Fyrir venjulegt fólk sem leikur sér í íþróttum er það líklega draumur að fá að leika uppáhaldsíþróttir sínar með hetjum sínum. Eiður Smári Guðjohnsen að spila leiki á Pollamótinu á Akureyri með venjulegum bumbuboltaleikmönnum er örugglega eftirminnileg reynsla, að minnsta kosti fyrir hina síðarnefndu, svo dæmi sé nefnt.
Ein vinsælasta saga sem gengið hefur um vefsíðuna Reddit birtist árið 2017 og fjallar einmitt um slíkt atvik. Sagan segir frá einum besta körfuboltamanni allra tíma, sem mætti óvænt í íþróttahús KFUM í Hollywood-hverfi Los Angeles í Kaliforníu. Í mörgum borgum Bandaríkjanna er algengt að KFUM og KFUK bjóði almenningi upp á aðstöðu til að stunda íþróttir á borð við sund, almenna líkamsrækt eða körfubolta – og það er einmitt það sem Reddit-notandinn toldyaso gerði í hádegishléinu sínu um sumarið 1997. Gefum honum orðið.
Ég átti alltaf aðildarkort að íþróttahúsi KFUM í Hollywood, þar sem var spilaður körfubolti á hverjum einasta degi. Iðulega mættu þangað nokkrir gaurar sem voru meira og minna alltaf þarna en stundum, einu sinni til tvisvar í viku, mættu alveg sjúklega góðir fyrrum háskólaleikmenn eða jafnvel fyrrum atvinnumenn í körfubolta.
Reglurnar voru þannig að fimm manna lið voru mynduð. Spilað var upp í 10 stig og sigurliðið hélt vellinum, tapliðið skipti við næsta lið sem var tilbúið að spila. Þegar þessir sjúklega góðu leikmenn komu, spiluðu þeir alltaf saman og gátu þannig hangið inni á vellinum klukkustundum saman (þeir voru líka algerir fávitar, þóttust eiga salinn o.s.frv.).
Það var einn maður á besta aldri (um 60 ára eða svo) sem spilaði mjög oft. Hann var ekkert sérstaklega góður en gat látið rigna þristum þegar hann var í stuði en þar að auki var hann oft að gorta sig af því að þekkja Magic Johnson. Að hann myndi einn daginn mæta með Magic og þeir myndu taka þessa sjúklega góðu gaura í bakaríið. Við hinir vorum bara jájá, ekki séns í helvíti. Síðan, viti menn, mæta einn daginn þessir sjúklega góðu gaurar og sigra hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Einn þeirra spilaði fyrir UCLA-háskólann á sínum tíma og annar hafði verið atvinnumaður í Evrópu. Þeir voru með alls konar stæla, skipa öðrum fyrir verkum og biðja um aumar villur. Þangað til sextugi gaurinn flippar út og snöggreiðist. Hann fer úr salnum og segist ætla koma aftur eftir 20 mínútur. Og, 20 mínútum síðar, mætir hann aftur ásamt, án djóks, Magic Johnson.
Þetta var um sumarið 1997, þannig að Magic hefur verið hættur í atvinnukörfubolta í eitt ár eftir seinni endurkomu sína. [Innsk: Johnson tók fram körfuboltaskóna veturinn 1995-1996 eftir fjögurra ára hlé frá NBA-deildinni og lék vel sem sjötti maður með Los Angeles Lakers]. Hann var í mjög góðu formi og mér fannst eins og hann væri svona 10 metrar að hæð í samanburði við sjálfan mig, en ég er 188 cm að hæð. Þannig Magic og sá sextugi búa til fimm manna lið. Ég reyndi að fá þá til að velja mig en þeir vildu fá fljótari menn á meðan ég er þekkt skytta [innsk. rólegur, @toldyaso]. Að lokum kom að því að þeir stíga inn á völlinn. Magic tók að sér að vera leikstjórnandi, rakti boltann upp allan völlinn, og sagði að hann myndi aðeins taka tvö skot í hverjum leik. „Fyrstu körfu leiksins, og þá síðustu.“ Hinir gaurarnir brostu háðslega og sögðu honum að skjóta eins og honum sýndist. Þeir virtust ekki vitund stressaðir.
Til að gera langa sögu stutta, Magic gersamlega rústaði þessum leik og lét þessa sjúklega góðu gaura líta út fyrir að vera litla stráka. Eins og hann hafði sagt, þá skoraði hann einmitt fyrstu körfu leiksins, þriggja stiga körfu af mjöög löngu færi (sem taldi reyndar tvö stig eins og algengt er í þannig leikjum) en síðan fór hann bara að senda boltann. Það var eins og hann hafi tekið öll fráköstin í öllum leiknum og átti nokkrar sturlaðar sendingar. Einu sinni tók hann upp á því að rekja boltann allan völlinn með því að hlaupa aftur á bak, hlæjandi alla leiðina og greinilega ekki einu sinni að reyna á sig. Sextugi gaurinn sem kom með Magic hitti síðan úr þriggja stiga skoti til að gera stöðuna 9-3 eða 9-4, man ekki alveg, en þá sagði Magic, skælbrosandi, „jæja, þið fáið að vera með boltann einu sinni enn og síðan er þessum leik lokið.“
Hitt liðið tók boltann upp völlinn en skyndilega, upp úr þurru, eins og eldingu hafi lostið, Magic… hann hvarf bara, hann var það snöggur, hann gersamlega þaut af stað, stal boltanum af leikstjórnanda hins liðsins, rakti boltann upp völlinn eins hjartardýr á spretti, fór upp að körfunni og tróð. Ekkert sérstaklega fast, þetta var ekkert ótrúleg troðsla, þetta var meira eins og hann hafi troðið boltanum með svipaðri áreynslu og venjulegt fólk þarf til að opna hurð á bíl. Andlitssvipurinn breyttist ekki einu sinni. Game over.
Eftirskrift:
Hinir gaurarnir kröfðust þess auðvitað að fá annan leik en Magic minnti þá á að samkvæmt reglunum þyrftu þeir frá að hverfa og bíða eins og allir aðrir. Svo fór að Magic spilaði þarna í íþróttahúsinu í tvo tíma og vann að minnsta kosti 10 leiki á þeim tíma. Þessir sjúklega góðu gaurar fengu sitt tækifæri og spiluðu tvisvar í viðbót gegn liði Magic, sem sigraði aftur í bæði skiptin. Hitt liðið átti ekki séns.
Hér má lesa upprunalega sögu @toldyaso ásamt umræðuþræði sem er einnig mikil skemmtun fyrir körfuboltaáhugafólk.