Voyager-áætlun bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA er eitt metnaðarfyllsta verkefni vísindamanna í sögunni. Tvö könnunarför voru send út í óravíddir geimsins. Þau svifu framhjá reikistjörnum og tóku ómetanlegar myndir af þeim og héldu síðan för sinni lengra út í geiminn. Geimförunum var skotið í loftið frá Canaveral-höfða í Flórída árið 1977.
Förin eru nú þeir hlutir sem ferðast hafa lengst frá jörðinni. Voyager 1 ferðast hraðar og er nú kominn út fyrir endimörk sólkerfisins okkar og svífur nú um óravíðáttur vetrarbrautarinnar.
Á Stjörnufræðivefnum má lesa allt um þessi för.
Einna merkilegast við þessi geimför eru ljósmyndir, hljóð og ýmislegt fleira sem sett var á koparplötur. Einskonar skilaboð frá jörðu til íbúa geimsins:
„Um borð í báðum Voyager-könnunum eru gullhúðaðar koparplötur sem innihalda ljósmyndir og hljóð frá jörðinni sem lýsa lífi og menningu jarðarbúa á áttunda áratugi tuttugustu aldar. Á plötunni eru skráðar leiðbeiningar hvernig leika eigi á plötuna og einnig útlistun á staðsetningu jarðar í Vetrarbrautinni. Plöturnar eru skilaboð frá jarðarbúum til hugsanlegs menningarsamfélags sem kann að leynast í Vetrarbrautinni, en ekki síður tímahylki fyrir afkomendur okkar sem geymir upplýsingar um okkur og þann tíma þegar við stigum fyrstu skrefin í könnun geimsins. Platan mun nefnilega endast lengur en mannkynið sjálft. Með plötunni fylgdi örlítið brot af geislavirku úrani. Með því að athuga hve mikill hluti úransins hefur hrörnað mætti reikna út hve lengi geimfarið hefur ferðast um geiminn.“
Og hér er hið magnaða myndasafn sem mun hvíla í Voyager-förunum um aldur og ævi – vonandi þangað til geimverur finna þau.