Á vefsíðunni Eldrimyndir.fo er að finna stórskemmtilegt safn með gömlum færeyskum ljósmyndum úr ýmsum áttum sem notendur síðunnar hafa hlaðið inn. Þarna eru til dæmis margar ljósmyndir úr fjölskyldualbúmum og einkasöfnum sem sýna lífið í Færeyjum á tuttugustu öld á áhugaverðan hátt.
Hér sjáum við Færeyinga innan um fjöll og firnindi, skip og báta, slyddu og snjó. Þetta er kunnugleg veröld fyrir Íslendinga en líka framandi. Eiga lesendur Lemúrsins einhverjar minningar frá þeim stöðum sem hér birtast?
Efsta ljósmyndin sýnir brúna sem tengir saman tvær stærstu eyjar Færeyja, Straumey og Austurey. Stundum grínast Færeyingar og segja að þetta sé eina brúin yfir Atlantshafið. Myndin er tekin árið 1973, um það leyti er brúin var tekin í notkun.
Við hvetjum alla sem eiga gamlar ljósmyndir frá Færeyjum að senda þær á Eldrimyndir.fo eða á Facebook-síðu sömu vefsíðu. Merkingar sem fylgja myndunum eru teknar af færeysku síðunni.