Í september næstkomandi verða liðin 45 ár frá því að meistaraverkið Abbey Road með Bítlunum leit dagsins ljós. Platan var sú síðasta sem Bítlarnir tóku upp, þótt Let it Be ætti eftir að koma út síðar – en sú plata var byggð upp af efni sem hafði verið tekið upp áður.
Ljósmyndin sem prýddi plötuumslag Abbey Road er löngu ódauðleg en þar sjást Liverpool-fjórmenningarnir ganga yfir gangbraut á götunni Abbey Road í Camden-hverfi Lundúna. Skammt frá gangbrautinni er vitaskuld Abbey Road hljóðverið, þar sem Bítlarnir eyddu löngum stundum.
Hönnun umslagsins var í höndum breska listamannsins Kosh, sem starfaði þá fyrir Apple Records sem listaráðunautur. Upprunalegu hugmyndina átti hins vegar Paul McCartney. Myndatakan fór fram þann 8. ágúst 1969 á sólríkum degi, um sex vikum fyrir útgáfu plötunnar sjálfrar.