Fegurðarsamkeppnir hafa löngum verið umdeildar og margir telja þær tímaskekkju í dag. Þó verður ekki deilt um að slíkar keppnir áttu drjúgan þátt í að móta sjálfsmynd Íslendinga á seinni hluta 20. aldar. Á Íslandi bjuggu jú fegurstu konur í heimi. Þetta var „staðreynd“ sem Íslendingar, hvort sem var í gríni eða í alvöru, þreyttust ekki á að minnast á.

 

Þessi hugmynd um yfirburði íslenskrar kvenfegurðar á sér langa sögu. Hana má t.d. sjá í greininni „Fríðustu dætur Íslands” sem birtist í Vikunni árið 1939:

 

Það er mál þeirra manna, sem víða hafa farið, og margar konur séð, að hvergi geti fegurri konur en á voru landi, Íslandi. Og þetta er ekki skrum, því að íslenzka stúlkan er hvort tveggja í senn: fagurlimuð og andlitsfríð. En þar við bætist sú sjaldgæfa gjöf guða, er þær hafa í ríkari mæli en nokkrar stallsystur þeirra, er í öðrum þjóðlöndum lifa, þá náðargjöf, sem á flestum Evrópu-málum nefnist: charmé. … Glæsileiki hennar á sjaldnast skilt við fágaðan kvenleika yfirstéttarkvenfólks erlendis, en er runninn frá öðrum og heilbrigðari rótum.

 

Grein þessi var ætluð í auglýsingaskyni fyrir fegurðarsamkeppni sem Vikan stóð fyrir og var sú fyrsta sem haldin var á Íslandi. Fyrir valinu varð tvítug Reykjavíkurmær, Lóló Jónsdóttir, sem var þá nýkomin úr listnámi í Þýskalandi. Keppnin virðist þó ekki hafa staðið undir væntingum því hún var ekki haldin öðru sinni.

 

Lóló Jónsdóttir. Mynd: Vigfús Sigurgeirsson

Lóló Jónsdóttir. Mynd: Vigfús Sigurgeirsson

 

Mögulega lýsti Lóló stemningunni í kringum keppnina best í viðtali við Vikuna með þessu tilsvari sínu:

 

[Blaðamaður:] Finnst yður ekki heiður að því að vera kjörin sem laglegasta stúlka landsins með svona yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða?

[Lóló Jónsdóttir:] Hvorugt.

 

Þann 17. júní 1948 var stofnað hið svokallaða Fegrunarfélag Reykjavíkur. Í stjórn þess sátu m.a. Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, Ragnar Jónsson í Smára og Vilhjálmur Þ. Gíslason skólastjóri Verzlunarskóla Íslands og síðar útvarpsstjóri. Markmið félagsskaparins var að fegra borgina og „kenna [íbúum hennar] smekkvísi og háttsemi”, eins og það var orðað í dagblaði Tímans.

 

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í Reykjavík 1947-1959

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í Reykjavík 1947-1959

Tveimur árum eftir stofnun Fegrunarfélagsins stóð það fyrir fyrstu fegurðarsamkeppninni sem haldin var í skemmtigarðinum Tívólí í Vatnsmýrinni en aðgangseyrinn að keppninni átti að nota til hinna ýmsu verkefna, meðal annars að lagfæra lóðina í kringum Iðnó. Sigurvegarinn átti síðan að hljóta nafnbótina Ungfrú Reykjavík.

 

Alls tóku fjórtán stúlkur þátt í keppninni og sá dómnefnd um að velja fegurstu stúlkuna. Í dómnefndinni sátu valdir fulltrúar úr menningar- og æskulýðsstarfi Reykjavíkur. Ævar Kvaran var t.d. fulltrúi leikara, Kjartan Guðjónsson, fulltrúi listmálara, Sif Þórz, fulltrúi listdansara og þeir Guðjón Einarsson og Benedikt Jakobsson voru fulltrúar íþróttafólks. Ungfrú Reykjavík átti sem sagt að sameina allt það besta sem prýða gæti eina konu. Hún átti að vera glæsileg, hraust, listræn og búin góðum hæfileikum. Reykjavík æskist einskis minna.

 

Fyrir valinu varð fulltrúi Austurbæjar, Kolbrún Jónsdóttir myndhöggvari, en hún hafði numið höggmyndalist við Mills College í Kaliforníu og var dóttir Jóns Þorleifssonar listmálara.

 

Ekki allir voru sáttir við hvernig staðið var að keppninni. Í aðsendri grein í Mánudagsblaðinu var keppnin sögð skrípaleikur þar sem fríðleika keppenda var verulega ábótavant. Greinarhöfundi þótti það frekar hart þar sem Reykjavík væri fræg fyrir fallegt kvenfólk.

 

Kolbrún Jónsdóttir

Kolbrún Jónsdóttir

 

Árið 1954 var fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland haldin í fyrsta sinn, en sú sem hlaut nafnbótina var ung Akureyrarmær að nafni Ragna Ragnars. Einhver óánægja var með þáttöku Rögnu þar sem Samband norðlenskra kvenna hafði samþykkt áskorun til stúlkna um að taka ekki þátt í keppninni. Sjálf sagðist Ragna ekkert hafa heyrt af þeirri áskorun og ekki séð neitt því til fyrirstöðu að taka þátt.

 

Valið fór þannig fram að aðgöngumiðinn að Tívólí gilti líka sem atkvæðaseðill. Ólíkt þeim keppnum sem áður höfðu farið fram var því engin dómnefnd sem ákvað sigurvegarann. Í fyrstu verðlaun var ferð til Parísar.

 

Ragna Ragnars

Ragna Ragnars

 

Árið eftir sigur Rögnu hlaut önnur Akureyrarmær, Arna Hjörleifsdóttir, nafnbótina ungfrú Ísland. Þetta varð Þjóðviljanum tilefni til þess að spyrja hvort það gæti verið að stúlkurnar frá Akureyri væru fegurri en þær í Reykjavík. Eins og nærri má geta var þeirri spurningu ekki svarað enda með eindæmum eldfim. Arna hélt um haustið til London þar sem hún keppti fyrst íslenskra kvenna í Ungfrú heimur (e. Miss World).

 

Guðlaug Guðmundsdóttir við komuna aftur heim til Reykjavíkur.

Guðlaug Guðmundsdóttir við komuna aftur heim til Reykjavíkur.

Árið 1956 hélt Guðlaug Guðmundsdóttir til Long Beach í Kaliforníu til að keppa í Ungfrú alheimur (e. Miss Universe). Um komu sína þangað sagði Guðlaug í viðtali við Tímann:

 

Það voru ljótu slagsmálin. Frekja og dónaskapur ljósmyndaranna var svo dæmalaus. Strax á tröppunum við flugvélina réðust þeir á mig þrír og heimtuðu að ég drægi pilsin upp fyrir hné. Eg neitaði þessu, en þeir tóku þá til sjálfir og skiptust á um að kippa pilsunum upp á meðan hinir tóku myndirnar. Annars finnst mér ljósmyndararnir frekar hugmyndasnauðir, því að flestar myndir, sem birtust voru sama uppstillingin. Ég sagði við Njál [Símonarson, fylgdarmann], að ef við fengjum fleiri slíkar móttökur, væri ég ákveðinn í að fara heim strax.

 

Þetta viðhorf Guðlaugar var dæmigert fyrir þær íslensku stúlkur sem kepptu í fegurðarsamkeppnum erlendis, en margar þeirra gáfu lítið fyrir umstangið í kringum keppnirnar.

 

Guðlaug kom fram nokkrum sinnum í amerísku sjónvarpi á meðan á dvöl hennar stóð í Bandaríkjunum, en á meðal þeirra sjónvarpsþátta þar sem henni brá fyrir var hinn geysivinsæli skemmtiþáttur The Ed O’Sullivan Show.

 

Að keppni lokinni bauðst Guðlaugu leiklistarnám sem hún hafnaði. Hún var ekki fyrsta íslenska stúlkan sem hafnaði slíkum gylliboðum. Bryndís Schram, sem kjörin var Ungfrú Ísland árið 1957, hafnaði tveimur kvikmyndahlutverkum hjá bandaríska kvikmyndarisanum Metro Goldwyn Meyer. Það þarf svo sem ekki að koma að óvart, þar sem flest þessara hlutverka voru lítilvæg og einungis ætluð til málamynda svo hægt væri að græða á keppninni. Að skuldbinda sig kvikmyndafyrirtækjunum í nokkra mánuði eða lengur þótti því ekki fýsilegur kostur.

 

Þær fegurðardrottningar sem tóku þátt í ungfrú alheimur dvöldu flestar hjá Vestur-Íslendingnum Ólafíu Swanson. Hér stillir hún sér á mynd með Bryndísi Schram.

Þær fegurðardrottningar sem tóku þátt í ungfrú alheimur dvöldu flestar hjá Vestur-Íslendingnum Ólafíu Swanson. Hér stillir hún sér á mynd með Bryndísi Schram.

 

Fyrsta fegurðardrottningin sem hugðist á einhvern frama erlendis var Sirrý Geirs, en hún var kjörin Ungfrú Ísland árið 1959. Sirrý varð í þriðja sæti keppninnar Ungfrú alheimur árið 1960 og líkt og aðrir keppendur bauðst henni tækifæri í Hollywood. Sirrý kom meðal annars fram í sjónvarpsþáttunum The Beverly Hillbillies, auk þess sem hún fékk lítil hlutverk í kvikmyndunum The Crawling Hand og Hitler, en síðari myndin fjallaði um síðustu æviár Hitlers. Systir Sirrýar, Anna Geirsdóttir, keppti einnig í Ungfrú alheimi og lenti í öðru sæti.

 

Vídjó

 

Systurnar Anna og Sirrý Geirsdætur

Systurnar Anna og Sirrý Geirsdætur

 

Árin 1961 til 1963 áttu eftir að verða drjúg fyrir íslenska fegurðardrottningar.

 

María Guðmundsdóttir

María Guðmundsdóttir

Ungfrú Ísland 1961 var María Guðmundsdóttir. María ólst upp á Djúpavík til 11 ára aldurs en Guðmundur Guðjónsson faðir hennar var framkvæmdastjóri síldarverksmiðjunnar á Djúpavík. Eftir að María komst í úrslit keppninnar Ungfrú alheimur, opnuðust fyrir henni ný tækifæri í París þar sem hún varð eftirsótt fyrirsæta. María varð brautryðjandi fyrir margar íslenskar stúlkur sem fylgdu henni á eftir í fyrirsætubransann.

 

Og Íslendingar vildu svo sannarlega hampa henni Maríu sinni. Þegar Júrí Gagarín kom í heimsókn til Íslands þann 23. júlí 1961 höfðu blaðamenn Vísis samband við fyrirsætuna og báðu hana um að koma með sér til að taka á móti sovéska geimfaranum. Mörgum þótti það eflaust kynleg sjón þegar María rétti Gagarín blómvönd, þar sem María var 1,74 metrar á hæð en Gagarín einungis 1,57. Vísir hafði sérstaklega orð á því að Gagarín hefði starað á Maríu af undrun „því að fegurðardrottning Íslands [var] jafnvel enn fallegri en sjálf [ítalska leikonan] Gina Lollobrigida“.

 

María Guðmundsdóttir og Júrí Gagarín á Keflavíkurfluvelli.

María Guðmundsdóttir og Júrí Gagarín á Keflavíkurfluvelli.

 

Það hlaut svo að koma að því að heimsbyggðin áttaði sig á því sem Íslendingar höfðu alltaf talið sig vita. Seint í ágústmánuði 1962 var Guðrún Bjarnadóttir frá Ytri-Njarðvík kjörin Miss International á Long Beach í Kaliforníu og sýndi þar með fram á, fyrir fullt og allt, að fegurstu konur heims kæmu frá Íslandi. Nema hvað?

 

Miss International 1963, Guðrún Bjarnadóttir

Miss International 1963, Guðrún Bjarnadóttir

Í fréttaskýringu AP fréttastofunar var sagt frá úrslitum keppninnar:

 

Undrun [sigurvegarans] yfir úrslitunum var ósvikin. Hún hélt ekki í fyrstu að hún hefði unnið, því hún þekkti ekki nafn sitt, eins og stjórnandinn, Lorne Green leikari, bar það fram, þegar hann lýsti yfir sigri hennar. Annars segir hún á góðri ensku að þetta sé auðvelt nafn, en þegar hún ber það fram er eins og steinvölufoss falli í íslenzkan fjörð.

 

Þegar Guðrún kom heim frá Bandaríkjunum biðu blaðamenn í ofvæni eftir að taka viðtal við hana. „Er karlmaður í lífi þínu?”, „Ætlar þú að gifta þig?”, „Afhverju notar þú ekki farða eins og aðrar konur?”, „Hvað ætlar þú að gera við peningana sem þú vannst í keppninni?” eru nokkur dæmi um þær spurningar sem Guðrún þurfti að svara frá blaðamönnum sem flestir ef ekki allir voru karlmenn. Af svörum hennar að dæma virðist Guðrún þó öllu nútímalegri í hugsun en blaðamennirnir. Annað hvort gerði hún góðlátlegt grín að spurningum þeirra með stríðnislegum svörum eða beindi athyglinni að atvinnu sinni sem fyrirsæta í París.

 

Guðrún Bjarnadóttir í frönsku tímariti árið 1967

Guðrún Bjarnadóttir í frönsku tímariti árið 1967

 

Það vakti svo furðu blaðamanna að Guðrún hafnaði heimsferð sem bauðst sigurvegara keppninar, en hún sagðist ekki hafa viljað ferðast um heiminn með einhverjum manni sem hún þekkti ekki og koma fram á skemmtistöðum eins og „annars flokks skemmtikraftur”.

 

Arftaki Guðrúnar á Íslandi var Thelma Ingvarsdóttir en hún var líka kjörin Ungfrú Norðurlönd. „Hvers getur ung stúlka óskað sér fremur” spurði Vísir  um velgengi Thelmu í fegurðarsamkeppnum.

 

Thelma Ingvarsdóttir

Thelma Ingvarsdóttir

 

Miklar væntingar voru gerðar til Thelmu að fylgja í fótspor Guðrúnar í Bandaríkjunum. Allt kom þó fyrir ekki því Thelma komst ekki í úrslit keppninnar, mörgum til mikilla vonbrigða. Það var þó ekki einungis stolt Íslendinga sem var sært. Samkvæmt slúðurdálki Tímans höfðu danskir fjölmiðlar á orði að Ungfrú Norðurlönd hafi verið beitt bellibrögðum í keppninni:

 

Thelma komst nefnilega að raun um hversu fegurðardrottningarnar geta verið góðar hver við aðra. Þó hún sem sýningar stúlka sé vön að koma fam fyrir fjölda af fólki, var hún mjög taugaóstyrk fyrsta kvöldið, en þá komu allar stúlkurnar, 120 talsins, fram fyrir dómendur og áhorfendur. Thelma bað því eina fegurðardrottninguna um taugastyrkjandi pillu. Stúlkan var öll af vilja gerð og gaf Thelmu pilluna, Það varð til þess að Thelma kom hálfsofandi til keppninnar — því að hún hafði ekki fengið taugastyrkjandi pillu — heldur svefnpillu!

 

Thelma var þegar orðin þekkt fyrirsæta í Danmörku þegar hér var komið við sögu og varð ásamt þeim Maríu og Guðrúnu meðal eftirsóknarverðustu fyrirsæta Evrópu. Síðar ákvað Thelma að helga líf sitt listhönnun.

 

Í starfi sínu sem fyrirsæta bauðst Thelmu að ferðast til hinna ýmsu landa.

Í starfi sínu sem fyrirsæta bauðst Thelmu að ferðast til hinna ýmsu landa.

 

Út hafa komið bæði ævisögur Maríu Guðmundsdóttur og Thelmu Ingvarsdóttur, skráðar af þeim Ingólfi Margeirssyni og Rósu Guðbjartsdóttur. RÚV gerði svo heimildarmynd um ævi Guðrúnar Bjarnardóttur, í umsjón Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur og Guðmundar Bergkvist, sem sýnd var í íslenska sjónvarpinu árið 2013.

 

Leðurblökumaðurinn þurfti eitt sinn að bjarga Ungfrú Íslandi úr klóm herra Frosta.

 

Vídjó

 

Myndir:

 

Guðrún Bjarnadóttir

 

Guðrún að taka saman mál Brigitte Bardot til að bera saman við sjálfa sig á safni Madame Tussauds

Guðrún að taka saman mál Brigitte Bardot til að bera saman við sjálfa sig á safni Madame Tussauds.

 

Guðrún nýkrýnd Ungfrú Ísland

Guðrún nýkrýnd Ungfrú Ísland.

 

Guðrún á forsíðu spænska blaðsins Blanco y Negro

Guðrún á forsíðu spænska blaðsins Blanco y Negro.

 

Guðrún í íslenskum búning á Long Beach í Kaliforníu

Guðrún í íslenskum búning á Long Beach í Kaliforníu.

 

 

 

Leikarinn Lorne Greene krýnir Guðrúnu sem ungfrú alheimur 1963

Leikarinn Lorne Greene krýnir Guðrúnu sem ungfrú alheimur 1963.

 

 

Guðrún krýnd Ungfrú Alheimur 1963

Guðrún krýnd Ungfrú Alheimur 1963.

 

 

guck

 

 

Guðrún og keppinautar hennar í Miss International

Guðrún og keppinautar hennar í Miss International.

 

 

 

2

 

 

3

 

 

 

Thelma Ingvarsdóttir:

 


t2

 

 

María Guðmundsdóttir:

 

marc3ada-3

 

Greinar:

 

 

grein-2

 

 

grein-4

 

 

grein-6

 

grein-7