Risavaxin, kjarnorkuknúin herstöð grafin í ísinn á norðurhjara. Hljómar eins og efniviður í vísindaskáldsögu — en raunin er að á árunum 1959-1966 starfrækti Bandaríkjaher slíka herstöð á Grænlandsjökli. Stöðin var kölluð Camp Century og þar gerðu vísindamenn hersins ýmsar rannsóknir á jökulísnum og jarðveginum undir honum.
Hinn sanni tilgangur með herstöðinni var þó háleynilegur. Svo leynilegur að jafnvel yfirvöld í Danmörku ku ekki hafa fengið ekki að heyra af því. Í Camp Century átti að gera tilraunir með kjarnorkuflaugar. Þetta háleynilega verkefni fékk nafnið ‘Project Iceworm’ og var ekki gert opinbert fyrr en eftir rannsóknir danska þingsins árið 1997.
Dönsk yfirvöld höfðu árið 1957 lýst því yfir að Danmörk og yfirráðasvæði hennar, þar á meðal Grænland, skyldu vera kjarnorkulaus svæði. Bandaríkjamenn hunsuðu þessa yfirlýsingu oftar en einu sinni. Frægt er svokallað „Thule-mál“, þegar bandarísk B-52-flugvél brotlenti skammt frá Thule-flughersstöðinni árið 1968. Það komst ekki upp fyrr en 1995 að vélin var með fjórar vetnissprengjur innanborðs og slysið olli mikilli geislavirkni í nágrenni slysstaðs. ‘Project Iceworm’ var annað dæmi.
Á hápunkti kalda stríðsins höfðu bandarísk yfirvöld séð fyrir sér að hægt væri að grafa risavaxið gangnakerfi — 4000 km langt í allt — þvers og kruss, á níu metra dýpi ofan í jöklinum. Í gegnum göngin átti svo að vera hægt að lauma kjarnorkuflaugum nægilega nálægt Sovétríkjunum til þess að skjóta þeim örugglega þegar kjarnorkustríðið hæfist.
Herstöðin samanstóð af löngum skurðum — 21 alls — sem Bandaríkjamenn grófu í snjóinn á jöklinum og styrktu svo með stálbitum. Innan í skurðunum reistu þeir svo byggingar. 200 manns bjuggu á stöðinni þegar mest lét og þarna ofan í ísnum var allt til alls frá kjarnaofns og rannsóknarstofum til bíósals og bókasafns.
Árið 1966 var hinsvegar að binda snöggan enda á verkefnið, jökullinn er á sífelldri hreyfingu og illa gekk að halda skurðunum við. Hvort að nokkurn tíma hafi verið komið með kjarnorkuflaugar niður í skurðina er óvíst — en líklega komst verkefnið aldrei svo langt.
Camp Century hrundi að lokum og liggur nú grafin einhverstaðar undir ísnum. Rústirnar koma kannski í ljós fyrr en síðar, þegar jökullinn bráðnar?