernig mætti fá litmynd á annars svarthvítt viðtæki með einu mjög einföldu ráði.
Eftir stutta kynningu birtist sérfræðingurinn Kjell Stensson á skjánum og útskýrði á mjög tæknilegan hátt hvernig hefði að tekist að leysa þetta flókna úrlausnarefni með tilvísunum í bylgjuvíxl og ljósbrot.
Með því að leggja yfir sjónvarpsskjáinn eitthvað efni með réttri möskvastærð mætti framkalla þessi bylgjuvíxl þannig að hvíta ljósið frá skjánum yrði litað.
Svo heppilega vildi til að nælonsokkar hentuðu vel til þess og því gætu áhorfendur heima í stofu sannreynt þetta sjálfir einungis með því að klippa þá í sundur og leggja yfir skjáinn.
Áhorfendur þyrftu svo að finna réttu fjarlægðina til að litirnir virtust réttir, annars væri hætt á að ljóshærðir kvenkyns þulir sænska ríkissjónvarpsins litu út fyrir að vera rauðhærðir til dæmis. Til að hjálpa áhorfendum að finna rétta fjarlægð birtist litaspjald á skjánum með heiti litanna sem áttu að sjást.
Auðvitað birtist aldrei litur á skjánum hvernig svosem fólk staðsetti sig en þúsundir Svía hlupu til og klipptu í sundur nælonsokka húsmóðurinnar og færðu sig fram og til baka fyrir framan skjáinn í von um það. Það var ekki fyrr en átta árum síðar, 1. apríl 1970, sem sænska ríkissjónvarpið hóf reglulegar útsendingar í lit.
Fleiri dæmi vorum á þessum tíma um að fólk léti gabbast í von um að hægt væri að fá lit á svarthvít sjónvörp. Sérstakir skermir voru seldir sem áttu að skauta ljósið frá sjónvarpinu til að það kæmi út í lit en útkoman var langt frá því að vera sannfærandi. Norska ríkissjónvarpið gabbaði áhorfendur líka með svipuðum hætti og hið sænska en staðhæfði að slökkva þyrfti á öllum öðrum raftækjum en sjónvarpinu til að fá litinn fram.
Hér fyrir neðan má svo horfa á gabbið í heild sinni