Það eru aðeins tæplega 200 ár liðin frá því menn sáu Suðurskautslandið í fyrsta sinn. Hinn 27. janúar 1820 sáu Fabian Gottlieb von Bellingshausen, þýskættaður höfuðsmaður og landkönnuður í rússneska flotanum, og undirmenn hans glitta í hina ísilögðu heimsálfu eilífs vetrar frá skipum sínum. Og það var ekki fyrr en í byrjun tuttugustu aldarinnar að tæknin leyfði mönnum í fyrsta sinn að kanna Suðurskautslandið almennilega.
Sumarið 1911 ferðaðist hópur ástralskra vísindamanna til Suðurskautslandsins og dvaldi þar til 1914. Jarðfræðingurinn Dr Douglas Mawson var leiðangursstjóri. Þetta var á sama tíma og könnuðir á borð við Roald Amundsen, Robert Falcon Scott, Ernest Shackleton og fleiri sögufrægir menn drýgðu hetjudáðir miklar í þessari leyndardómsfullu álfu.
Mawson leiddi menn sína til King George V Land og Adelie Land, þess hluta Suðurskautslandsins sem er beint suður af Ástralíu, en það voru nær algjörlega ókunn lönd á þeim tíma.
Hér sjáum við myndir sem ljósmyndarinn Frank Hurley tók í bæði þessum sögufræga ástralska leiðangri og fleiri ferðum sem farnar voru árin á eftir. Myndirnar eru varðveittar í State Library of New South Wales.