Íslensk landafræðibók sem notuð var í barnakennslu á síðustu öld er uppfull af kynþáttahyggju og fordómum.

 

Ég fór eitt sinn á eyðieyju. Eyjan heitir Elliðaey og er á Breiðafirði. Eða má ekki segja að hún sé eyðieyja? Þar er allavega ekki búið lengur nema þegar ferðalanga ber að garði. Elliðaey er eins og eldgígur í laginu. Og hún minnti mig á sjóræningjaeyju í ævintýri eða bíómynd.

 

Á eyjunni voru þó engir flögrandi páfagaukar (reyndar margir litskrúðugir lundar) og engin fjársjóðskista. Það var samt fjársjóður þarna – ótrúleg náttúrufegurð og húsið sem er á eyjunni. Það varðveitir minninguna um mannabyggð á þessari litlu eyju.

 

karlfinnbogason_landafraedi

Landafræði Karls Finnbogasonar kom út í mörgum útgáfum og var kennd um áratugaskeið í íslenskum skólum. Í Degi árið 1920 birti Jónas frá Hriflu, skólastjóri Samvinnuskólans, inntökuskilyrði í skólann: „Í landafræði skulu nemendurnir hafa lesið kenslubók Karls Finnbogasonar“.

Og þegar kvöldaði fór ég að grúska í bókaskápnum í kotinu. Þar var margt af bókum frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Eftir að hafa flett í ýmsum bókum fangaði einn dýrgripur mig sérstaklega. Í henni voru fáránlegar setningar og ég gat ekki stillt mig um að hefja húslestur á þeim. Og samferðamenn mínir hlustuðu forviða á lesturinn á milli þess sem þeir teygðu sig í kaffibrúsann.

 

Bókin var Landafræði handa börnum og unglingum eftir Karl Finnbogason. Hún var fyrst gefin út um 1910 en var notuð í kennslu langt fram eftir nýliðinni öld.

 

Í þessari bók birtast ótrúlegir sleggjudómar, fordómar og kynþáttahyggja. Þjóðum heimsins er í raun slátrað í þessum íslenska barnaskólatexta. Svíar eru sagðir ófyrirleitnir, Tyrkir latir, Ítalir gáfaðir en mjög gjarnir á að fremja morð.

 

Þá er talað mjög illa um þá kynþætti heimsins sem ekki teljist hvítir. „Engin menningarþjóð, sem nokkuð kveður að, er Negrakyns,“ er til dæmis skrifað.

 

Boðskapur bókarinnar sýnir hvernig viðhorf voru almennt í samfélaginu – og í gervöllum vestrænum heimi – í upphafi tuttugustu aldar þegar menn trúðu einlæglega að flokka ætti menn eins og tegundir í kynþætti. Og þetta var það sem afar og ömmur okkar lærðu í skóla.

 

Slíkt hefur hins vegar löngu verið afsannað og hefur verið lýst sem „hættulegustu goðsögn manneskjunnar”. Eins og Kristín Loftsdóttir mannfræðingur bendir á hafa „[r]annsóknir síðustu áratugi hafa sýnt fram á að flokkun manna í kynþætti er ákveðið afsprengi menningar okkar og sögu, en ekki náttúruleg skipting mannkyns í líffræðilega hópa“. Vonum að landafræðin sem hér fylgir birtist aldrei aftur í íslenskum kennslubókum.

 

Skoðum brot úr þessari bók:

 

Landafræði handa börnum og unglingum

eftir Karl Finnbogason

 

Danir eru dugnaðarmenn í hvívetna og ágætir búmenn. Danir eru ein gagnmenntaðasta þjóð í Evrópu. Allir eru læsir og skrifandi, og tæplega öll alþýða manna í nokkru landi eins vel menntuð og í Danmörku. Eiga lýðháskólarnir þar góðan þátt í því.

 

Norðmenn eru náskyldir oss Íslendingum, og að ýmsu líkir, þótt þeir standi oss framar í mörgu. Flestir eru þeir ljósir á hár og bláeygir. Þeir eru hraustir og harðfengnir, og verða að jafnaði hærri og langlífari en aðrir Evrópumenn. Opinskáir eru þeir og gestrisnir, hugaðir og þrautseigir en þykja nokkuð fasmiklir og fljótir að skipta skapi. Skíða- og skautamenn eru þeir með afbrigðum enda leggja þeir mikla stund á vetraríþróttir, konur jafnt sem karlar. Þeir hafa getið sér mikla frægð fyrir dugnað og karlmennsku í rannsóknarferðum um heimskautahöfin.

 

Í nyrstu héruðum Noregs og Svíþjóðar (Finnmörk) búa Lappar. Þeir eru lotnir og lágir vexti, kjálkabreiðir og dökkir yfirlitum. Léttlyndir eru þeir sagðir, en lítt gáfaðir. Þeir lifa mest á hreindýrum, og reika með þau á heiðum uppi. Skíðamenn eru þeir ágætir og fara mjög á sleðum. Láta þeir hreindýrin draga þá. Á Finnmörk er mýbit mikið á sumrum.

 

Svíar eru sömu ættar og Norðmenn og Danir. Tunga þeirra er mjög svipuð norsku og dönsku, en nokkru beygjanlegri og hljómfegurri. Hún er sönghæf vel, og eru Svíar orðlagðir söngmenn. Svíar eru að jafnaði háir vexti og þreknir, beinvaxnir, bláeygir og ljóshærðir. Þeir eru iðnir og sparsamir, manna kurteisastir og gestrisnastir, en örgeðja og ófyrirleitnir ef því er að skipta.

 

Englendingar eru einhver duglegasta þjóð í heimi. Þeir eru mjög starfsamir, og allra manna þolnastir og þrautseigastir í hverri raun. Þeir hafa útbreiðst um heiminn allra þjóða mest og kunna jafnan að koma ár sinni fyrir borð. Landið hefur þingbundna konungsstjórn. Englendingar eru mótmælendatrúar og trúhneigðir mjög. Sunnudaginn halda þeir svo helgan, að jafnvel járnbrautarvagnar eru minna á ferli þann dag en aðra. Manna mest leggja þeir í sölur til að útbreiða biblíuna og boða heiðingjum kristna trú. Vísindi, einkum náttúruvísindi, standa með miklum blóma á Englandi.

 

Skotar hafa orð á sér fyrir hagsýni og dugnað, einkum sem verslunarmenn. Þeir eru mjög hneigðir til ferðalaga og fara svo margir að heiman, að fjórði hver Skoti býr utan Skotlands. Margir atkvæðamestu nýlendumenn Breta eru og hafa verið Skotar.

 

Frakkar eru gáfaðir og snarráðir, iðnir mjög og sparsamir. Landið er frjósamt og liggur vel við samgöngum og verslun, enda þjóðarauður Frakka meiri að tiltölu en nokkurrar annarrar Evrópuþjóðar. Frakkar eru allra manna skrautgjarnastir og smekkvísastir, og hafa lengi verið fyrirmynd annarra þjóða um háttprýði og verkfimi. „París er drottning tískunnar“. Alþýðumenntun Frakka er ábótavant nokkuð, en vísindi og listir eru með miklum blóma. Flestir eru rómversk-katólskir. Ríki og kirkja eru aðskilin, og engin sérstök trúfræði kennd í skólum ríkisins, en í stað þess siðfræði og almennar lífsreglur.

 

Ítalir eru Suðurlandabúar í húð og hár. Þeir eru kátir, viðmótsþýðir og létt um tungutak, en örlyndir mjög og uppstökkir. Morð og hverskonar lagabrot eru tíð með þeim. Auðvitað eru þeir rómversk-katólskir. Alþýðumenntun er fremur léleg. En gáfaðir eru þeir að eðlisfari og hafa ágætan listasmekk. Enda hafa þeir átt ágæta listamenn.

 

Ungverjar (Magyarar) eru skyldir Finnum. Þeir eru hraustir menn og duglegir, en þykja mikillátir og metorðagjarnir. Skrautgjarnir eru þeir, og ákaflega tilfinninganæmir. „Jafnan grætur glaður Ungverji“, segir máltækið. Söngur, dans og hljóðfærasláttur er líf Ungverja og yndi. Nær því hver maður kann að leika á fiðlu, og margir ágætlega. Reiðmenn eru þeir ágætir, og una ekki öðru betur en reika um sléttuna sína með hestinn og fiðluna, því „hvergi er líf nema á Ungverjalandi“, segja þeir.

 

Tyrkir eru sagðir latir og værukærir, og ófúsir til náms eða annara menningarstarfa. Enda eru vísindi og alþýðumenntun á lágu stigi með þeim. En þeir eru áreiðanlegir, orðheldnir og bindindissamir. Þess er krafist af þeim í „Kóraninum“, sem er biblía þeirra og lögbók. Tyrkir eru ágætir hermenn, og þola öðrum betur vosbúð og hverskonar skort, enda trúa þeir á óbreytileg forlög. Fjölkvænismenn eru þeir, og loka konur sínar inni í búrum eins og alifugla.

 

Hindúar eru hugsjónamenn og hafa auðugt ímyndarafl. Með þeim eru fram komin tvenn helstu trúarbrögð Asíumanna; Bramatrú og Búddhatrú. Sjálfir eru þeir flestir Bramatrúar, en sumir kristnir eða Múhameðstrúar. Bramatrúarmenn halda, að sálir manna eigi að hrekjast úr einum líkama í annan eftir dauðann, eða hegningu fyrir syndir sínar. Stundum eiga sálirnar að fara í dýralíkama, jurtir, eða aðra hluti. Hjá þessu sálnaflakki verður ekki komist, nema með því eina móti að aga sjálfan sig harðlega og kvelja á alla lund. Þess vegna eru sumir Bramatrúarmenn alveg einstakir meinlætamenn. Sumir Hindúar fleygja sér í helga fljótið, Ganges, til að láta krókódílana éta sig, því krókódílinn telja þeir heilagt dýr.

 

Kínverjar eru mjög nægjusamir og sparneytnir. Þeir þurfa miklu minna að borða en Evrópumenn. Fátæklingar lifa einkum á hrísgrjónum og tei. Annars neyta Kínverjar alls, sem tönn festir á. Hundar, kettir, froskar o.fl. svipað þykir þeim mesta sælgæti, enda kunna þeir vel að matbúa hvað sem er. Í stað gafla, hnífa og skeiða nota þeir tvo prjóna, sem þeir krossleggja, og gera úr einskonar töng.

 

Fátækir menn klæðast baðmullarfötum, og sumir stráklæðum, einkum sveitamenn. En auðmenn klæðast dýrum silkiklæðum og láta hina bera sig á burðarstólum. Á veturna er oft kalt í Kína, einkum norðantil. En Kínverjar hafa enga ofna. Þess vegna taka þeir það ráð að klæða sig í hvern fatnaðinn utan yfir annan.

 

Ýmsa undarlega siði hafa Kínverjar. Karlmenn raka á sér allt höfuðið, nema ofurlítinn blett í hnakkanum. Þar safna þeir löngum hártoppi og flétta. Sumir auðugir iðjuleysingjar skera ekki neglur sínar, en láta þær vaxa langt fram af gómunum. Síðan slá þeir þær gulli, og þykir mikill heiður að. Margir Kínverjar reykja ópíum.

 

Japanir eru náskyldir Kínverjum. Þeir eru smáir vexti, en duglegir mjög og herskáir. Þeir eru hreinlátir og smekkvísir, og svo vandir að virðingu sinni, að þeir mega ekki lifa við skömm – telja skyldu sína, að fyrirfara sér, ef þeir geta ekki rekið af sér óvirðingu með öðru móti.

 

Filippingar eru kristnir (rómversk-katólskir) og all vel siðaðir. Javabúar eru Múhameðstrúar, en flestir aðrir eyjaskeggjar eru heiðnir og margir sjóræningjar og mannætur.

 

Þeir [Negrar] eru svartir á hörund, frammynntir, varaþykkir og hrokkinhærðir. Höfuðið er langt og framtennurnar skáhallar. Hita þola þeir öllum mönnum betur. Þess vegna voru þeir líka einu sinni fluttir til Ameríku hópum saman og hafðir að þrælum. Þeir þoldu betur að vinna í hitanum en Indíánar og Evrópumenn.

 

Fjölkvæni er algengt með Negrum. Karlmennirnir kaupa sér eins margar konur og þeir hafa efni á; en svo láta þeir þær vinna fyrir sér og sínum, því þeir eru sagðir latir. Negrar eru hjátrúaðir mjög og halda, að allt sé fullt af öndum í kringum sig, einkum þeir hlutir sem þeim virðast undarlegir og fágætir, t.d. fossar, mislitir steinar, stórviðir, skrautlegar fjaðrir, útskornar spýtur o.s.frv.

 

Negrar halda, að allir sjúkdómar séu göldrum og gerningum að kenna. Enga jarðneska veru óttast þeir meira en „töframanninn“, prestinn, því hann er svo djúpvitur, að enginn jafnast við. Ef einhver veikist, getur hann alltaf sagt, hverjum það sé að kenna; og það er æfinlega einhver óvinveittur náungi, sem hefur sýkt manninn með galdri. Svo verður auðvitað að hegna honum stranglega.

 

Engin menningarþjóð, sem nokkuð kveður að, er Negrakyns, og illa þrífast ríki undir stjórn Negra. Enda lúta þeir nú flestir Evrópumönnum.

 

Bantúnegrar búa víðast í Mið- og Suður-Afríku. Þeir eru taldir gáfaðastir Negra og stunda einkum akuryrkju og kvikfjárrækt. Flestir trúa þeir á stokka og steina. Þeir eru herskáir mjög, og hafa verið næsta fjandsamlegir og hættulegir Evrópumönnum í Afríku.

 

Hottentottar eru mjög líkir öpum, ákaflega hrukkóttir í framan og hárið í lögðum. Þeir stunda einkum kvikfjárrækt, en fer óðum fækkandi, og hafa Evrópumenn farið mjög illa með þá. Búskmenn eru dvergar að vexti, lifa á dýraveiðum, hafa boga að vopni og búa í holum og hellum á Kalahari.

 

Náttúrufar Nýja-Hollands er víða óhagstætt menningu, enda eru Ástralíunegrar á lágu stigi. Þeir hafa enga fasta bústaði, og lifa á veiðum. Flest leggja þeir sér til munns, sem tuggið verður og þeir festa hendur á, t.d. ávexti, rætur, rottur, leðurblökur, lirfur og slöngur. Óvini sína éta þeir með góðri lyst.

 

Þeir búa í barkarkofum, eða skýlum úr samanbrugðnum greinum, ganga naktir eða klæddir kengúruskinnum, og skreyta hár sitt með fjöðrum og skottum. Vopn hafa þeir ekki, nema úr steini eða tré. Vanalega festa Ástralíunegrar sér konu með þeim hætti, að þeir ræna henni úr föðurgarði, eða fá hana að erfðum. Hún er þý eða ambátt mannsins, og til merkis um það bítur hann fremsta liðinn af hverjum vinstri handar fingri hennar, þegar hjónabandið er stofnað. Ekki fá nema 2-3 börn hverra foreldra að lifa. Hin eru deydd nýfædd eða étin. Dánir menn, sem ekki eru étnir, eru brenndir, eða búið um þá á greinum, sem festar eru milli trjáa eða staura. Þar eru þeir huldir berki og grasi. Ekki trúa Ástralíunegrar á aðrar voldugar verur en illa anda, og mönnum fjandsamlega. Aðalskemmtun þeirra er að dansa í kringum elda í tunglsljósi.

 

Eyjaskeggjar [á Nýju-Gíneu] eru Negrakyns og nefnast Papúar. Þeir eru mannætur, en standa Ástralíunegrum miklu framar að menningu. Aðalatvinnuvegir þeirra eru veiðar, akuryrkja og vöruskiptaverslun við Malaja. Flestir ganga naktir, en hengja fjaðrir og annað skraut í eyrun og miðsnesið.

 

Suðurhafsmalajar eru ljósbrúnir á hörund, slétthærðir og svarthærðir, lítt skeggjaðir, háir vexti og fríðir sínum. Þeir þurfa lítið fyrir lífinu að hafa og eru glaðlyndir og áhyggjulitlir. Helst ganga þeir naktir að mestu, en til prýðis „tattóvera“ þeir sig og laga hár sitt með ýmsum hætti. Þegar Evrópumenn komu fyrst til eyjanna, voru eyjaskeggjar allvel menntaðir. Gerðu þeir guðamyndir, musteri og aðrar byggingar, verkfæri og margt fleira af mikilli list og smekkvísi. Þeir bjuggu í bæjum og þorpum og höfðu skipulegan félagsskap. Nú hnignar þeim og fer óðum fækkandi, síðan Evrópumenn fóru að skipta sér af þeim.