Sovésk-lettneski skáksnillingurinn Mikhaíl Tal beitti undraverðum fléttum í sóknum sínum á taflborðinu og hlaut þess vegna viðurnefnið „töframaðurinn frá Riga“. Hann er talinn einn fremsti skákmaður sögunnar. Hann var líka afar sérlundaður maður og tefldi nánast aldrei án þess að vera með logandi sígarettu í kjaftinum og troðfullan öskubakka sér við hlið.

 

Tal var fæddur í Riga, höfuðborg Lettlands, árið 1936. Heimalandið var fljótlega eftir fæðingu hans innlimað í Sovétríkin. Hann sló ungur í gegn í sovéska skákheiminum og var einn öflugasti skákmaðurinn þar í landi til dauðadags.

 

Hann varð yngsti heimsmeistari sögunnar árið 1960, aðeins 23 ára gamall, en það met sló reyndar annar sovéskur snillingur, Garry Kasparov, 22 ára gamall árið 1985.

 

Mikhaíl Tal, sem jafnan var kallaður Misha, var alla tíð heilsuveill. Gríðarlega miklar reykingar og drykkja hjálpaði ekki til. Hinn 28. maí 1992 lá Tal banaleguna á sjúkrahúsi, en nýrun í honum voru ónýt. Hann hafði samt þrek til að fara frá spítalanum og á hraðskákmót í Moskvu og vann þar Kasparov, besta skákmann heims. Mikhaíl Tal lést svo einum mánuði síðar.

 

Fyrri eiginkona hans var rússneska leikkonan Sally Landau, sem giftist honum aðeins 19 ára gömul árið 1959, en þau skildu 1970. Landau var í viðtali hjá rússnesku skáktímariti fyrir nokkrum árum og gaf þar mjög fjörlega lýsingu á Tal, sem þótti, eins og áður segir, mikill sérviskupúki. Hér eru nokkrar línur úr viðtalinu:

 

 

Kom fljúgandi frá annarri plánetu

„Misha var svo illa undirbúinn fyrir lífið. Hann gat ekki einu sinni pakkað í ferðatösku áður en hann lagði af stað á skákmót. Hann kunni ekki einu sinni að kveikja á eldavélarhellu. Ef ég var með höfuðverk eða var ekki heima, fékk hann hálfgert taugaáfall: „Hvernig bý ég til heitt vatn?“

 

Og þegar ég settist í bílstjórasætið í bílnum horfði hann á mig eins og ég væri geimvera. Auðvitað hefði hann getað lært þetta ef hann hefði reynt. En fyrir honum var þetta allt saman eintóm leiðindi. Hann þurfti ekki á því hversdagslega að halda.

 

Margir hafa sagt að ef Tal hefði gætt betur að heilsunni og ef hann hefði ekki lifað svona óreglusamlegu lífi… og svo framvegis. En þegar kemur að mönnum eins og Tal þá er hugmyndin um „ef“ fáránleg. Hann hefði ekki verið Tal þannig.

 

Ég held að hann hafi verið með sál leikarans. Það var ástæðan fyrir að hann elskaði alltaf að koma fram sem aðalmaðurinn á svæðinu. Hann þurfti á áhorfendum að halda. Hann tefldi ekki eins vel án þeirra – fólk veitti honum innblástur.

 

Ég get ekki ímyndað mér hann án sígarettu í munninum – hann reykti fimm pakka í hverri skák! Hann notaði aldrei kveikjara – hann kláraði sígarettu og kveikti í þeirri næstu með henni.

 

Hann erfði marga sjúkdóma. Þegar við vorum í þann mund að giftast, talaði læknir frá heilsugæslustöðinni í Riga við mig og sagði mér að ég ætti ekki að giftast svo óhraustum manni. Hann var alltaf veikur. Undir lok ævinnar blossuðu allir sjúkdómarnir upp. Hann var með hita í heil þrjú ár! Ég hef ekki hugmynd um hvernig maður með krónískan hita, 38 eða 39 stig, gat orðið heimsmeistari í hraðskák árið 1988!

 

Og hinn 28. maí 1992, á hraðskákmótinu í Moskvu, var hann sá eini sem náði að vinna Kasparov. Hann var fluttur frá sjúkrahúsinu til að tefla. Besti skákmaður heims þurfti að lúta lægra haldi fyrir Tal sem lá á grafarbakkanum.

 

Hann var óvenjulegur maður. Ég sakna hans mikið. Stundum held ég að Misha hafi komið hingað fljúgandi frá annarri plánetu – bara til þess að tefla, og fljúga síðan aftur heim.

 

Eitt sinn var hann spurður hvort hann skilgreindi skák sem íþrótt eða listgrein? Hann brjálaðist: „Hvernig geturðu kallað skák íþrótt?“ Ég veit ekki mikið um þessi mál sjálf – en þeir sögðu að Tal væri Mozart skákarinnar. Og hann var líka góður maður í lífinu sjálfu. Hann var gæfur, kátur og talaði aldrei illa um nokkurn mann.“

 

 

Vídjó

Endataflið við Kasparov.

 

Tal teflir við Polugaevskí árið 1980 fyrir framan mikinn áhorfendaskara. 

 

Tal og Bobby Fischer. 

 

Misha Tal á níunda áratugnum.

 

 

Tal teflir við dóttur sína, Zhanna.