Á þessari frábæru mynd eftir Ronald Traeger má sjá þær Cynthiu Lennon, Maureen Starkey og systurnar Pattie og Jenny Boyd. Á myndinni klæðast þær fatnaði úr Apple-versluninni sem var staðsett við Baker-stræti númer 94 í miðborg Lundúna.
Bítlarnir ætluðu sér að sigra heiminn á öllum sviðum, þar á meðal í tískuheiminum. Klæðnaðurinn ber indverskt yfirbragð, en á þessum tíma voru Bítlarnir undir nokkrum áhrifum frá indverska gúrúinu Maharishi Mahesh Yogi. Verslunin opnaði 7. desember árið 1967 við miklar vinsældir, sem dvínuðu reyndar hratt. Búðinni var lokað aðeins átta mánuðum síðar og er yfirleitt talin eitt mesta klúður á ferli Bítlanna.
Cynthia Lennon giftist John Lennon í ágúst 1962, áður en Bítlarnir slógu í gegn. Ári síðar fæddist þeim drengur, Julian Lennon, nefndur eftir móður Johns. Hjónaband þeirra var stormasamt og einkenndist af mikilli áfengisneyslu og tíðum framhjáhöldum Johns. Í laginu „Getting Better“ viðurkennir John að hafa lamið Cynthiu, sem hann gerði reglulega.
Maureen Starkey var aðeins 18 ára árið 1965 þegar hún komst að því að hún væri ólétt eftir Ringo Starr. Þau giftu sig í kjölfarið. Hjónaband þeirra var heldur enginn dans á rósum. Framhjáhöld voru tíð og áfengisneysla mikil. Hvorug voru þau saklaus í þeim efnum, en verst var líklega þegar komst upp um ástarsamband þeirra George Harrison og Maureen. McCartney gekk svo langt að kalla sambandið sifjaspell. Margir telja lagið „Something“ eftir Harrison, vera samið um Maureen. Hún lést úr hvítblæði árið 1994.
Pattie Boyd hitti George Harrison við gerð myndarinnar A Hard Days Night. Hún myndi sennilega vera ósammála því að lagið „Something“ sé samið um Maureen. En í öllu falli tók það á hana að komast að sambandi George og Maureen. Skiljanlega. Mikill samgangur var meðal hjónanna, Maureen var vinkona hennar. Hún fór samt ekki frá George, ekki einu sinni þegar besti vinur George, Eric Clapton, játaði ást sína og samdi handa henni heila plötu – Layla and Other Assorted Love Songs með Derek and the Dominos.
Að lokum fór hún þó frá George, eftir tíð framhjáhöld hans og yfirgengilega kókaínneyslu. Þá fór hún loksins til Clapton. Boyd hefur orðið innblástur fjölmargra laga. „I Need You“, „Layla,“ „Bell Bottom Blues“ og „Wonderful Tonight“ til að nefna nokkur góð.
Jenny Boyd, systir Pattie, er sú eina á myndinni sem var ekki gift Bítli. Sögusagnir gengu um að hún hafi átt í einhvers konar sambandi með Paul, en það er ólíklegt. Á þessum tíma var hún hins vegar kærasta Alexis Mardas, betur þekktur sem Magic Alex. Sá skítablesi var einn mesti svikahrappur poppsögunnar og gerði Apple-fyrirtæki Bítlanna næstum gjaldþrota. Hann stakk reyndar undan skoska söngvaskáldinu Donavan, sem var áður kærasti Jenny. Hann samdi til að mynda lagið „Jennifer Juniper“ um hana.