Árið 1988 kom stuttskífan Hold út, fyrsta plata gleðisveitarinnar Ham, einungis fjórum mánuðum eftir stofnun sveitarinnar. Hún vakti strax mikla athygli og furðu, enda var hún mjög forvitnileg. Á plötuumslaginu var óhugnanleg mynd af alblóðugum nöktum manni á bílskúrsgólfi með bundið fyrir augun.

 

Á plötunni voru alls fimm lög; Hold, Svín, Auður Sif, Transylvanía og síðast en alls ekki síst Trúboðasleikjari.

 

ham

 

Skömmu síðar sendu þeir frá sér tónlistarmyndband við lagið Trúboðasleikjari. Óttarr Proppé var því miður ekki á landinu þegar það var tekið upp en þeir fengu Stefán Karl Guðjónsson, trommuleikara Fræbbblanna, til liðs við sig.

 

Útkoman var í senn stórkostleg og hryllileg.

 

Þegar dagskrárstjóri RÚV fékk myndbandið á sitt borð neitaði hann að leyfa útsendingu þess, og segir sagan að hann hafi látið brenna eintak ríkismiðilsins. Þessi dagskrárstjóri var enginn annar en Hrafn Gunnlaugsson, sem ekki er hægt að segja að sé þekktur fyrir tepruskap.

 

Sem betur fer var þetta ekki eina eintakið af myndbandinu, en árið 2001 kom það fyrst fyrir sjónir landsmanna í heimildarmyndinni Ham: Lifandi dauðir en fyrr á árinu hafði sveitin komið saman á ný til að hita upp fyrir Rammstein á tónleikum þeirra í Laugardalshöllinni.

 

Síðan þá hefur þetta fræga tónlistarmyndband ratað á veraldarvefinn, og nú hingað á Lemúrinn:

Vídjó

 

Hér er hægt að hlusta á þetta stórgóða lag, Trúboðasleikjari:

Vídjó