Þessi furðulega mynd af Reykjavík birtist í bókinni Half Hours in the Far North árið 1875, alþýðlegu yfirlitsriti um nyrstu svæði jarðar. Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.

 

Reykjavík var ef til vill ekki notalegasti bær Evrópu á þessum árum en er þetta ekki yfirdrifið? Umhverfið á þessum guðsvolaða stað líkist Mordor í Hringadóttinssögu eða einhverju öðru helvíti. Og auðvitað er ljóst að listamaðurinn hefur aldrei til Íslands né Reykjavíkur komið.

 

Raunar var svo að myndskreytingar af þessu tagi, sem sýndu Ísland eins og hálfgert hrollvekjuland, hættulegan, dimman og bölvaðan stað, voru mjög útbreiddar á nítjándu öld.

 

Sumarliði R. Ísleifsson fjallaði um þess mál í greininni…við hlið hennar bliknuðu hinar dásamlegustu hallir Babýlónar og Forn-Grikkja“, sem birtist í tímaritinu Ný saga árið 1995. Í greininni rannsakaði Sumarliði myndskreytingar franska listamannsins Édouard Riou í víðfrægri skáldsögu landa síns Jules Verne.

 

Leyndardómar Snæfellsjökuls (Voyage au centre de la Terre) kom út árið 1864 og fjallaði, eins og frægt er, um mikla svaðilför til Íslands. Sumarliði skoðaði tengsl skrifa Verne og teikninga Riou í samhengi við ferðabækur um Ísland, sem urðu tiltölulega vinsæl rit á nítjándu öld eftir að evrópsku ferðafólki fór að fjölga á Íslandi. Báðir virðast steypa ýmsum lýsingum á landinu saman svo úr verður bjöguð mynd og ýkt. Enda heimsótti hvorugur Ísland um ævina.

 

Það er fróðlegt að skoða þessa myndrænu sýn Evrópumanna á Íslandi á nítjándu öld. Það var líklega erfitt að ímynda sér jafn framandi stað og Ísland var á þessum tíma án þess að hafa komið þangað né séð ljósmyndir þaðan.

 

 

Sumarliði lýsir þessari glæsilegu mynd svona:

 

Mikilfenglegt fannst Harry og Hardwigg prófessor um að litast við Stapa á Snæfellsnesi þar sem réðu ríkjum „blágrýtisveggir, undarlegir að lögun.“ Þar mátti víða sjá „dásamlega náttúrufegurð“ og var ekki hægara að bera þetta saman við annað en snilldarverk húsameistara fornaldarinnar, enda „var hér svo tröllaukna húsasmíði að sjá, að við hlið hennar bliknuðu hinar dásamlegustu hallir Babýlonar og Forn-Grikkja.“ Kvað höfundur klettavegginn við fjörðinn vera gerðan úr lóðréttum basaltsúlum, um 30 feta háum, og báru þær uppi láréttar súlur sem mynduðu eins konar þak. Sumar súlurnar voru þó fallnar og líktust engu fremur en rústum fornra mustera.“ Myndin [eftir Rouen] á að sýna umhverfi Stapa á Snæfellsnesi og er mjög í samræmi við skriflega lýsingu höfundar sem hefur verið rakin hér að framan.

 

Síðan rekur Sumarliði hvers vegna líklegt er að þessar lýsingar eigi uppruna sinn í ferðalýsingum á stuðlabergi á skosku eyjunni Staffa.

 


Sumarliði heldur áfram:

[Á þessari mynd] er sýnt lítið þorp við vatn. Húskofi er til hægri og nokkrir karlar eru á vappi við girðingu sem liggur niður að litlu vatni. Fjær er húsaþyrping og virðist kirkja vera fyrir miðju. Á myndinni má þekkja ýmis kennileiti. Lengst til hægri er hús Lærða skólans í Reykjavík en dómkirkjan fyrir miðju myndar og þar í milli núverandi stjórnarráðshús, „lítill kofi í samanburði við ráðhúsið í Hamborg en virtist sem höll í samanburði við önnur íslenzk hús.“

 

Dæmigert íslenskt hús er væntanlega að sjá fremst til hægri á myndinni. Þessi yfirlitsmynd er gerð eftir ákveðinni fyrirmynd þó að teiknarinn hafi ekki fylgt henni nákvæmlega.

 

Hefur hann haft til hliðsjónar mynd af Reykjavík sem birtist í bók Charles Edmonds, Voyage dans les mers du Nord (París, 1857) þar sem skýrt var frá för Napóleons prins til Íslands. Eru myndirnar svo líkar að vart fer milli mála.

 

Af orðum höfundar má ráða að hann hafði ekki háar hugmyndir um húsakynni íslensks almennings, enda væru íslensk hús þannig að allt virtist vanta annað en þökin og innanhúss væri oftast óbærilegur daunn „af þurrkuðum fiski, súrsuðu kjöti og súrri mjólk“, auk reykjarsvælu frá eldstó sem var kynt með fiskibeinum og mykju. Sökum ylsins spratt þó gott gras á þökunum og var það „slegið og notað til fóðurs“, enda óvíða annars staðar nokkur „gróður, engin tré og á allar hliðar hraunið.“

 

Lemúrinn hvetur lesendur til að lesa grein Sumarliða um þessar myndir til enda. En um þessa myndskreytingu Riou skrifar hann:

[Á myndinni], „Gata í Reykjavík“, sjáum við nánari útlistun á húsakosti almennings. Kofinn er vissulega lágreistur og gróskulegt er á þakinu.

 

Þar til hægri standa staurar upp í loftið og eins konar snúrur á milli þeirra. Þetta eiga vafalaust að vera skreiðarhjallar. Ekki er gott að átta sig á hvað konur í forgrunni hafa fyrir stafni; þá athugasemd gerði sögumaður um íslenskar konur að þær væru yfirleitt „fremur fríðar sýnum, en bera alvörugefinn sorgarsvip…“

 

Umhverfið er heldur ekki sérlega upplífgandi! Karlarnir fjær eru líklega eitt- hvað að bardúsa við fisk, enda var það þeirra höfuðstarfi að sögn höfundar. Hélt hann því fram að þeir væru yfirleitt „hraustir og þunglamalegir, bjarthærðir eins og Þjóðverjar, en íhugulir útlits … Stundum hlógu þeir tryllingslega en aldrei brostu þeir.“

 

Fleiri myndir Riou í bók Jules Verne:

 

 

 

 

Að endingu skulum við skoða fleiri Íslandsmyndir úr bókinni Half Hours in the Far North, sem nefnd var í upphafi greinar: