Þann 17. maí árið 1991 var sjónvarpsþátturinn vinsæli Fimmta hjólið (Piatoe koleso) á dagskrá Stöðvar 5 í Leníngrad. Fimmta hjólið hafði öðlast þónokkrar vinsældir á perestroika-tímabilinu, ekki síst fyrir þær sakir að þáttarstjórnandinn Sergei Sholokhov naut talsverðs frelsis í vali á umfjöllunarefni og gestum.
Viðtal kvöldsins fór fram í því sem virtist vera vinnuherbergi viðmælanda þáttarins, stjórnmálaspekingsins Sergei Kurekhin. Brúnaþungur kvaðst hann hafa uppgötvað ótrúlega og áður óþekkta hlið á tildrögum Októberbyltingarinnar, sem bregða myndi nýju ljósi á stjórnmálasögu Sóvétríkjanna.
Í ferðalagi sínu til Mexíkó hafði hann skoðað myndir sem sýndu frá atburðum byltingarinnar þar, sem hófst um sjö árum áður en bylting bolsévika átti sér stað. Verkin sýndu örmagna alþýðufólk vopnað einföldum vinnutólum steypa leiðtogum af stóli, á afar áþekkan hátt og gerst hafði í Októberbyltingunni. Kurekhin komst að þeirri niðurstöðu að líkindin með þessum tveimur atburðum, sem áttu sér stað í órafjarlægð frá hvor öðrum, gætu ekki verið tilviljun ein.
Til þess að byltingaleiðtogar sæju fyrir sér framtíð þjóða sinna á svo áþekkan hátt hlytu þeir að hafa verið undir áhrifum frá sama fyrirbærinu. Kurekhin vissi til þess að frumbyggjaættbálkar í Mexíkó innbyrðu peyote-kaktusa við trúarathafnir, sem færðu seiðmönnum dulmagnaðar sýnir og spádóma. Þar sem engir sambærilegir kaktusar vaxa í rússneskum skógum ákvað hann því að athuga neyslu leiðtoga Októberbyltingarinnar á ofskynjunarsveppum – einkum berserkjasveppum (amanita muscaria).
Þegar Kurekhin gaumgæfði gögn um Lenín fann hann ógrynni vísbendinga um ótakmarkaða neyslu á fyrrnefndum ofskynjunarsveppi. Til stuðnings fullyrðingu sinni vísaði Kurekhin til dæmis í bréfaskriftir Leníns, þar sem hann minnist á sveppaát. Svo er sýnt myndbrot þar sem ungur drengur að nafni Sasha virðist aldrei víkja frá hlið Leníns, en það ku vera vegna þess að stráksi vissi um alla bestu sveppatínslustaðina í héraðinu.
Því næst greindi Kurekhin frá heimsókn sinni til hins virta Tækniháskóla í Massachusetts (MIT) þar sem nýjustu rannsóknir á sveppum höfðu leitt í ljós að þeir væru í raun líkömnun útvarpsbylgja, sem væru svo sterkar að þær hafa sinn eigin persónuleika. Að mati sérfræðinga er hætt við því að sá sem leggur þá til munns í miklu magni muni tapa sínum eigin persónuleika og sveppurinn taki yfir.
Þá kemur Kurekhin loks að kjarna málsins: „Það sem ég vildi semsagt segja er að Lenín var sveppur – og ekki bara sveppur, heldur útvarpsbylgja líka“.
Máli sínu enn frekar til stuðnings sýnir Kurekhin hvernig brynvörðu bronevik-bílarnir voru nákvæmlega eins í laginu og rætur berserkjasveppa. Að auki skýrir allt sveppaátið hvers vegna Vladimir Ilyich Ulyanov valdi byltinganafnið Lenín, en afturábak er það heiti á frönskum sælkerarétti sem lagaður er með sveppum.
Þegar sjötíu mínútna langri útsendingu Fimmta hjólsins lauk fengu símalínur Stöðvar 5 yfir sig holskeflu innhringinga frá forviða og bálreiðum áhorfendum. Sumir gleyptu við hverju einasta orði á meðan aðrir hneyksluðust yfir því að virtur fræðimaður gæti haldið fram slíkri firru. Þessi stórundarlega söguskoðun var ólík nokkru því sem áður hafði verið kynnt fyrir almenningi — aðeins örfáum árum áður hefði enginn dirfst tala um Lenín á áþekkan máta ef honum þætti vænt um líf sitt, hvað þá í sjónvarpi.
Fáir virtust hafa áttað sig á því viðmælandi þáttarins var alls enginn fræðimaður, heldur jazz-geggjari og háðfugl hinn mesti. Spaug Sergei Kurekhin snerist um að sýna hve auðvelt væri að ráðskast með miðilinn – að hvaða fjarstæðukennda þvaður sem er gæti virst raunveruleiki ef það væri framreitt á trúverðuglegan hátt.
Kurekhin nýtir sér þar að auki eiginleika sjónvarpsútsendingarinnar til hins ýtrasta. Flóð upplýsinga steypist yfir áhorfendur, sem fá hvergi rúm til að velta sannleiksgildi þeirra fyrir sér – gögn sem hann vísar til eru sýnd í örskamma stund áður en hann vindur sér óðamála að næsta viðfangsefni.
Það er tvær meginskýringar á því hvers vegna svo margir af þeim 11 milljónum sem horfðu á þáttinn féllu fyrir gabbinu. Í fyrsta lagi hafði sóvéskt sjónvarp aldrei verið þekkt fyrir gott flipp og grín, hvað þá á kostnað byltingahetjanna.
Í öðru lagi hafði traust almennings til fjölmiðla aukist þónokkuð á perestroika-tímabilinu, þar sem fjölmiðlafrelsi hafði aukist og algengt var að fjallað væri í fyrsta skipti um allskyns viðkvæm málefni. Ádeila Kurekhin var í raun tvíþætt, annars vegar var hann að gagnrýna sensasjónalisma sjónvarpsmiðilsins — og hins vegar er sveppagrínið ádeila á þær vangaveltur sem uppi voru, um að færa kommúnismann aftur til upprunalegs horfs. Stalín hefði spillt hinum upprunalegu gildum hugmyndafræðinnar og nú yrði að endurheimta Lenín.
Háðfuglinn Kurekhin beitir fyrir sig sama fasi, sama klæðnaði og sama orðræðustíl og stjórnmálaspekingarnir þegar hann tilkynnir svellkaldur að Lenín hafi bara verið sveppur.
Meðfylgjandi myndskeið birtist eftir fráfall Kurekhin, en hann lést skyndilega árið 1996 úr sjaldgæfu hjartameini, 42 ára að aldri. Þetta er stytt útgáfa viðtalsins, með enskum texta – sem inniheldur tökur sem ekki voru notaðar í þættinum.
Í lok seinna myndbrotsins geta Kurekhin og Sholokhov ekki stillt sig um að skella dálítið upp úr yfir vitleysunni sem vellur úr þeim.