Það er viðeigandi á þessum ágæta miðvikudegi í aðdraganda heilagra páska að rifja upp Mánudagsblaðið, sem hlýtur að vera með athyglisverðari fyrirbærum íslenskrar fjölmiðlasögu en heyrist ekki oft getið í dag. Mánudagsblaðið var vikurit sem kom út í Reykjavík í frá 1948 til 1982, fyrst á mánudögum en síðar á föstudögum.

 

Agnar Bogason, úr viðtali, Jim Smart

Agnar Bogason. Mynd úr Vikunni, tekin af Jim Smart

 

Stofnandi blaðsins, ritstjóri og ábyrgðarmaður var Agnar Bogason. Agnar hafði farið til Bandaríkjanna árið 1940 til að læra tannlækningar, en hætti við tannlæknanámið og fór að læra blaðamennsku í staðinn. Árið 1947 sneri hann aftur heim til Íslands, ári síðar stofnaði hann Mánudagsblaðið og sá síðan um flest sem því viðkom í 34 ár. Agnar fékk heilablóðfall árið 1974 og eftir það kom blaðið óreglulega út. Það lagði síðan upp laupana árið 1982, ári áður en hann lést.

 

Í viðtali sem annar víðkunnur blaðamaður, Eiríkur Jónsson, tók við Agnar og birtist í 4. tölublaði Vikunnar árið 1979 tekur Agnar fram að þegar hann stofnaði blaðið árið 1948 hafi það ekki verið af hugsjónaástæðum, heldur til að skapa sér atvinnu. Hann lýsir formi blaðsins, sem var þá nýstárlegt í íslensku samhengi:

 

„Þó ég segi sjálfur frá þá held ég að ég hafi byrjað með dálítið nýtt í blaðamennsku þegar ég fór að gefa út Mánudagsblaðið. Ég setti blaðið upp á allt annan hátt en tíðkaðist hérlendis. Þótt ég hefði engar fyrirmyndir til að styðjast við beint þá miðaði ég við blöð eins og Daily News í New York og Chicago Sun. Þetta eru svona meira „sensation“-blöð eða æsifregnablöð. Þau miða við að hafa stórar fyrirsagnir á forsíðu, en lítinn texta og nota forsíðuna meira til að vísa til efnis inni í blaðinu.“

 

Mánudagsblaðið blað fyrir alla

 

Agnar sótti semsé fyrirmynd sína til bandarískra æsifregnablaða, og Mánudagsblaðið hafði vissulega æsifregnalegt yfirbragð og stíl. Það hefur enda verið kallað „hin eina sanna gula pressa“ í fjölmiðlalandslagi Íslendinga á sínum tíma. Agnar skrifaði stóran hluta blaðsins sjálfur. Efnisöflun hans fór mikið til fram við kaffidrykkju með ýmsu fólki í miðbæ Reykjavíkur, einkum á Hressingarskálanum og Borginni – allar fréttir blaðsins sagðist hann hafa „snapað upp“ á förnum vegi.

 

Agnar Bogason viðurkenndi fúslega að hann fylgdi íhaldinu að málum í pólitík en vildi þó ekki að blaðið væri flokkspólitískt, og af því að fletta Mánudagsblaðinu – sem er aðgengilegt á Tímarit.is – verður lesandanum fljótlega ljóst að ritstjóra þess var fátt heilagt. Sem er sennilega fullsnyrtilegt orðalag yfir stíl blaðsins á stundum. Hér eru nokkrar einkunnir sem því hafa verið gefnar:

 

Mánudagsblaðið sáluga … var á sínum tíma frægt að eindæmum fyrir að tala helst ekki vel um nokkurn mann“

 

Blaðið stundaði ögrandi blaðamennsku sem var blanda af hægristefnu, popúlisma og íhaldssemi“

 

Mánudagsblaðið var til hægri við McCarthy, Íranskeisara og Francisco Franco“

 

Greinar Mánudagsblaðsins eru á sinn hátt heillandi lestur. Þótt stíllinn sé æsifréttalegur fær maður stundum á tilfinninguna að þar haldi glottandi maður á penna, með kaldhæðna fjarlægð á eigin efnistök. Fréttir úr stjórnmála- og viðskiptalífinu voru stór hluti blaðsins og einnig menningarumfjöllun og -gagnrýni, oft vel ígrunduð og rökstudd. Þessi yfirvegaðri umfjöllun fléttaðist síðan saman við alls konar reyfarakenndari greinar með flennistórum, æsilegum fyrirsögnum sem hafa væntanlega átt að draga lesendur að blaðinu.

 

Undirrituð hefur einbeitt sér að allra æsilegustu skrifum Mánudagsblaðsins, það er að segja um kynferðismál, og er það yfirþyrmandi reynsla á köflum. Blaðið nýtti sér iðulega þá þekktu tækni að fjalla um djörf mál undir yfirskini fræðslu og siðaumvöndunar, en undirstrika á sama tíma mjög hina æsilegu þætti þeirra. Þessi stíll fléttast síðan saman við einhvers konar „þorir þegar aðrir þegja“-afstöðu.

 

Makaskipti í Reykjavík

 

Í MA-ritgerð Áslaugar Einarsdóttur um umfjöllun, en þó einkum þögn, íslenskra fjölmiðla um kynferðisbrot á 8. áratugnum sem síðar var fjallað um í bókinni Myndin af pabba. Saga Thelmu eftir Gerði Kristnýju og Thelmu Ásdísardóttur, er til dæmis lögð áhersla á að Mánudagsblaðið hafi verið eina blaðið sem sýndi málinu áhuga. Tvær greinar sem birtust þar árið 1972 hafi í raun verið kveikjan að lögreglurannsókn vegna málsins. Það var enda stundum vísir að einhvers konar rannsóknarblaðamennsku í umfjöllun blaðsins.

 

Eins og Áslaug tekur fram virðist Mánudagsblaðið hins vegar ekki haft burði til að fylgja málinu eftir, og ekki síður dró orðspor þess og annað innihald úr áhrifamætti umfjöllunarinnar. Auk hins hefðbundna æsifréttalega stíls var blaðið á þessum tíma byrjað að birta töluvert af nektarmyndum eða softcore klámljósmyndum, bæði í dálkum á borð við „Leikfang Mánudagsblaðsins“ en einnig sem myndskreytingu við fréttir um allt frá sólarlandaferðum til kynfræðslu. (Það skal tekið fram að Mánudagsblaðið var alls ekki eina blaðið sem notaði konur gagngert sem myndskreytingu á þessum tíma, en þær voru ívið fleiri og fáklæddari þar.)

 

Efnistök Mánudagsblaðsins þegar kom að kynferðismálum myndu seint kallast feminísk eða framsækin almennt. Á 7. og 8. áratugnum fagnaði það, líkt og fjöldi annarra blaða á Vesturlöndum, þeirri kynferðislegu frelsun kvenna sem var hluti af boðskap kynlífsbyltingarinnar, en lagði sig síður eftir ýmsum öðrum baráttumálum femínista á þessum tíma. Konur héldu áfram að vera fyrst og fremst passív viðföng á síðum blaðsins.

 

Meðfram nektarmyndunum birti blaðið safaríkar lýsingar á hnignandi siðferðisástandi þjóðarinnar – sem birtist meðal annars í eiturlyfjaneyslu, auknu hópkynlífi og uppgangi kynvillinga. Hér er til dæmis ómótstæðileg blanda hómófóbíu og hlutgervingar á forsíðu blaðsins skömmu eftir stofnun Samtakanna 78:

 

Kynvillufélag leyft á Íslandi

 

Þetta mótsagnakennda yfirbragð skrifanna í Mánudagsblaðinu var heldur ekki nýtt af nálinni á 7. og 8. áratugnum. Árið 1949 birtist til dæmis í blaðinu þessi allt að því glaðhlakkalega lýsing á meintum samskiptum íslenskra stúlkna og erlendra starfsmanna Keflavíkurflugvallar:

 

Frétt úr Mánudagsblaðinu um svallveislur

 

Eftir þennan lestur er síðan grátbroslegt að beina sjónum sínum yfir á hinn helming forsíðunnar, þar sem má finna þessa tilkynningu:

 

Kvennasíða Mánudagsblaðsins