Undir lok nítjándu aldarinnar eru ýmis teikn á lofti á meginlandinu. Einkennandi fyrir þetta tímabil er bæði fegurð, andspænis hryllingi fyrri heimsstyrjaldarinnar eftir á að hyggja, en einnig menningarleg undiralda bölsýni. Snemma á 20. öld verða hin ýmsu afskipti nýlenduveldanna af Afríku til þess að auka á úlfúð milli Frakka og Þjóðverja.
Í mars 1905 hafði Vilhjálmur II, keisari Þýskalands, siglt til Tangier-borgar í Marokkó og haldið innblásna ræðu um möguleika ríkisins á að öðlast sjálfstæði. Svo segir Skírnir frá Marokkómálinu:
Friður hefir verið um álfuna alla þetta nýliðna sumar, enda færi ekki vel á öðru, rétt á meðan friðarþingið er háð. En vopnum brugðið og vakið blóð lítils háttar utanmarka, í þrœtulandinu Marokko.
…
Nú unnu [Bretar] það til samlyndis, að þeir gerðu þann sáttmála við Frakka, 8.apríl 1904, að Frakkar mættu átölulaust af þeirra hendi, Breta, »gæta friðar þar í Marokkó og veita fulltingi til þeirra umbóta, er landið þarfnaðist, hvort heldur væri í stjórnarháttum, búnaði, fjárhagsmálum eða hernaðarmálum; þeir mundu, Bretar, láta það hlutlaust, þótt Frakkar gerðu sem þeim líkaði í þeim efnum«.
Þar með hugðu flestir allri þrætu lokið um forlög Marokkóríkis.
En einn af höfuðdrotnum álfunnar kunni því ekki vel, að vera gerður forspurður um annað eins stórmál.
Það var Vilhjálmur keisari.
Vilhjálmur II keisari taldi sig geta hlutast um málefni Marokkó en hann hafði misreiknað stuðning við sig því öll Evrópuveldin, þar með talið Rússland og Bandaríkin líka, einungis að Austurríska-Ungverska keisaradæminu undanskildu, studdu áframhaldandi yfirráð Frakka í Marokkó. Vonarneistinn um sjálfstæði og fullveldi, sem Vilhjálmur 1 hafði kveikt hjá Abdelaziz soldáni var því fljótt slökktur (Marokkó öðlaðist sjálfstæði 1956).
Niðurstaðan varð því sú, eftir alþjóðlega ráðstefnu í Algericas á Spáni, að undirritaður var samningur þar sem Frakkar höfðu áfram tögl og hagldir í Marokkó en framseldu umboð til löggæslu til Spánverja.
En áður en el-Mokri sendiherra skrifaði undir samning til þess friðþægja heimsveldin, og á meðan Algeciras-ráðstefnan stóð ennþá á Spáni gerðist hræðilegur atburður í Frakklandi sem varð um stund til þess að færa Þjóðverja og Frakka saman.
Sagnfræðingar hafa löngum hrósað því hversu hröð iðnvæðingin var í Bretlandi, en það var að miklu leyti að þakka góðu aðgengi að kolum. Frakkar voru eftirbátar Breta og Þjóðverja og árið 1905 framleiddu þeir um 36 milljón tonn af kolum á ári samanborið við 236 milljón tonn í Bretlandi og 121 milljón tonn í Þýskalandi.
Helstu kolavinnslusvæði Frakklands voru í Norður-Frakklandi og við Courrieres nálægt Lens hafði kolavinnslufyrirtækið Compagnie des Mines de Courrieres látið grafa 14 námur og hjá því störfuðu hátt í tíu þúsund manns.
Ein helsta hættan sem steðjar að kolanámumönnum er að samssetning andrúmsloftsins breytist snögglega þannig að hlutfall eitraðra loftegunda verði of hátt. Evrópsku stórveldin sem leiddu iðnvæðinguna hafa hvert fyrir sig búið til orð yfir mismunandi samsetningar gasa í kolanámum. Bretar töluðu um raka eða damp og Þjóðverjar um veðurfar í námum. Einna hættulegast var ef loftið varð hreinlega eldfimt (oftast metangas), þá gat stakur neisti orðið til þess að setja af stað keðjuverkun sprenginga. Bretar nefndu slík fyrirbrigði firedamp, Frakkar Grisou en Þjóðverjar Schlagwetter. Enn ógnvænlegra er þó að strax í kjölfar slíkra neðanjarðargassprenginga verður til blanda af af eitruðum lofttegundum; koltvísýringur, kolmónoxíð og köfnunarefni sem bretar nefndu afterdamp og Íslendingar loftbrest.
Sú aðferð kolanámumanna að hafa kanarífugla með sér í búri ofan í kolanámum er vel þekkt en hún var þó ekki notuð fyrr en 1913 eða síðar. Önnur aðferð til þess að kanna loftgæðin er að nota svokallaðan Davy-lampa en það er lampi sem var hugvitsamlega hannaður fyrir kolanámur þannig að utan um kveikiþráðinn í lampanum er fínt net, með svo smáum loftgötum, að eldurinn nær ekki út fyrir.
Þeir 1665 starfsmenn Compagnie des Mines de Courrieres sem hófu nýja vakt klukkan 5:30 að morgni 10. mars 1906 höfðu engan öryggisbúnað. Án nokkurs fyrirvara varð hrikalega sprenging um klukkan 7. Út úr opum kolanámanna bárust reykský og eldtungur, lyftur sem notaðar voru til þess að ferja menn niður þeyttust upp. Neðanjarðarsprenging hafði ferðast allt að 110 km leið um göngin.
Hræðilegar lýsingar eru til af hendi fréttamanns Le Gaulois sem varð vitni að því þegar aflimuð, afskræmd og brennd lík og líkamshlutar voru færð upp á yfirborðið. Einhverjir hamingjusamir endurfundir urðu þó.
Að deginum loknum voru enn yfir þúsund námamenn neðanjarðar og litlar líkur taldar á að einhverjir myndu finnast á lífi.
Það er tæpast hægt að ímynda sér aðstæðurnar sem blöstu við björgunarmönnunum. Sumsstaðar höfðu burðarbitar gefið sig og þakið hrunið niður, eldar geysuðu víða og lyktin af brenndu og rotnandi holdi og eitruðum gastegundum fyllti vit þeirra.
Þann 11. mars komu björgunarmenn frá Hibernia-námunum í Vestfalíu. Þeir höfðu nokkra reynslu af björgunarstörfum og sérhannaðan öndunarbúnað.
Þessi samstaða milli Frakka og Þjóðverja varð austurríska kvikmyndagerðarmanninum G.W. Pabst innblástur til þess að búa til myndina Kameradschaft (1931), sem mætti útleggja sem Bróðerni, sem byggir á Courrieres námaslysinu.
Undir lok mánaðarins höfðu erfiðar aðstæður gert það að verkum að aðeins var búið að færa 189 lík upp á yfirborðið. Ekki voru taldar nokkrar líkur á að fleiri myndu finnast á lífi. Það kom því stórkostlega á óvart þegar 13 eftirlifendur fundust þann 30. mars.
Í heila 20 daga höfðu þeir vafrað um neðanjarðar og lifað af með því að drekka eigin þvag, borða barkann af trjáspýtum, dauð hrossahræ og mat úr nestisboxum sem þeir fundu. Þessir eftirlifendur voru náfölir, máttlitlir og með svarta bauga í kringum augun en þeir höfðu haldið geðheilsunni. Óttaslegnir ættingjar og aðrir þustu að opum kolanámanna og þurfti lögreglan að stemma för þeirra.
Tveimur hinna þrettán manna sem lifðu af, Henri Nény og Charles Pruvost var veitt orða fyrir afrekið. Í viðtali nokkrum árum síðar sagði annar úr hópnum sem lifði af, César Danglot, að Nény hefði orðið móðursjúkur í námunni, beðið aðra um að skilja sig eftir og jafnvel lagt til að myrða yngsta strákinn í hópnum og éta.
Þann 4. apríl, 25 dögum eftir sprenginguna fannst síðasti eftirlifandinn, Auguste Berthon. Sá hafði misst meðvitund við sprenginguna og vafrað stefnulaust þar til honum var bjargað. Ekki varð fleiri mönnum bjargað og tók það marga mánuði að hreinsa námurnar.
Heimildir
- The Courrieres Colliery Disaster, 1906. Robert G. Neville. Journal of Contemporary History, Vol. 13, No. 1 (Jan., 1978).
- The historiography of French economic growth in the nineteenth century. Francois Crouzet. Economic History Review, LVI, 2 (2003).