Þessi uppstoppaði hrafn er til sýnis á bókasafni í bandarísku borginni Philadelphiu. Það er mjög til hæfi þar sem þessi rytjulegi krummi er einn frægasti fugl bókmenntasögunnar, og spilaði stóran þátt í lífi tveggja frægustu rithöfunda enskrar tungu.
Í lifanda lífi var hrafninn búsettur á Englandi, bar nafnið Grip og var uppáhalds gæludýr ungs rithöfundar, Charles Dickens. Árin sem Grip bjó á heimili Dickens-fjölskyldunnar í London voru ein þau afkastamestu í lífi rithöfundarins — hann skrifaði meðal annars Ólíver Twist og Nicholas Nickelby. Þegar Grip lést árið 1841, eftir að hafa étið málningu, var Dickens harmi sleginn. Hann lýsti dauða hrafnsins í bréfi til vinar síns:
„Hann hagaði sér ávallt af hugprýði, jafnaðargeði og sjálfstillingu, sem ekki er hægt að dást að um of. Ég sé mikið eftir því að sökum vanþekkingar á hættunni sem steðjaði að honum, var ég ekki viðstaddur að taka niður erfðaskrá hans.“
Dickens lét stoppa þennan kæra vin sinn upp, en gerði hann jafnframt ódauðlegan sem persónu í skáldsögunni Barnaby Rudge, sem kom út árið 1841. Í sögunni er titilpersónan einfeldningur sem þvælist um með talandi hrafninum Grip.
Skömmu síðar birtist ritdómur um Barnaby Rudge í bandaríska bókmenntatímaritinu Graham’s Magazine. Gagnrýnandinn var á heildina litið hrifinn af bókinni, en sérstaklega óánægður með hlutverk hrafnsins í sögunni. Af hverju virtist þruglið í hrafninum ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi? Hrafninn og einræður hans ættu frekar að vera einhverskonar fyrirboði, fannst gagnrýnanda.
Gagnrýnandinn var enginn annar en sjálfur Edgar Allan Poe, sem árið 1845 gaf út ljóðið Hrafninn. Þar er talandi hrafn einmitt fyrirboði um stigmagnandi firringu ljóðmælanda.
Bókmenntafræðingar sem rannsakað hafa hlutverk hrafnsins Grip í bókmenntasögunni benda á að áhrif Dickens á Poe séu best sjáanleg í fyrsta erindi Hrafsins:
Once upon a midnight dreary, while I pondered, weak and weary,
Over many a quaint and curious volume of forgotten lore —
While I nodded, nearly napping, suddenly there came a tapping,
As of some one gently rapping, rapping at my chamber door.
„‘Tis some visiter,“ I muttered, „tapping at my chamber door —
Only this and nothing more.“
Í fimmta kafla Barnaby Rudge eru tvær persónur á tali þegar þær heyra skyndilega eitthvað hljóð. Hljóðið reynist vera hrafn titilpersónunnar sem klórar í hurðina:
‘Ah! He’s a knowing blade!’ said Varden, shaking his head. ‘I should be sorry to talk secrets before him. Oh! He’s a deep customer. I’ve no doubt he can read, and write, and cast accounts if he chooses. What was that? Him tapping at the door?’
‘No,’ returned the widow. ‘It was in the street, I think. Hark! Yes. There again! ‘Tis some one knocking softly at the shutter. Who can it be!’
Þess má geta að Hrafn Poes hefur verið þýddur á íslensku að minnsta kosti fimm sinnum. Þekktust er þýðing Einars Ben frá 1892, þar hljómar fyrsta erindið svo:
Yfir mold sig miðnótt breiddi – mæddur krankur huga’ ég leiddi
fyrri manna forn og kynleg – fræði ýms er ræktu þeir.
Höfgi mér á hvarma þægt sé – heyrist mér þá líkt og vægt sé
drepið högg á dyrnar, hægt sé – drepið léttum fingri. „Heyr.
Það er gestur,“ þuldi’ ég lágt, – „við þrepskjöld dyr að knýja, heyr:
aðkomandi, ekki meir.“
Afganginn má lesa hér á íslenskri heimasíðu helgaðri Poe.