Hann stendur fyrir aftan Bítlana á einni frægustu ljósmynd allra tíma. Hann var fyrir tilviljun staddur á Abbey Road í London hinn 8. ágúst 1969 þegar Bítlarnir gengu yfir götuna. Hann þekkti þá ekki í sjón, hélt að þetta væru einhverjir sérvitringar.

 

Bandaríkjamaðurinn Paul Cole lést 96 ára gamall í Flórída árið 2008. Hann birtist fyrir tilviljun á einni frægustu ljósmynd tuttugustu aldarinnar. Hann sést standa í bakgrunninum á ljósmyndinni þar sem Bítlarnir ganga yfir Abbey Road í London sem síðan var notuð á umslag fyrir hina frábæru Bítlaplötu Abbey Road sem út kom árið 1969.

 

Fyrir aftan þá John, Paul, Ringo og George stendur Paul Cole. Horfir á þá.

 

Ljósmyndin hefur í gegnum árin birst okkur aftur og aftur á óteljandi stöðum. Sérstaklega okkur sem kunnum að meta Bítlana. En það gerði Paul Cole hins vegar ekki, hann þoldi ekki glamrið í þeim. „Ég hef séð Bítlana í sjónvarpinu og heyrt nokkur lög þeirra. Þeir eru ekki mér að skapi. Ég vil frekar hlusta á klassíska tónlist,“ sagði hann eitt sinn.

 

Cole birtist fyrir tilviljun á ljósmyndinni. Hann var í fríi í London með eiginkonu sinni. Þau gengu um strætin og virtu fyrir sér mannlífið. Eiginkonan skrapp á safn en Cole ákvað að bíða á gangstéttinni fyrir utan.

 

„Ég sagði við hana: Ég hef séð nógu mörg söfn. Farðu inn, taktu þinn tíma og skoðaðu. Ég ætla bara að bíða hérna fyrir utan á meðan og fylgjast með því sem hér gerist,“ sagði hann.

 

Fyrir utan safnið hafði svörtum lögreglubíl verið lagt. „Mér finnst gaman að tala við fólk. Ég sá að lögreglumaður sat í lögreglubílnum. Ég byrjaði einfaldlega að ræða við hann. Ég spurði hann um allskyns hluti, um London og umferðarstjórnun, eitthvað svoleiðis. Ég stytti mér stundir.“

 

Klukkan var 10 að morgni hinn áttunda ágúst 1969. Ljósmyndarinn Iain McMillan stóð í stiga á miðri götunni og myndaði Bítlana á meðan þeir gengu í halarófu yfir Abbey Road. John Lennon var í sínum frægu hvítu jakkafötum og Paul McCartney var berfættur. Myndatakan tók tíu mínútur.

 

„Ég horfði út undan mér, sá þessa gaura ganga yfir götuna eins og endur í röð,“ rifjaði Cole upp fyrir nokkrum árum. Hann áttaði sig ekki á því að þarna voru einir frægustu menn heims samankomnir. „Þvílíkir sérvitringar, sagði ég, því þeir báru ögrandi útlit með sér miðað við tíðarandann þá. Menn gengu ekki berfættir um London.“

 

Um ári eftir að hún kom út sá Cole fyrst eintak af Abbey Road þar sem platan lá á glámbekk á heimili þeirra hjóna. Hann trúði ekki eigin augum. „Heyrðu þetta eru sérvitringarnir fjórir! Og þarna er ég!“

 

Abbey Road. George, Paul, Ringo, John… og Paul Cole.

 

Paul Cole ræðir við lögreglumann um umferðarmál í bakgrunni á myndinni frægu.
Paul McCartney lá yfir myndum Iain Macmillan til að finna þá einu réttu. (abbeyroad.com)