Um þarsíðustu aldamót stóð menningar- og skemmtanalíf Parísarborgar í fullum blóma og hverfðist það ekki síst í kringum kabarettsýningar á borð við þær sem boðið var upp á í sal skemmtistaðarins goðsagnakennda Moulin Rouge. Ýmissa grasa kenndi í því úrvali sem skemmtanaþyrstum kabarettunnendum stóð til boða og oftar en ekki sótti fólk skemmtikvöld staðarins án þess að vita hvers konar atriði yrðu flutt það kvöld.

 

Eitt kvöld árið 1892 höfðu áhorfendur komið sér fyrir í sætum sínum og ef til vill gert ráð fyrir að þegar tjöldin yrðu dregin frá myndi hópur kvendansara íklæddum síðum pilsum arka inn á sviðið og dansa cancan við tónlist leikna í 2/4 takti. Mögulega gerðu sumir sér vonir um að fluttur yrði stuttur leikþáttur eða kannski að söngkonan víðfræga Yvette Guilbert myndi flytja nokkur krassandi lög um samskipti kynjanna.

 

Hvert svo sem eðli dagskrárinnar yrði, voru áhorfendur sannfærðir um að hvergi væri betri staður en hér við Boulevard de Clichy í 18. hverfi Parísar, til að kynnast nýjum og ferskum vindum í skemmtanamenningu samtímans.

 

Loks steig á svið karlmaður á fertugsaldri, íklæddur rauðum jakka með silkikraga og svörtum satín hnébuxum og tilkynnti: „Herrar mínir og frúr, það er minn heiður að fá að skemmta ykkur í kvöld með flutningi á dálitlu prumperíi“. Það sem við tók var úrval af ólíkum gerðum freta sem þessi herramaður framkallaði úr mjög svo óvæntu hljóðfæri.

 

 

Joseph Pujol hafði á unga aldri uppgötvað að hann byggi yfir meiri stjórn á hringvöðva sínum en gerist og gengur –  og hafði fullkomnað tæknina við að hleypa lofti inn í sig til þess að hleypa því aftur út með látum. Atriði hans samanstóð meðal annars af eftirhermum af mismunandi prumpi mannfólksins. „Svona prumpar kona á brúðkaupsdaginn sinn…“ sagði Pujol og laumaði út litlu saklausu freti, áður en hann bætti við „en svona prumpar sama kona morguninn eftir“ og hleypti því næst út heljarins þrumuprumpi.

 

Vídjó

 

Til viðbótar við flutning þessarar fin-de-siècle útgáfu af Prumpulaginu, lék Joseph Pujol hluta af laginu Claire de lune á flautu sem hann hafði komið fyrir í óæðri endanum.

 

Áhorfendur gátu ekki stillt sig um að hlæja að endaþarmsloftfimleikum Pujol – jafnvel með þeim afleiðingum að konur sem voru vandlega reyrðar í lífstykki áttu sumar hverjar erfitt með andardrátt vegna óstjórnlegra hlátursroka. Joseph Pujol, eða Prumpubrjálæðingurinn (fr. le pétomane) eins og hann var nú kallaður, varð að stórstjörnu á svipstundu, enda tryggði fáránleiki uppákomu hans það að fregnir af óvenjulegum hæfileikum hans breiddust hratt út.

 

Prumparinn var vinsælt skemmtiatriði í París allt til upphafs fyrri heimsstyrjaldarinnar, en þá flutti Pujol aftur til heimaborgar sinnar Marseilles og hóf störf í fjölskyldubransanum – að reka bakarí. Síðar flutti hann til Toulon, þar sem hann rak farsæla kexverksmiðju allt til dauðadags, árið 1945.