Hér er magnað viðtal við breska sagnfræðinginn Eric Hobsbawm (1917-2012). Ævi hans var að mörgu leyti samofin atburðum hinnar öfgakenndu og dramatísku tuttugustu aldar.
Hann var af gyðingaættum, fæddur árið 1917 í Alexandríu í Egyptalandi á dögum breska heimsveldisins. Hann fluttist síðar til Þýskalands þar sem hann varð árið 1933 vitni að valdatöku Hitlers. Hobsbawm flutti þá til Bretlands þar sem hann lærði sagnfræði. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Past and Present sem hafði mikil áhrif á sviði sagnvísinda.
Í viðtalinu fyrir ofan útskýrir Hobsbawm stjórnmálaskoðanir sínar á árum áður, hvernig hann mótaðist af kommúnisma á öld mikilla öfga. „Hlutverk sagnfræðinga er að muna það sem aðrir gleyma,“ sagði hann.
Árið 2012 sagði Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur þetta um Hobsbawm sem þá var nýfallinn frá, í viðtali við Vísi: „Bækur hans voru gríðarlega vel skrifaðar og það má segja að Öld öfganna, sem er líklega hans þekktasta rit, sé einstök að því leyti að hann var sjálfur fórnarlamb og afurð þessarar aldar sem gerir sjónarhorn hans svo einstakt.“
Að endingu birtum við ritdóm úr tímaritinu Sögu um íslenska útgáfu bókarinnar Öld öfganna frá 2000:
Eric Hobsbawm: ÖLD ÖFGANNA. SAGA HEIMSINS 1914-1991. Árni Óskarsson þýddi. Mál og menning. Reykjavík 1999. 648 bls. Myndir.
Tuttugasta öldin, hvað er það? Við höfum að undanförnu orðið vitni að rökræðum, jafnvel deilum, um það hvort henni hafi lokið í árslok 1999 eða hvort hún standi til loka ársins 2000.
Fyrir sagnfræðinga skipta slík ártöl þó í raun litlu máli nema sýnt verði fram á að þau marki söguleg tímamót, upphafið að nýju tímabili sögunnar og þá um leið endalok annars.
Það mun þó aldrei hafa gerst á aldamótum, nema ef vera kynni er árin 1 mættust við upphaf tímatals kristinna manna.
Eric Hobsbawm er einn þeirra sagnfræðinga, sem skoðar söguna í stærri – eða smærri – heimssögulegum tímabilum en lætur sér aldaskipti tímatalsfræðinga í léttu rúmi liggja.
Hann ritaði á sínum tíma stórmerkt þriggja binda verk um hina „löngu nítjándu öld“, tímabilið frá upphafi frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 til upphafs fyrri heimsstyrjaldar árið 1914.
Nú hefur hann ritað bók um hina „stuttu tuttugustu öld“, tímabilið frá 1914 til 1991.
Rök Hobsbawms fyrir þessari skiptingu eru einföld. Með frönsku stjórnarbyltingunni hófst óumdeilanlega nýtt tímabil í sögunni (a.m.k. í sögu Evrópu) og því lauk ekki fyrr en 1914: þróunin, sem hófst 1789 var samfelld til 1914.
Þá hófst nýtt sögulegt þróunarskeið, sem leiddi til októberbyltingarinnar í Rússlandi, valdatöku nasista í Þýskalandi, síðari heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins og mótaði alla stjórnmála-, efnahags- og menningarhugsun meginþorra mannkyns í tæpa átta áratugi.
Þessu söguskeiði, sem Hobsbawm kallar „megintímabil tuttugustu aldar“, lauk að hans mati með hruni Sovétríkjanna árið 1991.
Þá hófst nýtt tímabil, sem vafalaust mun ná fram á næsta árþúsund og óhjákvæmilega marka sögu a.m.k. fyrstu aldar þess að verulegu leyti.
Sagan er þróun og meginhlutverk sagnfræðinga er að skilja hana og skýra, miðla þekkingu á þeim skilningi, ekki síður en staðreyndum.
Og það er einmitt þessi þróunarskilningur, ef svo má að orði kveða, sem mótar umfjöllun Hobsbawms um sögu hinnar „stuttu tuttugustu aldar“ í þessari bók.
Hann skiptir henni í þrjú megintímabil, „hörmungaskeiðið“ frá 1914 til 1945, „gullöldina“ frá 1945 og fram um miðjan 8. áratuginn og loks „skriðuna“.
Þessi tímaskeið skarast óhjákvæmilega í ýmsum efnum en Hobsbawm tekst að tengja sögu þeirra með þeim hætti að við bókarlok hefur lesandinn fengið glögga mynd af sögulegri þróun tímabilsins og ákveðinn skilning á henni.
Eric Hobsbawm hefur lifað mestan hluta þess tímabils, sem hann fjallar um í bókinni, og sjálfur viðurkennir hann fúslega að það hafi áhrif á skoðanir sínar og umfjöllun. Það kemur þó ekki að sök, en skerpir ef til vill áherslur.
Flestir munu sammála um að Eric Hobsbawm sé meðal ritsnillinga í hópi breskra sagnfræðinga, og er þá langt til jafnað.
Árna Óskarssyni hefur tekist að þýða bók hans með ágætum, þýðing hans er lipur og ánægjuleg aflestrar, en þó kórrétt.
Á undanförnum áratugum hefur lítið verið þýtt af meiriháttar sagnfræðiritum á íslensku. Af þeim sökum er full ástæða til að þakka forráðamönnum Máls og menningar fyrir þetta framtak, sem vonandi er aðeins upphafið að öðru og meira. Af nógu er að taka.
Jón Þ. Þór. Saga 2000.