Skáldsagan Föðurland (Fatherland) eftir Robert Harris kom út 1993 í íslenskri þýðingu Guðbrands Gíslasonar. Bókin fylgir „hvað ef?“-forminu. Hún spyr hvað hefði gerst ef Adolf Hitler og Þýskaland nasismans hefði sigrað í síðari heimsstyrjöldinni. Árið 1994 gerði HBO sjónvarpsmynd byggða á bókinni.

Vídjó

Sögusviðið er Berlín 1964. Hátíðarhöld vegna 75 ára afmælis Hitlers eru í undirbúningi. Stórveldi hans samanstendur af flestum ríkjum Evrópu. Það stendur í stöðugu stríði við Sovétríkin, þar sem Stalín ræður enn ríkjum. Þýskaland hefur náð samkomulagi við Bandaríkin og bandamenn í Rómönsku Ameríku um „slökun spennu“ (détente).

Sögusviðið Berlín 1964.

Joseph Kennedy Bandaríkjaforseti er væntanlegur til Berlínar til fundar við Hitler. Á sama tíma rannsakar Xavier March (Rutger Hauer) dularfullt morðmál sem virðist teygja anga sína til innsta kjarna í nasistaflokknum. Hvaða leyndarmál búa að baki?

„Hvað ef?“-forminu hefur verið beitt í sagnfræði sem hugaræfingum um tilviljanir sögunnar. Það getur hjálpað okkur að skilja óreiðu veruleikans og fengið okkur til að endurmeta það sem við fyrstu sýn virðast óhjákvæmilegar niðurstöður. Hefðu Bandamenn getað tapað stríðinu? Hvernig hefði framhaldið litið út? Árið 2017 kom út íslenskt verk sem notast við formið, Örninn og Fálkinn eftir Val Gunnarsson. Hún spyr hvað hefði gerst ef nasistar hefðu hernumið Ísland á undan Bretum vorið 1940.