Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er í fullum gangi í Reykjavík. Fyrir 14 árum, þegar hátíðin fór fram í fyrsta skiptið, hefði hún þó sennilega farið framhjá mörgum – enda með allt öðru sniði.

 

 

Fyrsta Iceland Airwaves hátíðin fór fram þann 16. október árið 1999 og stóð yfir í eitt kvöld í Flugskýli 4 á Reykjavíkurflugvelli. Á hátíðinni spiluðu sjö hljómsveitir, þar af þrjár erlendar. Fyrsta hljómsveitin sem var bókuð var bandaríska hljómsveitin Thievery Corporation en ekki leið á löngu uns Gus Gus bættist í hópinn. Listann fylltu svo bandaríska sveitin UV-Ray, sem var í raun alter-ego trommara hljómsveitarinnar Soul Coughing, danska hljómsveitin Zoe og loks þrjár íslenskar hljómsveitir; Ensími, Quarashi og norðlenska sveitin Toy Machine.

 

Hljómsveitin Toy Macine frá Akureyri skaut öðrum sveitum ref fyrir rass og tryggði sér gigg á Airwaves. (Mynd úr Fókus, 1999).

 

Þrjár síðastnefndu hljómsveitirnar fengu sitt pláss á hátíðinni á síðustu stundu, eftir að hafa sigrað í hlustendakosningu á útvarpsstöðinni X-inu. Var þar raðað upp níu efnilegum íslenskum hljómsveitum sem hlustendur gátu kosið um, en aðeins þær þrjár efstu hlutu brautargengi. Hljómsveitin sem var í fjórða sæti, og þar með grátlega nálægt því að hafa tekið þátt í þessum sögulega viðburði, var hljómsveitin Maus. Aðdáendur Maus töldu reyndar að Akureyringar hafi þar beitt klækjum, með því að hringja í X-ið án afláts, til að greiða sínum mönnum í Toy Machine atkvæði sitt.

 

Maus missti naumlega af tækifæri sínu.

 

Þess má geta að vinsælasta lag X-Domino’s listans þessa vikuna var lagið Stick Em’ Up með hljómsveitinni Quarashi.

 

Hér má síðan lesa grein um hátíðina sem birtist í þriðjudagsblaði Moggans, 19. október 1999.