Árið 1943 var í Reykjavík haldið upp á að 32 ár voru liðin frá falli keisarastjórnarinnar í Kína. Ísland var, eins og allir vita, á yfirráðasvæði bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Kínverjar voru bandamenn Bandaríkjanna í stríðinu gegn Japönum og því var haldin mikil samkoma í húsakynnum Bandaríkjahers til að fagna á þessum kínverska þjóðahátíðardegi. Jón Sen, íslensk-kínverskur tónlistarmaður, lék á fiðlu á samkomunni.
Japanir réðust inn í Kína í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og lögðu landið í rúst. Áður en að þeirri innrás kom ríkti þó lítill friður í þessu fjölmennasta landi veraldar en flókið borgarastríð ríkti í landinu þar sem stríðandi fylkingar börðust um völdin í því tómarúmi sem myndaðist eftir fall keisarastjórnarinnar árið 1911. Chiang Kai-shek, úr Kuomintang-flokki, var leiðtogi Kína í stríðinu.
Þjóðhátíðarhöld Kínverja í Reykjavík
Kínverjar, sem nú eru staddir hjer á Íslandi hjeldu hátíðlega 32 ára sjálfstæðisafmæli Kína hjer í bæ s.l. sunnudag.
Margar ræður voru fluttar á kínverskur og ensku og ýmislegt til skemtunar.
Byrns skipherra sýndi kvikmyndir frá ferð sem hann fór í til Kína og að lokum var framreiddur kínverskur matur.
Eftirfarandi skeyti var sent frá samkomunni til Shiang Kai Shek hershöfðingja og forseta Kína og frúar hans:
„Við Kínverjar í her, flota og kaupskipaflota Bandaríkjanna í hinu fjarlæga Íslandi, sem höfum komið saman til að minnast 32 ára sjálfstæðisafmælis Kína, sendum yður og kínverska hernum og þjóðinni kveðjur okkar og sigurheit“
Morgunblaðið, 12. október 1943
Á þessari mynd sjáum við Jón Sen (1924-2007). Hann var sonur Oddnýjar Erlendsdóttur Sen og Kwei Ting Sen, kínversks prófessors. Hann bjó fyrstu ár ævi sinnar í Kína en flutti til Íslands árið 1937 eftir innrás Japana í Kína. Hér má lesa bráðskemmtilegt viðtal við hann sem birtist í Morgunblaðinu árið 1995: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1826646