Fyrir nokkru fjallaði Lemúrinn um tilraunir franska læknisins Guillaume Duchenne á áhrifum raförvunar á andlitsvöðva. Svo virðist sem japanski fjöllistamaðurinn Daito Manabe byggi verk sín á arfleifð Duchenne, þó forsendurnar séu ansi frábrugðnar.
Í upphafi ætlaði Manabe að koma skynjurum fyrir á andlit sitt sem myndu nema hreyfingar andlitsvöðva hans og því næst senda rafboð í andlit annars þátttakanda í tilrauninni. Rafboðin myndu örva taugar viðkomandi á þann hátt að andlitsvöðvar hans myndu herma eftir andlitshreyfingum Manabe.
Hann féll þó frá þessari hugmynd – „því það er ekki hægt að herma eftir brosi án tilfinningarinnar“. Manabe ákvað þá að aðlaga hugmyndina að tónlistaráhuga sínum – og búa til raftónlist, í afar bókstaflegri merkingu orðsins.
Á meðfylgjandi myndabandi má sjá fjóra vini Manabe, sem hver hefur um það bil tylft rafskauta fest við andlit þeirra. Hvert þeirra sendir 10 volta rafboð í ákveðinn andlitsvöðva í takt við tónlist eftir Manabe sjálfan.
Þessar rafmögnuðu tilraunir Manabe hafa vakið talsverða athygli og hafa hann og félagar hans flutt verkin á tónleikum víða um heim – þar á meðal á hinni vinsælu Sónar-hátíð í Barcelona.
Manabe fer þó að læknisráðum og kemur fram sjaldnar nú en áður, vegna hættu af langtímaáhrifum þess að vera alltof oft í stuði.