Spænskt kærustupar fer í lautarferð á sunnudegi. Skyndilega birtist fljúgandi furðuhlutur á himninum. Einn af þessum frægu fljúgandi diskum. Það er auðvitað stórmerkilegt að verða sjónarvottar að heimsókn geimvera. Maðurinn kveikir á myndbandsupptökuvélinni.
En fljótlega leysist þessi stórmerkilega stund í háværar illdeilur og kærustuparið gleymir algjörlega stað og stund. Hvaða spóla er í myndavélinni? Er það upptakan af ferðalaginu til Tyrklands?
„EKKI ÖSKRA!! Viltu að alþjóðlega vísindasamfélagið eins og það leggur sig og allar sjónvarpsstöðvarnar þurfi að hlusta á þig æpa!“
Þetta er stuttmyndin Domingo (Sunnudagur) eftir spænska kvikmyndagerðarmanninn Nacho Vigolondo.