Færeyjar eru enn næsta ósnertar af siðmenningu nútímans, sem og ferðamönnum. Siðmenningin nær hvergi fótfestu á stormasömum klettum þeirra; þar sem einungis getur þrifist líf byggt á ævafornum, frumstæðum hefðum. Og því hafa eyjaskeggjar, í eilífri glímu við veður og vinda, lítinn tíma aflögu fyrir ferðamanninn eða fé hans.“

 

Svo skrifar danski ljósmyndarinn Leo Hansen, í grein um Færeyjar sem birtist í bandaríska tímaritinu National Geographic, í nóvember árið 1930. Í greininni segir Hansen frá tíðum ferðum sínum til Færeyja til þess að taka ljósmyndir, og kynnir jafnframt bandarískum lesendum framandi menningu og náttúru eyjanna, og harða lífsbaráttu eyjaskeggja. Með greininni fylgir fjöldi mynda Hansens, sem sjá má hér að neðan.

 

Myndatextar eru þýðingar á upprunalegum myndatextum Hansens. Alla greinina má lesa hér (PDF-skjal).

 

ÞÓRSHÖFN, HÖFUÐBORG OG AÐALHÖFN FÆREYJA. Eldri hluti Þórshafnar er heillandi, þröngur og óreglulegur, og svolítið skítugur; nýrri hlutinn er hreinn, nútímalegur og ekki eins heillandi. Bárujárnsþök á nýjum byggingum eru kannski betri fyrir búsetu, en þau gleðja ekki augað eins og gömlu torfþökin, litríkt þakin grænu grasi og blómum. Þó að verði að flytja inn allt timbur feta eyjaskeggjar í fótsport forfeðra þeirra víkinganna og byggja hús úr timbri í stað steins.

 

Allar færeyskar stúlkur læra að prjóna, og allir drengir að róa árabát.

 

STOLTUR AF SINNI HRJÓSTRUGU EYJU OG FORNU TUNGU. Hærri laun og auðveldara líf á meginlandinu lokkar ekki færeyska bóndann frá torfkofanum sínum, jarðveginum þar sem ekkert korn þrífst nema bygg, og fjárhjörðinni sem þjáist jafn mikið og hann í hvassviðrinu sem úðar saltfroðu úr ofsafengnu hafinu yfir svarta klettana og beitilandið. Þegar hann finnur ekki einhverja ána veit hann hvað hefur gerst: vindurinn hefur feykt henni fram af kletti.

 

NÚ ER KOMINN MENNTASKÓLI Í ÞÓRSHÖFN. Færeyjar eru Danmörku hvorki tekjulind né sérstaklega mikilvægur markaður fyrir danskar vörur. Samt sem áður vinnur móðurlandið stöðugt fyrir eyjarnar, veitir mennta- og heilbrigðisþjónustu, eflir samskipti og þorsksölu.

 

EYJASKEGGJAR HALDA KAPPREIÐAR Á 29. JÚLÍ, ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGINN. Áhuga-reiðkappar, í hvítum skyrtum með bindi, þeysa á smáhestum á stökki niður síðasta spölinn. Færeyskir smáhestar, afkomendur keltneska smáhestsins sem er algengari í Hjaltlandseyjum og á Íslandi, borða fiskhausa þegar þeir fá ekki gras. Fjárhirðar á Suðurey nota hestana til þess að smala fénu. Þar hafa innfæddir þjálfað hestana, segir sagan, til þess að elta uppi kind og halda henni fastri milli framfótanna þangað til smalinn getur farið af baki og tekið við skepnunni.

 

NÝ BRÚ NAUÐSYNLEG FÆREYSKU VEGAKERFI. Tvær bifreiðar hafa verið fluttar til eyjanna, báðar bandarískar. Lengsta vegalengdin sem hægt er að ferðast í þeim er þrír kílómetrar, á þröngum vegi frá Þórshöfn. Það sem gondólinn er Feneyjum er árabáturinn Færeyjum.

 

 

 

KARLAR HALDA Í GAMLA FÆREYSKA BÚNINGINN FASTAR EN KONURNAR. Skór með sylgju, svartar hnébuxur og stuttur jakki skreyttur með skínandi hnöppum, og mjúk ullarhúfa með rauðum og dökkbláum eða svörtum röndum, er tískan á sunnudögum og hátíðisdögum. Maðurinn til vinstri er í hversdagslegum gæruskinnsskóm með ullarreimum.

 

DANS Á SUNNUDEGI. Færeysk saga í 200 versum, sungin við eitt lag, án undirleiks, er tónlistin við hringdans innfæddra. Á meðan þeir syngja fram á nótt stíga dansararnir frá vinstri til hægri, stundum hægt, stundum hratt. Konur mega vera með í gleðinni, en halda sig yfirleitt í eigin hluta hringsins.

 

ÓBLÍÐ LÍFSBARÁTTA SKERÐIR EKKI NORRÆNA FEGURÐ FÆREYSKRA KVENNA. Að spinna, vefa, prjóna, elda, þrífa og þurrka skreið, og halda áfram þegar eiginmenn og synir deyja á sjónum eða klettunum, þetta er hlutskipti færeyskra mæðra og dætra. Þeirra eina skemmtun er vísnasöngur á veturna og þjóðdansarnir. Oft, þegar mikill stormur geisar á eyjunum hjúfra heilu fjölskyldurnar sig við eldinn vikum saman, og hætta sér aldrei úr húsi.

 

Karlarnir spinna líka og kemba ull þegar veturinn lokar þá inni.

 

LYKTIN AF FERSKUM SALTFISKI UMLYKUR HAFNARBAKKANA. Vinnu karlanna lýkur þegar þeir koma heim með ferskt sjávarfangið. Færeyskar konur afferma skipin, hreinsa fiskinn, og með hjálp gömlu karlanna og barnanna, þurrka hann í slitróttu sólarljósinu.

 

ÞAÐ TEKUR TVO MÁNUÐI AÐ ÞURRKA ÞORSK Í FÆREYJUM. Þegar sést til sólar flýta konurnar sér út og breiða flökin á grýtta ströndina. Á hverju kvöldi og hvenær sem er hætta á rigningu verður að stafla fiskinum aftur í skjól.

 

STEINVEGGIR VEITA SKJÓL GEGN OFSALEGUM VINDUM. Skyndilegar vindhviður geta skollið á með styrk á við fellibyl, á meðan að kerti nokkrum metrum í burtu heldur áfram að brenna með stöðugum, beinum loga. Þvotturinn við bóndabæinn á Stóra Dímun hangir á stálvír, og tveggja metra þykkir, steyptir steinveggir veita frekari vörn gegn óútreiknanlegum vindum.

 

FRAM AF KLETTI EFTIR FUGLUM. Kletturinn rís næstum 200 metra yfir köldu, bláu hafinu, sem hann snýr yfirvegað baki í þar sem hann klifrar niður hamravegginn með netið sitt.

 

Þegar veiðimennirnir sveifla sér á klettasyllu fanga þeir fuglana með neti, snúa þá úr hálslið og láta þá falla niður í sjóinn þar sem bátsmaður safnar þeim saman. Mennirnir í klettunum verða að passa sig að missa ekki fugla eða egg eða losa steina yfir bátnum. Hlutir sem falla úr 200 metra háuum klettunum á Stóra Dímun ná miklum hraða. Til eru dæmi um að egg fari í gegnum botninn á árabát.

 

MEÐ BELTI ÚR SJÁVARPÁFAGAUKUM, EÐA LUNDUM. Fuglarnir eru borðaðir ferskir, saltaðir fyrir veturinn, eða stundum negldir á húsgafl og þurrkaðir. Fjaðrir fuglanna eru seldar á 25 sent pundið, og það þarf tvær tyfltir fugla fyrir eitt pund af fjöðrum.

 

LÍF HANS HANGIR Á BLÁÞRÆÐI. Veiðimaðurinn sveiflar sér fram og aftur, stekkur á syllu sem hann getur hangið á og fangað kvakandi fuglana í netið sitt. Steinar sem losna þegar reipið nagar hamravegginn þjóta hjá, hættulega nálægt. Hrynjandi steinar hafa drepið margan lundaveiðimanninn.

 

FÆREYINGURINN HÆTTIR LÍFI SÍNU FYRIR VETRARFORÐANN. Fjórir eyjaskeggjar grafa hælunum í lausgrýtið á klettasyllu og láta félaga sinn síga í reipi yfir þverhnípi sem hangir yfir sjónum. Markmið hins hugdjarfa veiðimanns eru hvítu syllurnar fyrir neðan hann, þar sem sjófuglarnir eru einum of vissir um öryggi sitt og reyna ekki einu sinni að fljúga burt þegar veiðimaðurinn nálgast. Þegar mennirnir fara að heiman til þess að veiða fugla í klettum Stóra Dímuns eru þeir oft syrgðir eins og þeir séu þegar látnir — svo hættulegur er starfi þeirra.

 

Færeysk nefnd leggur á ráðin hvernig best sé að koma kú um borð í bát.

 

GRÍPA LUNDA Á LOFTI. Veiðimaður vopnaður háfi með löngu skafti felur sig innan um grjótið. Þegar hópar sjávarpáfagauka eða lunda sem hringsóla um eyjuna fljúga framhjá fangar hann lipurlega fuglinn á ferð. Ef fuglinn er með fisk í gogginum sleppir veiðimaðurinn honum, því þá er hann á leiðinni að gefa ungunum sínum. Fær veiðimaður getur veitt þúsund lunda á dag.

 

BJÖRGUN ÓVEÐURSMUNAÐARLEYSINGJA. Vont veður í Færeyjum felur yfirleitt í sér rigningu, svo að óvenju hörð stórhríð veldur miklu tjóni í fjárhjörðinni. Ljósmyndarinn var með í hópi manna sem fór út eftir mikla snjókomu til að bjarga kindum. Þetta unga lamb fannst grafið niður í snjóskafli.

 

VÍKINGASKIP TUTTUGUSTU ALDAR BÚA SIG UNDIR KAPPSIGLINGU. Þröngir, hvassir með bogadregin stefni og skuti sýna færeyskir árabátar að þeir eru beinir afkomendur Víkingaskipanna sem norrænir menn sigldu á til Englands, Frakklands og jafnvel Bandaríkjanna fyrir þúsund árum. Það voru svona bátar sem Færeyingarnir hentust í á sunnudaginn, beint úr messu, þegar öskrandi sírenur tilkynntu að grindhvalavaða nálgaðist ströndina. Jafnvel presturinn tók þátt í drápunum sem tóku við.

 

Færeyskir smáhestar flækjast um götur Þórshafnar og bíta gras.

 

HVALSKIPIÐ „HEKLA“ FER Í HVALALEIT. Með skutulinn viðbúinn hringsólar gufuknúið hvalskipið um eyjarnar í leit að langreyðum og steypireyðum. Samkvæmt lögum verða hvalveiðimennirnir að selja innfæddum á lágu verði allt hvalkjöt sem þeir vilja, restinni má breyta í olíu til útflytnings.