Man Ray kom í heiminn árið 1890. Hann hét réttu nafni Emmanuel Radnitzky og var sonur rússneskra gyðinga sem sest höfðu að í Bandaríkjunum. Hann lærði myndlist og flutti árið 1921 til Parísar, höfuðborgar listalífs í heiminum.
Þar sló hann í gegn sem ljósmyndari og myndaði marga kollega sína. Í París kynntist hann líka Kiki de Montparnasse. Fyrst vildi hún ekki sitja fyrir á ljósmyndum, en þegar hún fékk að líta myndirnar sem Man Ray tók af henni varð hún ólm í að halda áfram samstarfinu. Man Ray var elskhugi hennar næstu sex ár.
„Man Ray var líkast til fæddur hugmyndasmiður fáránleikans, hvers konar undarlegra tiltekta og var því upplagi sínu trúr lífið í gegn. Hann vildi gera verk sem skemmtu fólki, gerði það ruglað, æsti það upp eða yrði til leiðinda. Tjámiðill hans var það sem hann hafði í kollinum og á milli handanna hverju sinni og það var honum nóg. Nýjar og ferskar hugmyndir komust í sjónmál, er lokið var við að afgreiða eina, og kölluðu á alla athygli gerandans,“ skrifaði Bragi Ásgeirsson í Morgunblaðið árið 1982.
Hér sjáum við nokkrar skemmtilegar myndir eftir Man Ray. Þær birtast í bókinni Man Ray: Portraits. Hollywood Paris Hollywood 1921-1976.
via Dangerous Minds og Mondoblogo