Vídjó

Þetta er rödd hins 44 ára gamla Híróhító Japanskeisara að tilkynna þjóð sinni að hann og ríkisstjórn sín hafi fallist á algjöra uppgjöf í síðari heimsstyrjöld.

 

„Til vorra góðu og dyggu þegna. Eftir að hafa íhugað vandlega almennar aðstæður heimsins og í Keisaradæmi voru í dag, höfum vér ákveðið að leiða til lausnar á núverandi ástandi með því að grípa til örþrifaráðs.“

Híróhító, eða „Showa-keisarinn“ eins og kalla á hann að japönskum sið, les.

 

Ræðu hans var útvarpað á hádegi þann 15. ágúst árið 1945. Það var í fyrsta sinn sem nokkur japanskur keisari ávarpaði alþýðu landsins.

 

„Þar að auki hefur óvinurinn byrjað að notast við nýja og sérlega grimmilega sprengju, eyðileggingarmáttur hverrar er óútreiknanlegur og hefur leitt til dauða margra sakleysingja. Skyldum vér halda áfram að berjast myndi það ekki einungis leiða til hruns og útþurrkun japansku þjóðarinnar, heldur myndi það einnig leiða til algjörrar útrýmingar siðmenningar mannsins.“

 

Ræðan, sem kölluð er gyokuon-hōsō, „útsending demantsraddarinnar“, var tekin upp í Keisarahöllinni í Tókýó daginn áður. Harðar deilur höfðu ríkt meðal japanskra stjórnvalda og heryfirvalda—hvort að Japan ætti yfirleitt að gefast upp, og svo um orðalag og minnstu smáatriði í sjálfri ræðunni. Að kveldi 14. ágúst gerði hópur hermanna tilraun til valdaráns og réðust inn í Keisarahöllina með það að markmiði að eyðileggja upptökuna. Það mistókst — grammófónplötunni með rödd keisarans var smygglað út og í höfuðstöðvar Japanska ríkissútvarpssins.

 

Því miður var keisarinn svo einangraður frá þjóð sinni að formlegt og fornt málfar hans var japönskum almúga illskiljanlegt. Orðalagið sjálft var einnig loðið og keisarinn minntist hvergi beinum orðum á að Japan hefði gefist upp. Útvarpssendingin jók því aðeins á glundroðann sem þegar ríkti í landinu — margir misskildu keisarann og héldu að hann væri að hvetja þá til að halda baráttunni áfram.

 

Hluti texta ræðunnar, með undirskrift keisarans og innsigli til vinstri.

 

Eftir jarðskjálftann og fljóðbylgjuna sem skall á austurhluta Japans í mars 2011 flutti Akíhító, sonur Híróhítós og núverandi keisari, fyrsta sjónvarpsávarp í sögu japanska keisaradæmisins.