Eftirfarandi grein birtist í Dagblaðinu þann 28. apríl 1981 og segir frá búðarhnupli tveggja rússneskra kvenna sem störfuðu í sendiráði Sovétríkjanna á Íslandi.

 

Tvær konur er tilheyra starfsliði sovézka sendiráðsins í Reykjavik voru staðnar að búðarhnupli í tízkuverzlun við Laugaveginn á föstudaginn. Kom þá í ljós að þær höfðu reynzt fullfíngralangar víðar í búðum borgarinnar. DB var í morgun kunnugt um nokkrar fleiri verzlanir þar sem lögreglan hefur komið í heimsókn, í þeim tilgangi að leita réttra eigenda að vörum sem fundust í fórum kvennanna.

 

Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri staðfesti í morgun að málið væri til rannsóknar hjá embætti hans. Sendiráð Sovétrikjanna hefur gert lögreglunni grein fyrir umræddum konum og fyrir liggur kæra eigenda tveggja verzlana á hendur þeim. Konurnar hafa ekki verið yfirheyrðar, en málið verður sent ríkissaksóknara til ákvörðunar.

 

Verzlunareigendur sem rætt var við í morgun voru sammála um að umræddar tvær konur úr sendiráðsliðinu væru vel þekktar hjá afgreiðslufólki í borginni. Þær eru þekktar fyrir tiðar heimsóknir í (aðallega) tizku- og snyrtivöruverzlanir. Þar hafa þær skoðað mikið og oft en keypt sjaldan eða aldrei. Kaupmaður sagði að fólk hefði vorkennt þeim vegna tungumálaerfiðleika og lofað þeim að skoða og spá í varning að vild, en nú kæmi í ljós að þær hefðu illa launað velvildina. Þær eru sagðar hafa sýnt einstaka kunnáttu við hnuplið.

 

Lítil fjöður varð til þess að upp komst um konurnar á föstudaginn. Afgreiðslumaður í tízkuverzlun tók eftir óskiptum áhuga þeirra á skrautfjöðrum sem lágu á búðarborðinu. Þær afþökkuðu þó þegar hann bauð þeim liðsinni með afgreiðslu.

 

Skömmu síðar tók afgreiðslumaðurinn svo eftir að hreyfing var komin á fjaðrahrúguna og ein lá á gólfinu. Hann hljóp til og varð fyrri til að taka hana upp, en tók þá eftir að væn visk af fjöðrum var komin í plastpoka sem konurnar höfðu meðferðis. Hann þreif þá af þeim pokann og skoðaði innihaldið. Í pokanum kenndi margra grasa, þar voru m.a. snyrtivörur og tizkufatnaður, allt vörur sem stolið var úr öðrum verzlunum. Konurnar tóku þá til við að hrópa „no police“ (ekki kalla á lögreglu!) og buðu fram nokkrar krónur til að sætta afgreiðslumanninn. En hann lét ekki segjast og kallaði til lögregluna. Í millitíðinni gerðist það þó að önnur konan tók á rás út úr búðinni. Ungur og fótfrár maður elti hana þá uppi og kom með hana inn aftur.

 

Verðmæti varningsins sem rússnesku konurnar stálu úr verzlunum var allt frá nokkrum hundruðum króna upp í nokkur þúsund. Þannig hafði blaðið spurnir af gleraugnaverzlun þar sem saknað var varnings fyrir allt að 4 þúsund krónum.

 

-ÁRH/A.St./BS.

 

Eftir ábendingu Þórðar Jónssonar.