Fótboltaleikur með George Best, Bryan Robson, Ray Wilkins, Jóhannesi Eðvaldssyni og sjálfum Þorgrími Þráinssyni. Þetta hlýtur að hafa verið draumur. Eða hvað?
Nei, aldeilis ekki. Því sá ótrúlegi atburður átti sér stað í ágústmánuði árið 1982 að lið Manchester United spilaði tvo leiki á Íslandi. Einn á Laugardalsvelli gegn Val og einn á Akureyrarvelli gegn KA. Ef það er ekki nóg, þá má geta þess að George Best, einn besti leikmaður fótboltasögunnar, spilaði báða leikina – einn með Val og einn með KA!
Var þetta því mikill hvalreki fyrir íslenska knattspyrnu. Með Valsliðinu léku fleiri þekktir kappar, þar á meðal Jóhannes Eðvaldsson, sem hafði þá nýlega samið við Motherwell í skosku deildinni.
Með KA-liðinu lék einnig Arnór Guðjohnsen sem lánsmaður, en hann var þá samningsbundinn Lokeren í Belgíu og talinn einn efnilegasti leikmaður Evrópu.
Lið Manchester United var einnig virkilega vel skipað. Þar voru heimsklassaleikmenn á borð við Bryan Robson, Ray Wilkins og Frank Stapleton ásamt ungstirninu Norman Whiteside – sem hafði fyrr um sumarið slegið met Pelé sem yngsti leikmaður til að hafa nokkurn tímann leikið í lokamóti HM í fótbolta, en hann var aðeins 17 ára gamall.
Athugum hvernig blöðin fjölluðu um leikinn. Smellið á úrklippurnar til að sjá þær stærri.