Í dag eru liðin 50 ár frá því að þáverandi forseti Bandaríkjanna, John F. Kennedy, var myrtur í Dallas, í Texas. Morðið á Kennedy er án efa einn umtalaðasti viðburður 20. aldarinnar, ekki aðeins fyrir Bandaríkjamenn – heldur heimsbyggðina alla. Þeir sem muna eftir 22. nóvember árið 1963 geta til að mynda vafalaust sagt hverjum sem vita vill, hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu af því að forseti Bandaríkjanna hafði verið myrtur.

 

Gott og vel. Morðið á Kennedy er ekki aðeins umtalað, heldur er sakamálið sem fylgdi í kjölfarið eitt það umdeildasta í mannkynssögunni. Opinber söguskýring er sú að ungur maður, Lee Harvey Oswald, hafi staðið að baki morðinu einn síns liðs.

 

Flestir sérfræðingar um málið telja að fleiri hafi komið að morðinu.

 

Ein skýringin snýr að manni að nafni Charles Harrelson. Hann er einmitt faðir hins heimsfræga leikara Woody Harrelson, sem hefur meðal annars gert garðinn frægan í hlutverki trega barþjónsins Woody í sjónvarsþáttaröðinni Cheers, eða hins trega körfuboltaleikmanns Billy Hoyle í tímamótakvikmyndinni White Men Can’t Jump.

 

white-men-cant-jump

Woody Harrelson í tímamótahlutverki sínu sem Billy Hoyle, ásamt Wesley Snipes sem lék Sidney Deane.

 

Charles Harrelson var fæddur í Texas árið 1938. Ungur að árum var hann farinn að vinna fyrir sér með glæpum, og var sakfelldur fyrir vopnað rán árið 1960, en hér fyrir ofan má sjá fangamynd Harrelsons – hið svokallaða „mug shot”. Þá hafði framtíðarstjarnan Woody verið getin, hann fæddist 1961 þegar faðir hans var á bak við lás og slá. Þeir feðgar eru óneitanlega sláandi líkir.

 

Síðar á lífsleið Charles Harrelson, lenti hann í skotbardaga við lögreglumenn. Þetta var árið 1980. Þegar öll sund virtust lokuð, ákvað hann að öskra játningar á hinum ýmsu syndum til lögreglumanna sem voru, jú, að reyna að drepa hann.

 

Undir þessum erfiðu kringumstæðum játaði Harrelson að hafa myrt John H. Wood, sem var dómari í Texas og jafnframt fyrsti dómarinn sem hafði verið myrtur á 20. öld í Bandaríkjunum. Harrelson myrti Wood, þar sem sá síðarnefndi var í þann mund að dæma þekktan glæpakóng, Jamiel Chagra í fangelsi. Chagra hafði ráðið Harrelson til verksins.

 

En í skotbardaganum játaði Harrelson einnig, að hann hafi verið einn af þeim sem myrtu Kennedy.

 

Sagan segir reyndar, að Harrelson hafi margoft montað sig af því að hafa drepið Kennedy, löngu áður en til skotbardagans kom. Chagra var síðar handtekinn árið 1980 og var spurður hvort hann vissi eitthvað um málið. Hann svaraði því til að Harrelson hafi sagt honum að hann hafi skotið Kennedy, og ekki nóg með það – heldur hafi hann teiknað upp nákvæmar útskýringarmyndir sem sýndu hvar Harrelson var staðsettur þegar hann skaut, og hvar aðrir vitorðsmenn voru staðsettir einnig.

 

President-John-F-Kennedy

John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, ásamt eiginkonu sinni Jacqueline „Jackie“ Kennedy. Myndin er tekin um stundarfjórðungi áður en forsetinn var myrtur.

Staðreyndin er í öllu falli sú, að fjölmörg vitni morðsins á Kennedy sögðust hafa heyrt skothvelli á bak við „grösuga hólinn“(e. the grassy knoll).

 

Önnur staðreynd er sú að þrír menn voru handteknir skammt frá grösuga hólnum, rétt eftir að morðið hafði átt sér stað. Þessum mönnum hefur síðan verið gefið nafnið „umrenningarnir þrír“ (e. the three tramps).

 

cigarette-smoking-man

Sígarettugaurinn í X-Files, eða „The Smoking Man“ var m.a. byggður á E. Howard Hunt.

Sérfræðingar um Kennedy-morðið eru sammála um að tveir af þessum þremur mönnum voru þeir E. Howard Hunt og Frank Sturgis. Þess má til gamans geta að persóna „sígarettugaursins“ í sjónvarpsþáttaröðinni X-Files, er einmitt byggð á E. Howard Hunt.

 

Þeir Hunt og Sturgis eiga það í raun sameiginlegt að hafa haft fingurna í flestum stórviðburðum í sögu Bandaríkjanna á seinni hluta 20. aldar, og nægir þar að nefna Svínaflóainnrásina á Kúbu og Watergate-hneykslið. Þá er rétt að minnast á að synir Hunts hafa fullyrt að faðir þeirra hafi játað aðild sína að morðinu á Kennedy þegar hann lá banaleguna. Hunt lést árið 2007.

 

En hvort umrenningarnir hafi átt beinan þátt í morðinu á Kennedy skal hér ósagt látið, og ennfremur er óljóst hvort Charles Harrelson hafi verið þriðji maðurinn í umrenningagenginu. Sjálfur tók hann í það minnsta fyrri yfirlýsingar sínar þar um til baka síðar meir.

 

Hvað samband Charles og Woody Harrelson varðar, má minnast á að Woody heimsótti föður sinn nokkuð reglulega eftir að sá fyrrnefndi var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á dómaranum John H. Wood.

 

Charles Harrelson reyndi árið 1995 að flýja fangelsi, en hann þurfti lengst af að dúsa í hámarksöryggisfangelsi í Atlanta í Georgíu-ríki. Flóttatilraunin mistókst. Charles Harrelson lést í fangaklefa sínum árið 2007.

 

Frank_Sturgis_&_One_of_the_Three_Tramps_Arrested_after_JFK_Assassination

Frank Sturgis, sem hefur löngum verið bendlaður við morðið á John F. Kennedy, ásamt óþekktum „umrenningi,“ mögulega Charles Harrelson.