Gamanmyndir og grínsjónvarpsþættir um seinni heimsstyrjöldina og Þriðja ríkið eru ekkert nýtt. Til dæmis má nefna bresku grínþættina ‘Allo ‘Allo!, um starfsfólk á kaffihúsi í frönskum smábæ sem er hertekinn af Þjóðverjum. Þættirnir voru sýndir á BBC í tíu ár, 1982-1992, og nutu mikilla vinsælda og hylli.
Árið 1990 datt dagskrárgerðarmönnum á bresku gervihnattastöðinni Galaxy, meðal annars í ljósi vinsælda ‘Allo ‘Allo, að búa til sitt eigið heimsstyrjaldargrín. Og þeir réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur ákváðu að aðalpersóna þáttanna yrði Adolf Hitler sjálfur.
Þættirnir fengu nafnið Heil Honey I’m Home! og áttu vera einhverskonar skopstæling á hallærislegum amerískum gamanþáttum sjötta og sjöunda áratugarins, eins og Leave It to Beaver og I Love Lucy. Hjónakornin Adolf Hitler og Evu Braun búa saman í íbúð í Berlín. Líkt og sönnu sitcom-pari sæmir þrefa þau stöðugt — um kvöldmatinn og innrásina í Tékkóslóvakíu. Sá eini galli er á hjónasælunni að nágrannar þeirra, Goldenstein-hjónin, eru Gyðingar og Hitler er það mjög á móti skapi.
Fyrsti þáttur Heil Honey I’m Home! var sýndur á mánudagskvöldi 30. september 1990. Áhorfendur voru ekki himinlifandi. Þó grínið hafi vissulega átt að vera kaldhæðið, fór það greinilega fyrir brjóstið á mörgum og kvörtunum rigndi yfir sjónvarpsstöðina. Sagnfræðingurinn Marian Calabro kallaði síðar þættina „kannski heimsins smekklaustu grínþætti“ í bók sinni um sögu bresks sjónvarps.
Umsvifalaust var hætt við þáttaröðina. Sjö þættir í viðbót sem búið var að taka upp voru aldrei sýndir, og fyrsti þátturinn hefur aldrei verið endursýndur í sjónvarpi. Hann er þó auðvitað að finna á YouTube — sjá hér að neðan.
Í fyrsta og eina þættinum kemur Neville Chamberlain í heimsókn, en hin óþolandi Goldenstein-hjón eyðileggja allt með fylleríi og vitleysisgangi.