The Shaggs var stúlknatríó frá Fremont, New Hampshire, sem hefur hlotnast sá vafasami heiður að vera iðulega titluð versta hljómsveit allra tíma.

 

Í gegnum tíðina hefur frumsamin tónlist þeirra af plötunni Philosophy of the World (1969) virkað sem segull á hver þau neikvæðu lýsingarorð er tjáir að nefna sem fólk grípur til þegar úthúða skal tónlistarfólki sem misþyrmt hefur hlustum þeirra: lagleysur, falskur söngur, vanstillt hljóðfæri, taktleysi og hlægileg textasmíð. Allt á þetta vel við um The Shaggs.

 

Faðir systranna Dorothy, Betty og Helen Wiggins var afar hjátrúarfullur maður og þegar ýmsir spádómar móður hans heitinnar höfðu ræst, ákvað hann að leggja sig fram um að láta annan til viðbótar rætast – nefnilega að dætur hans yrðu vinsælar tónlistarkonur.

 

Austin Wiggins dró því táningsdætur sínar úr námi og sendi þær í tónlistarnámskeið og skömmu síðar voru The Shaggs byrjaðar að koma fram á skemmtunum. Eftir nokkra tónleika þar sem púað var viðstöðulaust á systurnar, auk þess að það kom fyrir að tómum gosflöskum væri fleygt í þær, ákvað faðir þeirra að nú væri kominn tími á að festa snilldina á segulband. Þegar tæknimaður upptökuversins stakk upp á því að mögulega þyrftu systurnar að læra aðeins betur á hljóðfærin andmælti Austin og sagði að það þyrfti að drífa þetta af… while they‘re still hot.

 

Vídjó

 

Þó að ýmislegt andstyggilegt hafi verið sagt um The Shaggs („þær hljóma eins og lóbótómíseruð útgáfa af Von Trapp fjölskyldunni “ – The Rolling Stone), eru margir sem hrifist hafa af tónlist þeirra – þar á meðal Frank Zappa, sem lét hafa eftir sér í viðtali í Playboy að Philosophy of the World væri ein af sínum eftirlætis hljómplötum og að The Shaggs væru betri en Bítlarnir.

 

Þessi einstaka blanda af hrynbrenglun, tónklessum og barnslegri einlægni hefur veitt yngri kynslóðum tónlistargrúskara innblástur og ánægju – og þar með má ef til vill segja að spádómur ömmu Wiggins-systranna hafi ræst, undir óvæntum formerkjum.

 

Vídjó