Einn mikilvægasti ljósmyndari Bandaríkjanna á 19. öld var Írinn O’Sullivan.
Timothy O’Sullivan var fæddur á Írlandi árið 1840 en flutti með foreldrum sínum tveimur árum síðar til New York. Ljósmyndatæknin var glæný og enn frumstæð þegar O’Sullivan komst kornungur í læri hjá Mathew Brady, sem var einn helsti frumkvöðull tækninnar í Bandaríkjunum og kallaður faðir blaðaljósmyndunar.
O’Sullivan barðist í þrælastríðinu frá 1861 og starfaði síðar við hlið Brady og tók ljósmyndir frá vígvellinum. Þar tók hann sína frægustu ljósmynd – Harvest of Death – sem sýnir látna hermenn liggja eins og hráviði eftir orrustuna um Gettysburg.
Eftir lok stríðsins varð Timothy O’Sullivan mikilvægur hlekkur í könnunarleiðöngrum landkönnuða og fræðimanna, meðal annars um hinar miklu ókönnuðu lendur Bandaríkjamanna í vestri. Hann fór nokkrum sinnum á árunum 1867-1874 í langar ferðir með þekktum vísindamönnum og kom alltaf til baka með fangið fullt af ótrúlegum og leyndardómsfullum ljósmyndum af „villta“ vestrinu. Hann var listamaður sem náði að fanga sjónrænan margbreytileika í áður óþekktum mæli og hefur haft gífurleg áhrif allt fram á þennan dag.
Ljósmyndirnar sem við sjáum hér sýna landslag, mannvirki og fólk í vestrinu á árunum 1860-1880. O’Sullivan lést árið 1883.