Fáir menn voru jafn „amerískir“ og kántrísöngvarinn Johnny Cash. Þess vegna kemur dálítið á óvart að hann hafi talað þýsku og meira að segja sungið á því tungumáli!
Cash var fæddur í Arkansas í Suðurríkjum Bandaríkjanna 1932. Eins og margir ungir menn gekk hann í herinn 18 ára. Hann var sendur á herstöð flughersins í Texas þar sem hann fékk þjálfun í loftskeytatækni. Johnny Cash var svo sendur til Landsberg í Bæjaralandi í Þýskalandi þar sem hann starfaði innan loftskeytaherdeildar sem sá um að taka við Morse-skilaboðum frá Sovétríkjunum.
Örnefnið Landsberg er kunnuglegt. Adolf Hitler var sendur í fangelsið í Landsberg eftir hina misheppnuðu uppreisnartilraun í bjórkjallaranum í München árið 1923. Hitler nýtti fangelsisvistina í að skrifa Mein Kampf. Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar notuðu bandamenn fangelsið í Landsberg fyrir háttsetta nasista sem dæmdir voru í réttarhöldunum í Nürnberg. Um 300 nasistar voru teknir af lífi í fangelsinu.
Þegar Johnny Cash kom til Landsberg 1951 höfðu ný stjórnvöld í Vestur-Þýskalandi tekið við fangelsinu en Bandaríkjamenn voru engu að síður með herstöð í bænum.
Cash stofnaði fyrstu hljómsveit sína þar ásamt öðrum hermönnum, sem hét því skemmtilega nafni The Landsberg Barbarians.
Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, lést í mars 1953. Þegar það fréttist var Johnny Cash á vakt og tók við Morse-skilaboðunum um þessa stórfrétt. Hann var því líklega fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem frétti af dauða Stalíns!
Johnny Cash lauk herþjónustu í júlí 1954 og sneri heim til Bandaríkjanna. Hann lærði ágæta þýsku á meðan dvölinni stóð. Nokkrum árum síðar sló Cash í gegn í Bandaríkjunum. Þá var ákveðið að taka upp nokkur lög hans á þýsku.
Wer kennt den Weg (I Walk the Line)
Viel Zu Spät (I Got Stripes)
Hér eru enn fleiri lög:
Johnny Cash eldhress í þýskum sjónvarpsþætti árið 1983: