Á síðustu áratugum hefur verið erfitt að muna hver sé hæsta bygging heims. Á hverju ári hafa risið nýir skýjakljúfar sem brotið hafa öll fyrri met. Frá 2009 trónir Burj Khalifa í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum yfir heiminum, en hann er hvorki meira né minna en 829,8 metrar. Á öldum áður voru píramídar og kirkjuturnar hæstu byggingar heims. Lítum yfir söguna af hæstu turnum sögunnar.

 

Í fyrstu Mósebók segir frá þegar mannkynið allt deildi sama tungumálinu og bað guð um að það mætti reisa sér borg og turn. Þegar guð sá borgina og turninn, sem kenndur var við Babel, á hann að hafa sagt að nú væri jarðarbúum ekkert ómögulegt á meðan þeir væru sem ein þjóð. Drottinn ruglaði þá tungumál þeirra og tvístraði mannkyninu um heim allan.

 

Þessi saga ætti að vera flestum kunn sem lesið hafa biblíufræðin sín. Í ljósi þessa er athyglisvert að frá stofnun kirkjunnar hafa kirkjunnar menn reist gríðarháa turna drottni til dýrðar, en frá 10. öld allt fram á þá nítjándu voru kirkjur hæstu byggingar veraldar. Hér verður sagt frá þeim kirkjum.

 

En fyrst skulum við víkja að hæstu byggingu fornaldar.

 

800px-kheops-pyramid

 

Í meira en 3.800 ár var Pýramídinn mikli í Giza hæsta bygging veraldar. Samkvæmt fornum heimildum var hann upphaflega 146 m hár en árið 1439 var hann mældur 139 m hár. Veður hafði þá sorfið hann niður með árunum. Í dag mælist hann 138,8 metra hár.

 

st_pauls_old-_from_francis_bond_early_christian_architecture-_last_book_1913 (1)

 

Margar af stærstu kirkjum miðalda voru byggðar í valdatíð Normannakonunga í Englandi. Sú stærsta þeirra var líklega Pálskirkjan í London. Eftir að eldsvoði hafði nánast eytt allri borginni árið 1087 lét Vilhjálmur sigursæli reisa þar nýja kirkju. Kirkjan átti að verða stærri og glæsilegri en allar aðrar kirkjur í Englandi. Tók rúm 200 ár með hléum að byggja hana.

 

Pálskirkjan hafði að geyma jarðneskar leifar heilags Erkenwalds sem var biskup í London á 7. öld og lögðu margir upp í pílagrímsferðir til að bera þær augum. Kirkjan var ekki einungis miðstöð trúarlífs í London heldur einnig verslunar. Kaupmenn reistu sér bása í stafni kirkjunnar líkt og kaupmennirnir í musteri Salómons samkvæmt Nýja testamentinu. Einnig kom fólk þangað til að heyra nýjustu slúðursögunar.

 

Gamla Pálskirkjan brann til grunna í brunanum mikla í London árið 1666. Karl II Englandskonungur fyrirskipaði þá Christopher Wrenn að hanna nýja kirkju sem er enn í dag meðal þekktustu kennileita borgarinnar.

 

lincoln_cathedral

 

Samkvæmt 19. aldar listgagnrýnandanum John Ruskin var engin kirkja á Bretlandseyjum merkari en Dómkirkjan í Lincoln. Um þessa fullyrðingu má auðvitað deila. Eitt er þó nokkuð víst að glæsileg er hún.

 

Byggingarsaga kirkjunar var ekki áfallalaus. Árið 1185 reið yfir England stærsti jarðskjálfti í sögu landsins. Við hann hrundi stór hluti byggingarinnar og stendur lítið eftir af upprunalegu kirkjunni.  Áföll sem þessi gáfu aftur á móti nýjum biskupum tækifæri til þess að gera endurbætur á henni og í leiðinni tengja nöfn sín við kirkjuna.

 

Árið 1307 var 160 metra hárri turnspíru bætt við kirkjuna. Með henni varð hún hæsta bygging veraldar. Þetta met átti hún allt til ársins 1549 þegar spíran brotnaði af henni í stormi.

 

800px-stralsund_marienkirche

 

Árið 2002 voru tvær borgir á norðurströnd Þýskalands settar á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta voru borginar Wismar og Stralsund. Báðar eru þær frægar fyrir gamlar múrsteinsbyggingar sem finna má í miðbæ þeirra. Síðarnefnda borgin er þó ekki síst fræg fyrir að hafa átt hæstu byggingu veraldar.

 

Maríukirkjan í Stralsund átti þennan titill til ársins 1647 þegar eldingu sló niður í klukkuturn hennar með þeim afleiðingum að turnin brann til grunna. Turninn var 151 metri á hæð og því lægri en turnspíran á Dómkirkjunni í Lincoln. Í staðinn fyrir að reisa annan eins turn var reistur turn með hvolfþaki í barrokkstíl. Sá turn stendur enn í dag og er 104 metrar á hæð.

 

strasbourg_cathedral_exterior_-_diliff-1

 

Frá Bretlandi og Þýskalandi yfir til Frakklands. Dómkirkjan í Strasbourg þykir eitt besta dæmið um gotneskan arkitektúr í Frakklandi og þó víðar væri leitað. Bygging hennar hófst árið 1015 og lauk ekki fyrr en 1439. Þegar kirkjuturn Maríukirkjunnar í Stralsund brann til grunna varð dómkirkjann í Strasbourg hæsta bygging veraldar en hann er 142 metra hár.

 

800px-cathedrale-de-strasbourg-img_1240

 

Einn af merkustu munum kirkjunnar er stærsta stjarnfræðilega klukka veraldar, sem smíðuð var árið 1843. Á hverjum eftirmiðdegi birtist lítið kristslíkneski ofarlega í klukkunni ásamt postulunum tólf á meðan líkneski af hana í fullri stærð galar.

 

Kirkjan hefur í gegnum tíðina verið hugleikin skáldum og rithöfundum á borð við Victor Hugo og Goethe en sá síðarnefndi sagði hana líkasta himnesku tré guðs. Það virðist því viðeigandi að fyrsta jólatréð sem heimildir geta um var sett upp í kirkjunni á 16. öld.

 

270px-hamburg_stnikolai_panorama

 

Árið 1846 var hafist handa við að endurbyggja Kirkju heilags Nikulásar í Hamborg. Til verksins var fengin Breti að nafni George Gilbert Scott en hann var sérfræðingur í endurbyggingu miðaldarkirkja. Nýi kirkjuturninn var mun hærri en turn gömlu kirkjunnar sem var rifinn skömmu eftir aldamótin 1800. Var turninn 147,3 metra hár þegar lokið var við byggingu hans árið 1874.

 

Kaldhæðni örlagana er sú að hin hái turn var mjög sýnilegur breskum flugmönnum í seinna stríði og notuðu þeir hann til að staðsetja sig þegar þeir gerðu loftárásir á borgina. Þannig hafði Gilbert Scott óafvitandi aðstoðað landa sína í hernaðaráætlunum sínum tæplega hundrað árum eftir að hann hannaði kirkjuna.

 

Eftir stríð var kirkjuskipið rifið og rústirnar notaðar sem byggingarefni, en borgin var illa útleikin eftir loftárásir bandamanna. Turninn fékk aftur á móti að halda sér sem minnisvarði um afleiðingar stríðsins.

 

376px-rouen_cathedral (1)

 

Árið 1822 sló eldingu í turn Dómkirkjunnar í Rúðuborg með þeim afleiðingum að hann brann til grunna líkt turn Maríukirkjunnar rúmum 180 árum fyrr. Þegar lokið var að endurbyggja hann árið 1876 var hann orðinn hæsti turn veraldar eða 151 metrar.

 

Fegurð kirkjunnar var franska málaranum Claude Monet mikill innblástur og málaði hann nokkrar seríur af byggingunni.

 

385px-claude_monet_-_rouen_cathedral_facade_i

 

388px-rouen_cathedral_west_facade_sunlight

 

Meðal þeirra fyrirmanna sem jarðsettir eru í kirkjunni má nefna Ríkharð ljónshjarta, Vilhjálm I af Normandí og Matthildi keisaraynju af Englandi.

 

cologne_cathedral

 

Dómkirkjan í Köln er stærsta gotneska kirkja heims. Hún var einnig hæsta bygging veraldar þegar smíði hennar lauk árið 1880. Bygging kirkjunnar hófst 1248 en hlé var gert á henni 1473 og var bygging kirkjunnar ekki hafin aftur fyrr en á 19. öld.

 

Kirkjan átti frá upphafi að hýsa jarðneskar leifar vitringanna þriggja. Beinin voru fyrst geymd í Konstantínópel en síðan flutt til Mílanó 344. Þegar Friðrik Barabarossa keisari innlimaði borgina í ríki sitt lét hann flytja hinar helgu minjar til Kölnar þar sem þær eru geymdar gylltu skríni.

 

cologne_cathedral_shrine_of_magi

 

Líkt og með kirkju heilags Nikulásar þá notuðu flugmenn bandamanna dómkirkjuna í Köln til þess að staðsetja sig. Lítið stóð eftir af þeim byggingum sem voru nágrenni kirkjunnar eftir loftárásir bandamanna. Sjálf kirkjan varð fjórtán sinnum fyrir sprengjum en stóð þær allar af sér.

 

munster-ulm (1)

 

Í fæðingarbæ Alberts Einstein, Ulm, er að finna hæstu kirkju veraldar. Ólíkt þeim kirkjum sem þegar hefur verið minnst á er kirkjan lútersk en ekki kaþólsk. Turn kirkjunnar er 161.5 metra hár og eru 768 þrep upp á efstu hæð hans.

 

Ulm Münster er síðasta kirkjan sem var hæsta bygging veraldar en ráðhúsið í Philadelphia í Bandaríkjunum átti þann heiður næst á eftir henni.

 

Hér eru svo nokkrar af hæstu kirkjum veraldar í dag.

 

400px-st_olafs_church_tallinn_july_2008 (1)

Ólafskirkjan í Tallinn, 124 metrar.

 

Péturskirkjan í Róm, 138 metrar.

Péturskirkjan í Róm, 138 metrar.

 

640px-0181-0183a_-_wien_-_stephansdom (1)

Stefánskirkjan í Vín, 136 metrar.

 

notre_dame_de_la_paix_yamoussoukro_by_felix_krohn (1)

Frúarkirkja friðarins á Fílbeinsströndinni, sem jafnframt er stærsta kirkja heim. 158 metrar.