Á fótboltaleikjum í Svíþjóð er ekki óvanalegt að heyra sönginn „Alla heter Glenn i Göteborg (allir heita Glenn í Gautaborg)“. Stuðningsmenn Hammarby í Stokkhólmi byrjuðu að syngja þennan söng í úrslitaleik sænsku úrvalsdeildarinnar árið 1982 þar sem Hammarby mætti IFK Göteborg.
Í byrjun níunda áratugarins voru hvorki fleiri né færri en fjórir leikmenn liðsins sem höfðu nafnið Glenn að fornafni. Voru það þeir Glenn Hysén, Glenn Strömberg, Glenn Schiller og Glenn Holm.
Söngur stuðningsmanna Hammarby fór ekki verr í Glennana fjóra hjá IFK en svo að þeir sáu til þess að Gautaborg fór með sigur af hólmi. Árið 1982 átti eftir að verða það besta í sögu félagsins. Auk þess að vinna deildina þá varð IFK bikarmeistari og síðast en ekki síst urðu Gautaborgarar Evrópumeistarar þar sem félagið hafði betur gegn þýska stórveldinu HSV frá Hamborg.
Í leiknum gegn Hamborg átti einn af nöfnunum heldur betur eftir að koma við sögu. Glenn Schiller gleymdi skónum sínum heima í Svíþjóð og kom sér þannig í ónáð hjá þjálfaranum sem var enginn annar en Sven-Göran Eriksson. Rétt áður en leikurinn hófst þurfti Schiller skyndilega að hlaupa á klósettið og tókst honum að læsa sig inn á því.
Þegar hann loks náði að koma sér út af klósettinu kom í ljós að Glenn Hysén var meiddur og var Sven hoppandi brjálaður á bekknum vegna brotthvarfs Schillers. Fór allt vel að lokum, var Schiller skipt inn á í stað Hysén og sigruðu IFK leikinn að lokum og kórónuðu um leið besta tímabil í sögu félagsins.
IFK – HSV, árið 1982.
Í dag er söngurinn síður en svo níðsöngur því að stuðningsmenn IFK hafa tekið lagið upp á arma sína og á hverjum leik syngja þeir dátt: „Allir heita Glenn í Gautaborg“.
Þess má geta að í Gautaborg eru þrír sportbarir undir nafninu Glenn og brugghúsið Oceanbryggeriet bruggar bjór undir nafninu Glenn nr. 5.
Árið 2011 voru þetta margir Glenn á hverja 10.000 íbúa í nokkrum borgum í Svíþjóð:
Gautaborg 8,1
Kalmar 8,0
Karlstad 4,4
Halmstad 3,4
Stokkhólmur 2,5
Bullustúkan á Gamla Ullevi að syngja „Alla heter Glenn i Göteborg“
Að lokum má til gamans geta að í liði IFK Göteborg er að finna Íslendinginn og varnarjaxlinn Hjálmar Jónsson en hann hefur verið leikmaður IFK ellefu ár, spilað 344 leiki og skorað 15 mörk í þeim. Hjálmar er mikils metinn meðal stuðningsmanna IFK og syngja þeir jafnan nafn Hjálmars undir 2 Unlimited slagaranum No Limit.
Lagið um Hjálmar Jónsson.