Hvað er gaman að vera níundi ríkasti maður í heimi ef maður getur ekki montað sig af því? Indverski viðskiptajöfurinn Mukesh Ambani er einmitt níundi ríkasti maður í heimi. Fyrirtæki hans, Reliance Industries, er stærsta einkafyrirtæki í Indlandi. Viðskipti þess — með allt frá taui til olíu og jarðgass — eru rúm 15% af útflutningi indverska ríkisins.

 

Faðir Mukeshs, Dhirubhai Ambani, stofnaði Reliance Industries og lagði grunninn að gífurlegum auðæfum sonarins. Hann keypti 14 hæða íbúðarblokk, og synir hans fengu hver eina hæð útaf fyrir sig og fjölskyldu sína. Það virðist þó ekki hafa nægt Mukesh Ambani, því hann ákvað að byggja sér ennþá glæsilegra hús.

 

Skýjakljúfurinn ‘Antilia‘ er á 27 hæðum, og samtals rúmir 37.000 fermetrar. Íbúar eru hinsvegar aðeins sex. Mukesh Ambani, eiginkona hans, þrjú börn og svo öldruð móðir hans.

 

Meðal þæginda eru bíó- og danssalir, sundlaugar, líkamsræktarstöð, jógastúdíó, 168 bílastæði, þrír þyrlupallar og svo ‘kæliherbergi’ með manngerðum snjó. Bráðnauðsynlegt í sumarhitanum í Mumbai.

 

Sex hundruð manna starfslið vinnur við að staka við hina sex manna fjölskyldu.

 

Af svölunum er glæsilegt útsýni yfir Arabíuhafið. Og einnig yfir hin alræmdu fátækrahverfi Mumbai-borgar, aðeins steinsnar í burtu.

 

Bygging Antilíu tók rúm sjö ár. Fjölskyldan flutti inn í október í fyrra eftir glæsilegt innflutningspartí.

 

Heildarkostnaður við bygginguna er talinn hafa verið einn miljarður Bandaríkjadala.

 

Húsinu hefur hógværlega verið lýst sem „Taj Mahal tuttugustu og fyrstu aldarinnar“.

 

Hér er hægt að sjá myndir og teikningar af húsinu og innviðum þess.