Þýski nasistinn og stríðsglæpamaðurinn Erich Priebke er 100 ára gamall í dag, 29. júlí 2013. Fórnarlamba hans var minnst í dag.
Hann er nasisti úr röðum SS-sveitanna sem bjó í Argentínu áratugum saman á flótta undan réttvísinni.
Erich Priebke var yfirmaður hjá SS-sveitum Adolfs Hitlers. Hann hefur játað aðild að fjöldamorðunum í Ardeatine-hellunum á Ítalíu í seinni heimsstyrjöldinni. SS-menn drápu þá 335 ítalska andspyrnumenn í hefndarskyni eftir að 33 þýskir hermenn höfðu verið myrtir. Sjálfur myrti Priebke að minnsta kosti tvo þessara andspyrnumanna með byssu sinni.
Priebke fluttist til Argentínu eftir stríðið og bjó þar í felum fram á tíunda áratuginn. Árið 1994 fann bandaríski sjónvarpsmaðurinn Sam Donaldson hjá ABC nasistann gamla í Bariloche og tók þetta viðtal við hann.
Priebke viðurkennir aðild sína að fjöldaaftökunni en segist aðeins hafa hlýtt skipunum.
Hann var framseldur til Ítalíu fljótlega eftir viðtalið. Eftir áralöng réttarhöld var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi og er nú haldið í stofufangelsi á Ítalíu, enda er hann aldraður og ekki við nægilega góða heilsu til að dúsa í venjulegu fangelsi.