Vídjó

Ungverskir dansar Jóhannesar Brahms (1833-1897) eru með frægustu verkum vestrænnar tónlistarsögu. Dansana samdi Brahms árið 1869. Til er upptaka á vaxkefli frá árinu 1889 þar sem tónskáldið sjálft spilar brot úr fyrsta dansinum á píanó. Upptakan væri mikilvæg heimild um Brahms og tónlist 19. aldar, en því miður eru gæði hennar svo lítil að erfitt er að heyra nokkuð að gagni.

 

Vídjó

 

Upptakan var gerð í Vínarborg 2. desember 1889 af Theo Wangemann, starfsmanni Thomas Edisons. Edison sendi um þessar mundir menn sína út um allar trissur að taka upp frægt fólk. Upptökurnar átti svo að nota í auglýsingaskini fyrir upptökutækni Edisons.

 

Vídjó

 

Í byrjun upptökunnar kynnir óþekkt persóna, líklega Wangemann, flytjandann á James Bond-ískan hátt: „Desember Átjánhundruðáttatíuogníu. Hús herra doktor Fellinger. Hjá mér er doktor Brahms, Jóhannes Brahms.“ („Dezember Achtzehnhundertneunundachtzig. Haus von Herrn Doktor Fellinger, bei mir ist Doktor Brahms, Johannes Brahms.“)

 

Tónskáldið byrjar svo að spila, takta 13 til 73 úr eigin útsetningu af ungverska dansinum fyrir píanó frá árinu 1873. Tónlistarfræðingar við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum hafa reynt mikið að bæta gæði upptökunnar, með misjöfnum árangri. Heyra má afrakstur erfiðis þeirra hér að ofan og frekari umfjöllun um upptökuna hér.