Litháen hafði í aldir verið bitbein ýmissa atorkusamra stórvelda. Landamærin höfðu verið færð ótal sinnum til og frá í endalausu valdatafli Þjóðverja, Pólverja og Rússa. Árið 1939 flaug Joachim von Ribbentrop, utanríkisráðherra Hitlers, til Kremlar og handsalaði þar samning við hinn rússneska starfsbróður sinn Molotov. Samningurinn skar Eystrasaltið og Pólland niður eins og tertusneiðar.
Samkvæmt samningnum höfnuðu Eystrasaltsríkin á diski Sovétríkjanna. En þegar nasistar rufu hann árið 1941 með innrásinni í Sovétríkin urðu Litháen, Lettland og Eistland að nýlendum Hitlers í austri. Helförin fór líka þar fram – aðeins tíu prósent litháískra gyðinga voru á lífi við stríðslok.
Árið 1944, þegar herir Hitlers hörfuðu, voru Eystrasaltsríkin aftur innlimuð inn í Sovétríkin.
Á meðan Sovétmenn kölluðu þá aðgerð „að halda verndarhendi yfir litlum bræðrum“, minnir flest í Sovétsögu Eystrasaltsins frekar á hinn klassíska yfirgang þess stóra yfir hinum smáa.
Litháen var Rússlandsvætt, rússneskir landnemar fluttir til landsins og litháískir andspyrnumenn fluttir burt til Síberíu. Til 1952 barðist stór litháísk skæruliðahreyfing gegn Rauða hernum. Ýmislegt gekk á sem ekki verður rakið hér en Litháen varð sjálfstætt ríki upp úr 1990, eins og flestir vita. Hinn 4. febrúar 1991 varð Ísland fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði þess.
En hér eru ljósmyndir af daglegu lífi í Litháen um 1960-1975.