Dvergasýningar eru ein algengasta tegund fríksjóva eða viðundrasýninga. Lemúrinn fjallaði um nokkrar slíkar í vikunni en hér er sögð sagan af dvergaþorpi í New York á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar.
Í upphafi tuttugustu aldarinnar var í Dreamland, stærsta skemmtigarðinum á Coney Island í New York, þorp dvergvaxinna manna sem píndir voru til þess að lifa við samfélagslega upplausn og hatur, áhorfendum til skemmtunar. Þetta var viðundrasýning í sinni ýktustu mynd.
Liliputia (Putaland) var nafnið á þessari deild í skemmtigarðinum. Íbúar hennar voru 300 dvergvaxnir einstaklingar sem safnað hafði verið hvaðanæva frá Bandaríkjunum. Þorpið var til á árunum 1904 til 1911.
Samkvæmt hollenska arkitektinum Rem Koolhaas, sem skrifaði um dvergaþorpið í bók sinni um furður New York, gerðu stjórnendur Dreamland dvergaþorpið að félagsfræðilegri rannsóknarstofu. Dvergarnir hlýddu furðulegum skipunum yfirboðara sinna og samfélag þeirra varð undirlagt af hatri, ofbeldi, svikum og sorg.
Til þess að kóróna óhamingju dverganna gaf William H. Reynolds öldungardeildarþingmaður og eigandi Dreamland dvergunum öllum aðalstignir, sem gerði þeim ókleift að búa í sæmilegu samfélagi, þar sem allt logaði í illdeilum á milli jarla og baróna.
Rem Koolhaas skrifaði árið 1978 bókina Delirious New York. Hann skrifar að skemmtigarðahverfið Coney Island í útjaðri New York hafi verið tilraunastofa og sýndarheimur, nokkurs konar spéspegill borgarinnar og mannlegs nútímalífs á iðnvæddum tímum. Dreamland var langstærsti garðurinn þar.
Nýfædd börn til sýnis
Stálbryggjan í Dreamland rúmaði 60 þúsund manns á göngu. Við sporðinn var stærsti danssalur í heimi en þar sem venjuleg danspor virkuðu hæg, klunnaleg og jafnvel gamaldags í svo stóru og tæknivæddu rými, dunaði dansinn á rúlluskautum.
Fall Pompeiar var tívolítæki þar sem mátti upplifa hræðilegar hamfarir á borð við jarðskjálftann í San Francisco, eldsvoða í Róm, sjóorrustur og atriði úr Búastríðinu. Nýjar rafmagnsknúnar vélar sköpuðu andrúmsloftið með ógurlegum loftköstum og hristingi.
Nýburabyggingin var eitt mesta aðdráttarafl Draumalands. Hún var í raun hátæknilegur fæðingarspítali, á þeirra tíma mælikvarða, þar sem fyrirburum frá gervallri borginni var komið fyrir í súrefniskössum. Þetta var ekki nein leiksýning því þarna lágu raunveruleg nýfædd börn og börðust fyrir lífi sínu á meðan almenningur góndi á í gegnum glerið.
Í Dreamland var einnig gríðarstór eftirlíking af síkjum Feneyja þar sem gestir gátu vitaskuld ferðast um á gondólum. Frægustu byggingar borginnar voru málaðar á gríðarstóra pappaveggi. Í næstu byggingu var svo eftirlíking svissnesku Alpanna þar sem stórvirkar vinnuvélar dældu snjó yfir fjöll og firnindi. Þar voru notaðar nýtískulegar vélar til þess að kæla gestina.
Barist við eld var ekki síður eftirminnileg upplifun en þær ofantöldu. Það var leiksýning í stöðugri sýningu þar sem slökkviliðsmenn björguðu íbúum úr brennandi húsi en 2000 manns tóku þátt í atriðinu.
Enginn hluti Dreamland gat þó keppt við vinsældir fyrrnefndrar dvergaborgar.
Kafli Rem Koolhaas um dvergaþorpið í bókinni Delirious New York:
„Liliputia, Dvergaborgin: Ef Dreamland er tilraunastofa fyrir Manhattan, er Dvergaborgin tilraunastofa fyrir Dreamland. Þrjú hundruð dvergar sem höfðu starfað víðsvegar í álfunni sem sýningargripir á heimssýningum fá að búa í varanlegu tilraunasamfélagi hér, „sem minnir á gömlu Nürnberg á fimmtándu öld“.
Þar sem hlutföll dvergaborgarinnar eru helmingi minni en í raunheimum, kostar aðeins, að minnsta kosti fræðilega, fjórðungi minna að reisa þessa pappaútópíu og því er ódýrt að gera tilraunir á áhrifum arkitektúrsins.
Dvergarnir í Dreamland eru með eigin þing, eigin strönd með dvergvöxnum strandvörðum og „smávaxið slökkvilið dvergaborgarinnar sem sinnir [á klukkutíma fresti] gabbútköllum“ – sem er góð ádeila á tilgangsleysi mannsins.
En aðalatriðið í dvergaborginni er hin félagslega tilraun sem þar fer fram. Innan veggja þessarar höfuðborgar dverganna eru venjulegar siðgæðisreglur kerfisbundið hunsaðar, og sú staðreynd sérstaklega auglýst. Framhjáhald, samkynhneigð, lauslæti og svo mætti lengja – dvergarnir eru hvattir áfram í þessu: hjónabönd hrynja nánast um leið eftir brúðkaupið; 80 prósent barna fæðast utan hjónabands. Til að auka við tryllinginn í skipulagðri óreglunni, fá dvergarnir ýmsa aðalstitla sem ýkir enn bilið á milli þess sem gefið er í skyn og það sem gerist í raun.
Dvergaborgin er tilraun Reynolds til að stofnanavæða frávikshegðun – sýning fyrir þjóðfélag sem er að brjótast úr viðjum siða og gilda Viktóríutímans.
Í maí 1911 verður skammhlaup í ljósbúnaði í Dreamland. Litlir neistar verða að björtu báli sem feykist til með sterkum vindhviðum sjávarins.
Nýja eldvarnarkerfið virkar ekki því vatnskerfi þess er ekki tengt við Atlantshafið. Þegar raunverulegir slökkviliðsmenn mæta á staðinn finna þeir engar notfærar vatnsdælur.
Bátar slökkviliðsins komast ekki nálægt eldinum. Og einungis slökkviliðsdvergarnir – sem loksins sjá alvöru eld eftir +/- 2.500 gabbútköll – ráðast á eldhafið; þeir bjarga hluta af Nürnberg sinni – slökkviliðsstöðinni – en að öðru leyti verður þeim ekkert ágengt.
Helstu fórnarlömb þessa stórslyss eru tamin dýrin sem nú eru fórnarlömb þess að hafa gleymt hinni villtu eðlisávísun; þau bíða eftir skipunum kennara sinna og ef þau ná að flýja, flýja þau of seint. Fílar, flóðhestar, hestar, górillur hlaupa í dauðans ofboði.
Dreamland brennur til ösku á þremur klukkustundum.“
Saga Dreamland rakin.