Hér gefur að líta uppstoppað eintak af einum af þeim fjölmörgu hundum sem rússneski lífeðlisfræðingurinn Ivan Pavlov notaði við tilraunir sínar á virkni meltingakerfisins. Auk þess að vera lífeðlisfræðingur var Pavlov afar fær með skurðhnífinn og kom pípu fyrir við munnvatnskirtil þessa hunds svo að sýnið myndi safnast saman í bikar á hlið trýnisins.

 

Í annarri tilraun vildi Pavlov skoða virkni meltingasafa og til þess að fá ekki sýni sem væri mengað af fæðu og munnvatni gerði hann skurð á vélinda tilraunadýrsins svo að þegar það fékk kjöt að éta féll það beint út um opið. Dýrið beygði sig niður og tók sama bitann í kjaftinn og gleypti í annað sinn – sem féll aftur niður á gólfið. Greyið gerði sér líklega enga grein fyrir því hvers vegna það varð svangara með hverjum bita – og í samanburði virðist léttvæg sú refsing Sísifosar í undirheimum að þurfa að velta gríðarstórum steini upp og niður sömu hæðina að eilífu.

 

Trúður, einn af hundum Pavlovs

Með þessari aðferð var Pavlov fært að safna miklu magni af meltingavökva í þeim hluta tilraunastofu sinnar sem hann nefndi „meltingavökva-verksmiðjuna“. Í ævisögu Pavlovs, eftir aðstoðarmann hans B.P. Babkin, segir frá því að sýnum frá allt að átta hundum hafi verið safnað í einu og að sumir stóru hundanna hafi framleitt allt að lítra af meltingavökva í einni umferð af „gabb-áti“, eins og hann nefndi það.

 
Þessi meðferð á hundunum hljómar sannarlega sem misþyrming  karla með grásprengd skegg á saklausum skepnum í þágu vísindanna. Pavlov var þó  meðvitaður um sársauka dýranna og vildi draga úr sársauka þeirra sem mest hann gæti, m.a. með notkun deyfilyfja – enda taldi hann að kvalir gætu verkað sem utanaðkomandi breyta sem haft gæti óæskileg áhrif á niðurstöðurnar.

 

Minnisvarði um hinn óþekkta hund, hannaður að hluta af Pavlov sjálfum

Hundarnir náðu því nokkuð háum aldri þrátt fyrir tilraunirnar. Það gerði Pavlov líka – og undir lokin var hann sjálfur orðinn tilraunadýr sitt. Þegar hann var orðinn 86 ára og mjög veikur af lungnabólgu fékk hann aðstoðarmann sinn til að skrá nákvæmlega hvernig heilsu hans hrakaði. Sagt er að hann hafi gefið þau fyrirmæli að ef spurt væri eftir honum ætti svarið að vera: „Pavlov er því miður allt of upptekinn við að deyja“.

 

Hundar Pavlovs verða um ókomna tíð tengdir hugtakinu skilyrt viðbragð  sem nú er lykilhugtak innan atferlisfræðinnar – en var þó upprunalega ekki nema aukaafurð athugana Pavlovs á meltingakerfinu. Hann hlaut enda Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt til þeirra rannsókna, en ekki sálfræðinnar.