President Bongo er viðurnefni íslenska tónlistarmannsins Stephans Stephensen, sem er meðlimur stuðbandsins Gus Gus.

 

Viðurnefnið vísar til stjórnmálasögu Gabons, sem er lítið ríki á vesturströnd Afríku. En í 42 ár ríkti sami maður yfir landinu, Omar Bongo forseti.

 

Hann var dularfullur maður sem bjó innan um ljón, fíla og skjaldbökur á gríðarstórri einkalóð sinni við skjannahvítar strendur Gabon við Atlantshafið. Á hinu langa valdaskeiði þurrkuðust landamærin á milli þess sem ríkið átti og þess sem Bongo átti persónulega smám saman út.

 

Verðmæti búisins sem forsetinn átti þegar hann lést nema líklega hundruðum milljarða íslenskra króna. Gabon er olíuríki en arfleifð þaulsetnasta leiðtoga landsins þýðir að 3,2 milljarðar olíutunna sem liggja í gabonskum jarðlögum eru eign afar fámennar valdastéttar – klíku Bongo. Og mikill meirihluti landsins lifir langt undir viðurkenndum fátækramörkum.

 

Hann varð forseti árið 1967 og hélt embættinu – ýmist með einræðistilburðum eða var endurkjörinn í kosningum – til dauðadags árið 2009.

 

Einræði Omars

Omar fæddist árið 1935 í Frönsku-Miðbaugsgíneu, sem var gríðarstór nýlenda þar sem í dag eru Tsjad, Mið-Afríkulýðveldið, Kongó, Kamerún og Gabon. Omar Bongo – sem þá hét reyndar Albert-Bernhard Bongo, reis til metorða innan franska hersins í herstöðinni í Brazzaville, höfuðborg frönsku nýlendunnar.

 

Frakkar létu nýlenduna af hendi árið 1960 og Gabon varð sjálfstætt ríki. Bongo var skipaður ráðherra undir stjórn Léons M’ba, fyrsta forseta landsins. Bongo varð síðar varaforseti. M’ba var afar heilsuveill maður og lá yfirleitt á sjúkrahúsi, sem gerði að verkum að Bongo var eiginlegur stjórnandi ríkisins.

 

Þeir félagar voru dyggilega studdir af frönskum yfirvöldum. Árið 1967 var M’ba, þrátt fyrir heilsubresti, endurkjörinn forseti landsins, og Bongo sem varaforseti.

 

Og það var svo í desember það sama ár að M’ba gamli lést og Bongo varð forseti, aðeins 31 árs.

 

Og það var augljóst að honum líkaði starfið, því árið 1968 bannaði Bongo aðra stjórnmálaflokka í landinu en sinn eigin, Gabonska sjálfstæðisflokkinn.

 

Stef áratuganna á eftir var leikið með klassískum einræðisherratakti. Opinberar tölur sýndu að flokkur Bongos fékk ætíð í kringum 99 prósent atkvæða í kosningum, stjórnarandstæðingar hurfu eða voru dæmdir til þrælkunar eða dauða, og auðlindir landsins færðust á hendur örfárra ofstækisfullra vina og vandamanna forsetans.

 

Og fæðingarbær hins besta og ljúfasta forseta, Lewai, hét upp frá því Bongoville.

 

Árið 1973 tók Bongo upp múslimatrú og breytti nafni sínu í El Hadj Omar Bongo. Gabon var í raun einræðisríki til árins 1990 þegar hávær mótmæli landsmanna neyddu Bongo til að halda almennar og opnar kosningar, að minnsta kosti að nafninu til.

 

Þrátt fyrir að margir vonuðust eftir umbótum varð lítil breyting því Bongo vann allar forsetakosningarnar sem haldnar voru.

 

Bongo í faðmi fjölskyldunnar.

 

Í nóvember 2005 vann Bongo síðustu kosningarnar á ferlinum, fékk 79,2 prósent atkvæða. En President Bongo náði ekki að klára síðasta kjörtímabilið og lést á sjúkrahúsi í Barcelona á Spáni árið 2009.

 

Ótrúleg tilviljun

Sonur Bongo, Ali Bongo, var kjörinn forseti Gabon árið 2009 og hefur ríkt yfir landinu síðan.

 

Spillingarbaninn Eva Joly hefur rannsakað Bongo-fjölskylduna og bent á að þrátt fyrir að landið væri mjög ríkt á afrískan mælikvarða, vegna olíuauðsins, væru ekki nema fimm kílómetrar lagðir á ári í vegakerfinu og að ungbarnadauði væri nær hvergi í heiminum jafn alvarlegt vandamál.

 

Ali Bongo, núverandi forseti Gabon, og ótrúlegt en satt, sonur Omars Bongo.