„Andlit karlmannsins er ævisaga hans,“ sagði Oscar Wilde, „en andlit konunnar skáldsaga hennar“. Lemúrinn á bágt með að taka undir slíkt karlrembutal. En hann veltir fyrir sér hvort ævisaga manna búi í skeggi þeirra.
Helgi Hrafn Guðmundsson safnaði saman ljósmyndum af nokkrum skeggprúðum og löngu föllnum frændum vorum, mönnum sem sátu á Alþingi í kringum aldamótin 1900, og bar þær undir sérlegan skeggfræðing Lemúrsins, Siggeir Fannar Ævarsson, sagnfræðing og kennara.
En hann hefur rannsakað skeggvöxt Íslendinga og skrifaði lokaritgerðina Upphaf íslenskrar skeggtísku í sagnfræðinámi sínu í Háskóla Íslands. Lemúrinn hefur áður rætt við hann um þær rannsóknir.
Skeggrætt blindandi
Fyrst var lögð fram gáta. Siggeir fékk ekki að vita nafn þessa alþingismanns:
Siggeir: „Þessi herramaður kom nafnlaus í mínar hendur svo ég þekki ekki bakgrunn hans. Ef ég ætti að giska myndi ég giska á að hér væri sveitamaður á ferð (eru ekki ca 90% líkur á því á þessum tíma?) sem gaf sér ekki mikinn tíma til að hugsa um skeggið á sér, en þó einhvern. Hann er ekki bara með einn risa flóka eins og sumir bændur, en engu að síður frekar illa hirt skegg, lítið greitt og ansi tætingslegt. Með góðri greiðu og sápu, ásamt léttri snyrtingu, hefði eflaust mátt gera úr þessu hið myndarlegasta skegg.“
En þessi skeggprúði maður hét Gunnlaugur Briem og var fæddur á Melgraseyri á Langadalsströnd 18. ágúst 1847, dáinn 24. ágúst 1897. „Ráðsmaður á búi föður síns á annan tug ára. Verslunarmaður í Reykjavík 1882—1885. Verslunarstjóri í Hafnarfirði frá 1885 til æviloka.“ Alþingismaður 1883—1885.
Guttormur og frægur mexíkóskur skröltormur
En hvað er hér á seyði? Lemúrinn skeytti saman tveimur myndum. Þetta eru Guttormur Vigfússon sem sat á Alþingi fyrir Heimastjórnarflokkinn um aldamótin 1900, og Danny Trejo, bandarískur leikari af mexíkóskum ættum sem var bófi og tukthúslimur áður en hann sneri sér að hvíta tjaldinu.
Siggeir: „Guttormur og naglinn Danny Trejo eru nauðalíkir. Ætli það renni eitthvað íslenskt blóð í æðum mexíkóans grjótharða? Það sem skilur þó þá að er að mottan sem Guttormur skartar er um það bil eins þéttvaxin og hugsast getur. Stalín og Tom Selleck yrðu stoltir.“
Bjánalega sítt skegg
Siggeir: „Björn Hallsson er með það sem ég myndi kalla bjánalega sítt yfirvaraskegg. Yfirvaraskegg hafa löngum þótt virðuleg og margir borið þau með prýði, en þetta tekur út fyrir allan þjófabálk. Ég vona bara að hann hafi átt góðan skeggbolla.“
Björn Hallsson var fæddur á Litla-Steinsvaði í Hróarstungu 21. nóv. 1875, dáinn 18. nóv. 1962. Hann var bóndi á Rangá 1898—1958.
Vandað geitaskegg nítjándu aldar manns
Siggeir: „Það er best að hleypa kettinum bara strax út úr pokanum. Þetta skegg minnir alla á það sama, geithafur. Benedikt Sveinsson, prestssonur og lögfræðingur, skartaði þessum glæsilega geitatoppi. Hvað sem mönnum finnst um fagurfræðilegt gildi þessa skeggs þá er staðreyndin sú að á bakvið það liggur töluverð nákvæmnisvinna.
Líkt og þegar menn skarta bændakraga þá þarf að raka nokkuð nákvæmlega meðfram skegginu svo að útkoman sé mönnum bjóðandi og hægt að láta sjá sig á mannamótum. Þeir sem að lögðu í útlit eins og þetta hafa eflaust haft gaman af því að dúlla við skegg sitt. Þeir hafa ef til vill gert úr þessu hátíðlega athöfn fyrir kirkjuferð á sunnudögum og á öðrum merkisdögum. “
Benedikt Sveinsson var fæddur á Sandfelli í Öræfum 20. jan. 1826 (mun þó sjálfur hafa talið fæðingarár sitt 1827), dáinn 2. ágúst 1899.
Náttúrulegur vöxtur og hugsanlega skreyttur tóbakstaumum
Siggeir: „Hermann Jónasson er með eins náttúrulegt skegg og hugsast getur. Hér hefur náttúran fengið að ráða för frá fyrsta degi, fyrir utan smá snyrtingu á efri vör. Það væri gaman að sjá þessi mynd í lit, því ég giska á að skeggið sé rauðbirkið og fallegt, og um leið væri gaman að sjá hvort að greina mætti tóbakstauma í yfirvaraskegginu, en sagan segir að skeggið á efri vör margra íslenskra karlmanna hafi verið litförótt eftir margra ára tóbaksnotkun.“
Hermann Jónasson var fæddur í Víðikeri í Bárðardal 22. okt. 1858, dáinn 6. des. 1923.
Sigldur heimsborgari með Dali-skegg
Siggeir: „Ari Arnalds var sigldur maður. Hann var við nám í Hafnarháskóla og var síðar blaðamaður hjá Verdens Gang í Osló. Það má því nokkurn veginn slá því föstu að Ari hafi fengið smjörþefinn af alþjóðlegri skeggtísku á ferðum sínum og störfum erlendis.
Ari blandar hér saman nokkrum mismunandi stefnum. Það fyrsta sem grípur augað er að yfirvaraskeggið er hringað upp, væntanlega með einhverskonar vaxi. Listamaðurinn Salvador Dali átti síðar eftir að gera þennan stíl ódauðlegan.
Ari er svo nokkuð snöggklippta vanga, sem löngum hefur þótt móðins ef menn á annað borð safna miklu skeggi eins og Ari hefur gert. Hjá Ara eymir eflaust eftir af áhrifum úr sveitinni, þar sem menn báru gjarnan mikið og oft illa hirt skegg. Því er ekki að skipta hjá Ara sem hefur eflaust látið færan rakara snyrta skeggið til fyrir þessa myndatöku.
Punkturinn yfir i-ið er svo klofningurinn sem sést fyrir neðan höku þegar rýnt er í myndina. Heilt yfir er þetta afar svipmikið skegg, sem hefur krafist töluverðs nosturs til að halda því í horfinu. En ávöxtur erfiðisins er vissulega þess virði. Þetta er skegg sem ætti að vekja öfund hjá flestum skeggræktendum.“
Ari Arnalds var fæddur á Hjöllum í Gufudalssveit 7. júní 1872, dáinn 14. apríl 1957.
Veðmál á milli Ara
Siggeir: „Myndin af Ara Brynjólfssyni er ekki mjög skýr, og kolsvart skeggið gerir greininguna enn snúnari. Í fljótu bragði virðist hann vera með mjög svipað skegg og nafni hans Arnalds. Þeir félagar hafa e.t.v. verið með einhverskonar veðmál í gangi á Alþingi þennan veturinn. Kannski Mottumars þessa tíma.“
Ari Brynjólfsson var fæddur í Ormsstaðahjáleigu í Norðfirði 3. febr. 1849, dáinn 9. júlí 1925. Bóndi á ýmsum stöðum, til dæmis í Papey veturinn 1881-1882.
Bartabræður
Siggeir: „Bartar eiga sér langa hefð í skeggsögunni. Meira að segja Alexander mikli, sem fyrir mörgum er holdgervingur skeggleysis, er stundum túlkaður með barta. Eins og önnur skegg hafa þeir stundið fallið úr náðinni en uppúr miðri 20. öldinni hafa þeir komið sterkir inn hjá rokkstjörnum, sbr. Elvis og Lemmy úr Motörhead.“
Hvarf sporlaust og breyttist í Hollywoodleikara
Siggeir: „Eggert Gunnarsson er með ansi áhugavert skegg þar sem yfirvaraskeggið liggur hálfpartinn ofan á afgangnum svo að ekki verður úr ein heild heldur tveir aðskildir partar. Alskeggið er greinilega nýsnyrt, væntanlega af rakara því að slíkri nákvæmni er erfitt að ná nema með nútímarafmagnsklippum eða með utanaðkomandi aðstoð.
Ef ekki væri fyrir hið sérstæða yfirvaraskegg sem stendur lengst út í loftið gæti maður haldið að hér væri kominn aukaleikari úr Miami Vice þáttunum frá 9. áratug síðustu aldar. Sem væri reyndar ekki svo ótrúlegt því Eggert hvarf í Bretlandi og enginn veit hvar hann endaði ævi sína. Kannski komst hann einhversstaðar í æskubrunn og er núna Hollywood leikari undir dulnefninu Zach Galifianakis.“
Eggert Gunnarsson var fæddur í Laufási við Eyjafjörð 23. júlí 1840, en hann lést erlendis, óvíst hvar og hvenær.
Handfangastíll Björns
Siggeir: „Það er eins og Björn Bjarnason hafi ekki verið alveg viss um í hvaða átt hann vildi fara með sitt skegg (bókstaflega). Sennilegt verður þó að þykja að hann hafi haft að leiðarljósi svokallað handfangastíl (handlebar moustache) sem ekki ófrægari menn en Thedore Roosevelt, Wyatt Earp og síðast en ekki síst Vilhjálmur II skörtuðu allir.“
Björn Bjarnarson var fæddur í Skógarkoti í Þingvallasveit 14. ágúst 1856, dáinn 15. mars 1951.